Category Archives: 104 Reykjavík

Betri aðstaða á Tjaldsvæðinu í Laugardal

Nýtt þjónustuhús með snyrtiaðstöðu, ný eldunaraðstaða ásamt skála sem rúmar um 70 gesti, sem og ný afgreiðsla er meðal þess sem gert hefur verið á Tjaldsvæðinu í Laugardal á liðnum árum. Í gær var boðið til veislu til að fagna þessum verklokum og 15 ára farsælu samstarfi Reykjavíkurborgar og Farfugla um rekstur Tjaldsvæðisins.

Tímabært var að ráðist yrði í endurbætur en hluti af aðstöðunni er frá því tjaldsvæðið var opnað árið 1986 og það ár voru um 12.000 gistinætur á svæðinu.  Á síðasta ári voru gistinæturnar hins vegar orðnar 42.700 talsins og á þessu ári er gert ráð fyrir að þær verði um 46.000.

Íbúafundur um Laugardalinn

Opinn íbúafundur í Laugabóli, félagshúsi Þróttara, mánudaginn 23. mars kl. 19:30.

Framsöguerindi flytja:

  • Björn Jón Bragason, sagnfræðingur: „Laugardalur fyrr og nú“.
  • Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar: „Umhverfi og skipulag í Laugardal“.
  • Lilja Sigrún Jónsdóttir, í stjórn Íbúasamtaka Laugardals: „Ræðum framtíð Laugardals“.

Á eftir verða pallborðsumræður með þátttöku ýmissa aðila sem tengjast starfsemi Laugardalsins.

Fundarstjóri: Heiðar Ingi Svansson, formaður Hverfisráðs Laugardals.

Kaffi verður á könnunni. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Garðaganga í Laugardal

Sunnudaginn 10. ágúst verður boðið upp á garðagöngu um Laugardal og Laugarás. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur, Garðyrkjufélags Íslands og Íbúasamtaka Laugardals. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Kaffisopi og spjall í lok göngu. Mæting við aðalinngang Grasagarðs kl. 10.

Frá Grasagarðinum verður gengið í gegnum skrúð-, rósa- og aldingarðana í Laugardal. Þaðan verður rölt eftir Sunnuvegi upp á Laugarásveg þar sem einkagarður Bryndísar Jónsdóttur verður skoðaður. Bryndís og eiginmaður hennar, Snæbjörn Jónasson heitinn, ræktuðu garðinn upp af alúð og þar má þar finna ýmsar fágætar plöntur meðal annars úrval lyngrósa, sígræna runna, tré og annan áhugaverðan gróður.

Frá Laugarásvegi liggur leiðin upp á holtið við Áskirkju þar sem holta- og garðagróður dafnar vel. Af holtinu er gott útsýni yfir gróskumikinn Laugardalinn. Eftir stutt stopp verður gengið eftir Vesturbrún og niður að einkagarði Ragnhildar Þórarinsdóttur og Bergs Benediktssonar við Brúnaveg. Garðurinn þeirra umlykur Gamla pósthúsið, sem er eitt af sögufrægum húsum Reykjavíkur og hefur komið víða við í borginni. Garðurinn er ævintýralega skemmtilegur með einstöku evrópulerki, fjölda gamalla og nýrra trjáa og úrvali fjölæringa.

Sólarhringsopnun í Laugardalslaug í Miðnæturhlaupi

Miðnæturhlaupið 2014 er nú haldið í 22. sinn og hefst og endar í Laugardalnum. Að loknu hlaupi er öllum þátttakendum boðið í Laugardalslaugina. Borgarbúar og aðrir gestir geta einnig notað laugina við þetta tækifæri.

 

Miðnæturhlaup Suzuki 2014 fer fram mánudaginn 23. júní.  Um 1200 eru skráðir til þátttöku í hlaupið, 320 í hálfmaraþon, 450 í 10 km hlaupið og 440 í 5 km hlaupið.

Af þeim 1200 þátttakendum sem skráðir eru í hlaupið eru um 400 erlendir gestir og hafa þeir aldrei verið fleiri en nú. Flestir erlendu gestanna koma frá Bandaríkjunum eða 106. Þá eru skráðir Bretar eru 95, Kanadamenn 83 og Svíar 16. Erlendu þátttakendurnir eru af 43 þjóðernum.

9135605215_8e2d7fffd5_z

Ljósmyndari: Hafsteinn Óskarsson  (marathon.is)