Category Archives: Almennt

Hækkun á atvinnuleysisbótum

Atvinnuleysisbætur hækkuðu 1. maí síðastliðinn um tæp 19%. Hækkunin er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þágu félagslegs stöðugleika frá 27. febrúar sl. sem gerð var í tengslum við mat á kjarasamningnum á almennum vinnumarkaði.

Hækkun atvinnuleysisbóta tók gildi með reglugerð sem félags- og jafnréttismálaráðherra staðfesti 23. apríl síðastliðinn og tók gildi 1. maí. Samkvæmt henni hækkaði hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr 358.516 kr. á mánuði í 425.647 kr., miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu. Jafnframt hækkuðu óskertar grunnatvinnuleysisbætur úr 227.417 kr. á mánuði í 270.000 kr. á mánuði. Hækkunin nemur 18,7%.

Embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands laust til umsóknar

Velferðarráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna frá 1. nóvember 2018 til fimm ára að fenginni tillögu stjórnar Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd sjúkratrygginga, semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu.

Forstjóri ber ábyrgð á því að Sjúkratryggingar Íslands starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

 • Menntunar- og hæfniskröfur:
 • Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
 • Farsæl reynsla af stjórnun og áætlanagerð.
 • Haldbær reynsla af fjármálum, uppgjöri og rekstri.
 • Reynsla eða þekking á mannauðsmálum.
 • Reynsla eða þekking á heilbrigðismálum.
 • Skipulag, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
 • Jákvæðni og hæfni í mannlegum samskiptum.
 • Leiðtogahæfileikar.
 • Skýr sýn um þróun heilbrigðisþjónustunnar og á hlutverki Sjúkratrygginga Íslands innan hennar.

Um kjör forstjóra fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör skv. 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri, vilborg.ingolfsdottir@vel.is.Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil, ásamt rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í embættið, skulu berast velferðarráðuneytinu, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík eða á netfangið: postur@vel.is eigi síðar en 10. júní nk.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið hefur verið tekin.

Tíundu hverri íslenskri langri leikinni kvikmynd leikstýrt af konu

Frá árinu 1949 til ársloka 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd hér á landi. Karlar hafa leikstýrt langflestum myndanna eða níu af hverjum tíu. Flestar myndanna flokkast sem drama- og gamanmyndir. Um ein af hverjum tíu kvikmyndum eru barna- og fjölskyldumyndir.

Fyrsta íslenska leikna kvikmyndin í fullri lengd var frumsýnd árið 1949. Það var kvikmyndin Milli fjalls og fjöru í leikstjórn Lofts Guðmundssonar. Næsta áratuginn voru frumsýndar fimm leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd. Eftir það dró úr framleiðslu langra leikinna mynda hér á landi. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru aðeins frumsýndar tvær innlendar myndir í fullri lengd, ein á hvorum áratug. Frá árinu 1980 að telja hefur árvisst verið frumsýnd innlend leikin kvikmynd í fullri lengd, tíðast fleiri en ein eða tvær hvert ár. Flestar voru myndirnar árið 2011, en þá voru frumsýndar myndir tíu talsins. Frá 1949 til loka árs 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd, eða fast að þrjár myndir að jafnaði á ári.

Heimild: hagstofa.is

 

Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullrannsökuð

Starfshópur um framtíð Reykjavíkurflugvallar skilaði Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýverið áfangaskýrslu sinni. Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, skipaði hópinn í september síðastliðnum.

Tillögur starfshópsins eru að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð svo fljótt sem verða má með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Einnig yrðu tryggðar greiðar samgöngur milli borgarinnar og hins mögulega nýja flugvallar. Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar og bent er á að hraðað verði sem kostur er ákvarðanatöku vegna málsins.

Hópnum var falið það hlutverk að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skyldi hópurinn leita lausna sem geti sætt ólík sjónarmið um hlutverk flugvallarins í dag og til framtíðar. Hópnum var falið að taka mið af eftirfarandi skilyrðum í viðræðum sínum:

 • Flugvellir á suðvesturhorni landsins uppfylli skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klst. ferðatíma. Þjónustan verði sambærileg við núverandi flugvöll í getu og afköstum.
 • Af öryggissjónarmiðum þurfi tvo flugvelli á suðvesturhorni landsins sem þjónað geti millilandaflugi með góðu móti.
 • Stjórnvöld geti ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.
 • Flugvellir á suðvesturhluta landsins uppfylli öryggishlutverk gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnahlutverk. Jafnframt sé mikilvægt að góð aðstaða fyrir kennslu- og þjálfunarflug sé á slíkum flugvelli.

Auk þessa skyldi starfshópurinn hafa til hliðsjónar skýrslu Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins bæði í apríl og október 2013, taka tillit til markmiða samgönguáætlunar og niðurstöðu svokallaðrar  Rögnunefndar frá júní 2015 um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu.

Starfshópurinn hefur haldið sjö fundi og segir í skýrslunni að í gögnum komi fram að horft sé til Hvassahrauns sem líklegasta kosts fyrir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu verði flugvöllur í Vatnsmýri aflagður. Hafi því verið ákveðið að skoða þann kost og ræða fyrst við aðila sem gerst þekkja aðstæður þar. Þá fór hópurinn yfir aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030.

Í hópnum sátu Hreinn Loftsson, lögmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir ráðgjafi, Linda Gunnarsdóttir flugstjóri, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

Foreldrar langveikra og alvarlega fatlaðra barna fá desemberuppbót

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót, að hámarki 53.123 kr. Þetta er nýmæli en uppbótin er sambærileg þeirri sem greidd er lífeyrisþegum og atvinnuleitendum.

Samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi nr. 22/2006 rétt á desemberuppbót. Uppbótin er hlutfallsleg þannig að foreldri sem fengið hefur mánaðarlega greiðslu samkvæmt lögunum alla tólf mánuði ársins fær fulla desemberuppbót, þ.e. 53.123 kr.

Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.

Helstu skattbreytingar 2018

Ýmsar breytingar verða á skattkerfinu 1. janúar 2018 þótt þær séu færri nú en oft áður um áramót. Hér á eftir verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna, bæði þeirra sem snerta heimili og fyrirtæki.

Tekjuskattur einstaklinga og útsvar

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga í ársbyrjun 2018 vegna verðlagsuppfærslu persónuafsláttar og þrepamarka. Persónuafslátturinn hækkar um 1,9% og þrepamörkin um 7,1%. Skattþrepin verða áfram tvö og skatthlutföllin óbreytt. Miðað við fyrirliggjandi ákvarðanir sveitarstjórna munu aðeins tvö sveitarfélög breyta útsvari sínu um áramótin og verður meðalútsvar í staðgreiðslu óbreytt, 14,44% . (1) Skattleysismörkin í staðgreiðslu hækka því um 1,9% og verða tæplega 152 þús.kr. á mánuði, þegar tekið er tillit til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Þrepamörkin, þar sem hærra skattþrepið tekur við, hækka úr 834.707 kr. í 893.713 kr. á mánuði.

Tilfærsla milli tekjuskattsþrepa í þeim tilvikum þegar annað hjóna eða samskattaðra aðila hefur tekjur í efra skattþrepi en hitt ekki getur að hámarki numið 446.857 kr. á mánuði í stað 417.354 kr. árið 2017. Tekið er tillit til samsköttunar við álagningu opinberra gjalda og mun framangreind fjárhæð gilda við álagningu tekjuskatts á árinu 2019.

Meðfylgjandi tafla sýnir skatthlutföll tekjuskatts og útsvars, persónuafslátt, skattleysismörk og þrepamörk árin 2017 og 2018.

Nánari upplýsingar um breytingar á tekjuskatti, útsvari, persónuafslætti og skattleysismörkum við áramótin eru í frétt ráðuneytisins frá 22. desember sl. og í auglýsingu á vef Stjórnartíðinda frá 27. desember sl.

Barnabætur og vaxtabætur

Fjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% milli áranna 2017 og 2018 og tekjuskerðingarmörk um 7,4% milli ára. Fjárhæðir og skerðingarmörk vaxtabóta haldast óbreytt milli ára. Sé tekið dæmi af barnabótum þá munu tekjuskerðingarmörkin hækka úr 225 þús.kr. á mánuði í um 242 þús.kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 450 þús.kr. á mánuði í um 483 þús kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, auk 8,5% hækkunar á bótafjárhæðunum eins og áður segir. Einstætt foreldri með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 242 þús.kr. á mánuði hefði án framangreindra breytinga fengið 66.434 kr. á mánuði í barnabætur á árinu 2018 en fær eftir breytinguna 73.892 kr., á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.458 kr. Hjá hjónum með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 483 þús.kr. á mánuði fer fjárhæð barnabóta úr 44.517 kr. á mánuði í 51.875 kr. á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.358 kr. Rétt er að taka fram að barnabætur eru skattfrjálsar.

Fjármagnstekjuskattur

Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts hækkar úr 20% í 22% um áramótin. Skatthlutfallið 22% gildir því við staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum og arði frá og með 1. janúar 2018 og við álagningu fjármagnstekjuskatts sumarið 2019 á þær fjármagnstekjur ársins 2018 sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkar jafnframt úr 125 þús.kr. í 150 þús.kr. sem þýðir að langflestir greiðendur fjármagnstekjuskatts munu ekki greiða hærri skatt þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Hér eftir sem hingað til er þó ekki tekið tillit til frítekjumarksins í staðgreiðslukerfinu heldur eftir á, við álagninguna. Hækkun frítekjumarksins er hins vegar afturvirk og mun gilda þegar álagning á vaxtatekjur ársins 2017 fer fram sumarið 2018. Skatthlutfall aðila með takmarkaða skattskyldu og tiltekinna lögaðila, eins og sameignar- og samlagsfélaga, sem tekur mið af bæði tekjuskatti lögaðila og fjármagnstekjuskatti einstaklinga, hækkar tilsvarandi úr 36% í 37,6% 1. janúar 2018.

Krónutölugjöld

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækka almennt um 2% um áramótin. Hið sama gildir um „nefskattana“ tvo, þ.e. útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkunin miðast við að gjöldin haldi verðgildi sínu miðað við almennt verðlag. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 50% í samræmi við þá stefnu að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Krónutölugjöld eru sýnd í meðfylgjandi töflu.

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en verður nú framlengd þangað til bílum hefur fjölgað í 10.000 í hverjum þessara þriggja flokka fyrir sig, en þó ekki lengur en til ársloka 2020.

Vörugjöld á bifreiðar ökutækjaleiga

Ökutækjaleigur (bílaleigur) hafa um árabil notið skattastyrks í formi afsláttar af vörugjaldi sem lagt er á við innflutning bifreiða. Fast hámark sem sett er á afsláttinn á hverja bifreið lækkar úr 500 þús.kr. í 250 þús.kr. 1. janúar 2018. Þessi ívilnun fellur úr gildi í árslok 2018.

Heimild: stjornarradid.is

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir þetta fyrsta skrefið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir dyrum standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið með þetta að markmiði, líkt og fjallað sé um í stjórnarsáttmálanum: „Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins“ segir Ásmundur Einar.

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.

 • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
 • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:

 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar efldur

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita um 16,5 m. kr. framlag af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu í aukið stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar sem var stofnaður árið 2013.

Gunnar Gunnarsson skáld og eiginkona hans Franzisca gáfu íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu, ásamt húsakosti með gjafabréfi árið 1948 með þeim skilmálum að jarðeignin skyldi vera ævarandi eign íslenska ríkisins og skyldi hún hagnýtt þannig að til menningarauka horfði. Auk þess hafa erfingjar skáldsins framselt handhöfn höfundarréttar af verkum Gunnars til Gunnarsstofnunar sem fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ríkisstjórnin ákvað, með vísan til hinnar einstöku gjafar Gunnars Gunnarssonar og ættingja hans, að auka stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar um u.þ.b. 16,5 m. kr.

Aðgerðir stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um að bregðast beri við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Alþingi hefur samþykkt tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að í fjáraukalögum 2017 verði varið 665 milljónum króna til að koma til móts við sauðfjárbændur.

Í fyrsta lagi munu bændur eiga kost á greiðslum sem miðist við fjölda kinda á vetrarfóðrum samkvæmt haustskráningu Matvælastofnunar. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Til þessa verkefnis verði varið 400 m.kr.

Í öðru lagi er 150 m.kr. aukalega varið í svæðisbundinn stuðning við bændur sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan bús vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar þeim 150 m.kr. sem varið er til þessara mála samkvæmt gildandi búvörusamningi.

Þá verði ráðist í úttekt á afurðastöðvakerfinu sem verði grundvöllur viðræðna stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Til þessa verkefnis verður varið allt að 65 m.kr.

Verkefni er lúta að kolefnisjöfnun eru styrkt sérstaklega enda er mikilvægt að nýta krafta bænda til að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Þá er lögð áhersla á að efla nýsköpun og vöruþróun til að mæta kröfum ólíkra markaða og að styrkja útflutning. Til að undirbyggja framangreind verkefni og tengja þau við  endurskoðun búvörusamninga verði heimilt að verja þeim 50 m. kr. sem eftir standa.

Þá verði málefni ungra sauðfjárbænda tekin til sérstakrar skoðunar af Byggðastofnun í ljósi umræðu um skuldavanda þeirra og kostir eins og endurfjármögnun og/eða lenging lána kannaðir sérstaklega.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Við erum að bregðast við fordæmalausum vanda sem felst í því að afurðaverð til bænda hefur fallið um þriðjung vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ég vona að um málið geti myndast pólitísk sátt enda erum við að styrkja tekjugrundvöll greinarinnar og jafnframt að styðja þá bændur sem byggja tekjur sínar nær alfarið á búrekstrinum. Þetta á ekki hvað síst við um bændur sem búa hvað lengst frá þéttbýli.

Oddný Steina Valsdóttir formaður Landssambands sauðfjárbænda: „Landssamtök sauðfjárbænda fagna því að komnar eru fram aðgerðir gagnvart greininni. Það er mikilvægt að brugðist sé strax við þeim rekstrarvanda sem bændur standa frammi fyrir. Þá telja samtökin einnig jákvætt að farið verði í úttekt á afurðageiranum enda greining sem er nauðsynlegur liður fyrir framtíðarlausnir. Í framhaldinu er nauðsynlegt að fara í frekari vinnu til framtíðarlausna. Það er mikilvægt að fyrir liggi ákveðið ferli og ekki þurfi að treysta á sértækar aðgerðir þegar fall verður á mörkuðum vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Heimild: stjornarradid.is

Fjárlög samþykkt á Alþingi

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi 30. desember 2017.  Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum.  Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.

Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.

Með samþykkt fjárlaga eru stigin fyrstu skrefin í langtímastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er megináhersla á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, styrkja innviði s.s. samgöngur og heilbrigðiskerfið, renna stoðum undir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og auka stuðning við menntun og nýsköpun.

Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.

Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 22 ma.kr. sem skiptist m.a. þannig að til heilsugæslunnar rennur 2,3 ma.kr., í sjúkrahúsþjónustu 8,8 ma.kr., í lyf: 5,4 ma.kr. og í tannlækningar: 500 m.kr.

Aukning frá síðasta fjárlagafrumvarpi í heilbrigðismálum eru 8 ma.kr. og skiptist þannig að til sjúkrahúsþjónustu er veitt 3 ma.kr., í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (þ.m.t. heilsugæsla) 1,3 ma.kr., í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu 360 m.kr., í lyf og lækningavörur 3 ma.kr. og í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fara 270 m.kr.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4%. Þannig munu greiðslur til einstæðs tveggja barna foreldris á lágmarkslaunum hækka um rúmlega 12% á ári. Frítekjumark fyrir aldraða verður þegar hækkað úr 25 þúsund kr. í 100 þúsund kr. um áramótin.

Aukning í menntamálum frá síðustu fjárlögum nemur 4,1 ma.kr. Af þeim fer 2,9 ma.kr. til háskólastigsins og 1,0 ma.kr. til framhaldsskólastigsins.

Til úrbóta í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis renna samtals 376 m.kr. til nokkurra málefnasviða, m.a. innan löggæslu, heilbrigðiskerfisins og réttarkerfisins.

Í eflingu Alþingis er veitt 22,5 m.kr. framlag til þess að styrkja löggjafar, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins. Aukið framlag til þingflokka nemur 20 m.kr.

Varðandi eflingu löggæslu er tímabundið 400 m.kr. framlag, sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, gert varanlegt. Þá er veitt 298 m.kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlagið skiptist í 178 m.kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrotamála og í öllum þáttum málsmeðferðar, 80 m.kr. framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið og 40 m.kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu.

Framlag til héraðssaksóknara er aukið um 38 m.kr. sem ein fjölmargra aðgerða til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlaginu er ætlað að styrkja innviði embættisins til að bæta ákærumeðferð kynferðisbrota í samræmi við áherslur sem fram koma í aðgerðaáætluninni.

Framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins er aukið um 20 m.kr. til að styrkja framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og vinnu við fullgildingu Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 ma.kr. varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða níu framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir. Framlag til hafnaframkvæmda (hafnabótasjóðs) hækkar um 500 m.kr. frá gildandi fjárlögum.

Fjárheimild á sviði sjávarútvegsmála hækkar um 90 m.kr. vegna framlags til vöktunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.

Aukið fjárframlag til umhverfismála, frá frumvarpinu sem lagt var fram í september sl., nemur 334 milljónum kr. Til náttúruverndar verður varið 296 m.kr. 260 m.kr. verður veitt í landsáætlun um uppbyggingu innviða og 36 m.kr. til friðlýsinga. Einnig var 150 m.kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi framlengt. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 m.kr. og ófjármagnað af því eru um 180 m.kr.

Til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fara 18 m.kr. og 20 m.kr. í stofnun nýs loftslagsráðs.

Til mennta- og menningarmála verða veittar 290 m.kr. vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands. Þá verða 250 m.kr. veittar vegna efniskostnaðar framhaldsskóla og 450 m.kr. til máltækniverkefnis til þess að stuðla að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Íslenska karlalandsliðið tilnefnt til Laureus verðlaunanna

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur verið tilnefnt til hinna virtu Laureus verðlauna en þau hafa verið afhent árlega frá árinu 2000. Liðið er tilnefnt í flokknum „Framfarir ársins“ fyrir afrek sitt á EM í Frakklandi síðasta sumar. Laureus verðlaunin eru með virtustu viðurkenningum í íþróttaheiminum og hafa margar stjörnur úr hinum ýmsu íþróttagreinum verið tilnefndar í gegnum árin.

Laureus var ekki eingöngu stofnað til að veita íþróttafólki viðurkenningar. Eitt aðalmarkmið Laureus samtakanna er að standa fyrir góðgerðarverkefnum þar sem stutt er við íþróttaiðkun barna út um allan heim.

Tvö önnur lið og fjórir einstaklingar eru tilnefnd í sama flokki og karlalandsliðið okkar.

 • Almaz AYANA (Eþíópía)
 • Fiji Men’s Rugby Seven liðið
 • Íslenska karlalandsliðið
 • Leicester City FC (Bretland)
 • Nico ROSBERG (Þýskaland)
 • Wayde VAN NIERKERK (Suður Afríka)

Verðlaunin verða veitt í Mónakó 14. apríl næstkomandi og hefur fulltrúum landsliðsins verið boðið að vera viðstaddir verðlaunaafhendinguna.

Ríkið eignast Geysissvæðið

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Hjörleifur B. Kvaran, lögmaður Landeigendafélags Geysis ehf., undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á öllum eignarhluta landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu.  Samkvæmt samningnum verður kaupverð eignarhlutans lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna.

Ríkið hefur um margra ára skeið átt í viðræðum við sameigendur sína innan girðingar á Geysissvæðinu um hugsanleg kaup ríkisins á eignarhluta þeirra.

Svæðið innan girðingar á Geysi er u.þ.b. 19,9 hektarar að stærð.  Innan þess svæðis á ríkið sem séreign u.þ.b.2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþverrishola.  Það sem eftir stendur eða u.þ.b.17,6 ha. er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins.

Við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. Þar með er ríkið orðið eigandi alls þess svæðis, en ríkið á þegar stóran hlut aðliggjandi landssvæða utan girðingar.

Samningurinn markar tímamót því hann auðveldar heildstæða uppbyggingu á svæðinu í samræmi við niðurstöðu í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið sem haldin var fyrir nokkrum misserum.

bjarniben-geysir

Fimm milljónasti farþeginn á Íslandi

Um hádegið þann 20. september síðastliðinn fór fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll í fyrsta sinn yfir fimm milljóna múrinn innan sama árs. Það var parið Leanna Cheecin Lau og Gregory Josiah Lue sem voru hin heppnu en starfsfólk Isavia tók vel á móti þeim og fengu þau flug frá WOW air, gjafaöskju frá Fríhöfninni, blómvönd auk þess sem veitingastaðurinn Nord á Keflavíkurflugvelli tók á móti þeim með glæsilegum mat.

Parið var á leið til Baltimore með Wow Air og þaðan til Los Angeles þar sem þau eru búsett. Þau fara í eina utanlandsferð á ári og ákváðu þetta árið að fara til Íslands þar sem þau dvöldu í viku. Þau voru mjög ánægð með ferðina og skoðuðu meðal annars Jökulsárlón og Gullfoss og Geysi.

Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fimmmilljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.685 þúsund brottfararfarþegar, 1.710 komufarþegar og 1.605 skiptifarþegar. Árið 2015 náði farþegafjöldinn rétt yfir 4,8 milljónum en í ár er búist við að fjöldinn verði um 6,7 milljónir og því verður tvisvar fagnað á þessu ári, bæði nú þegar fimm milljóna múrnum er náð og svo má búast við að fjöldinn fari í fyrsta sinn yfir sex milljónir í nóvember. Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll, árið 2016 verður fjöldinn samkvæmt spám 37% meiri en árið 2015 og þá mun fjöldinn sem fer um flugvöllinn í ár vera rúmlega þrefalt meiri en árið 2010, þegar hann náði rétt yfir tveimur milljónum.

keflavikurflug
Heimild og mynd: isavia.is

Vegna yfirlýsingar um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum

Ríkisstjórn Íslands hefur eftir samráð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands ákveðið að ekki sé tilefni til þess að hafa í gildi yfirlýsingu um ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum.

Yfirlýsing um að ríkið ábyrgðist allar innstæður var gefin eftir fjármálaáfallið haustið 2008. Innlendar innlánsstofnanir standa í dag traustum fótum, hvað snertir eigið fé, fjármögnun, lausafé eða jafnvægi í rekstri. Þá hafa ýmsar viðamiklar breytingar orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á síðustu árum frá setningu neyðarlaganna árið 2008. Þar má nefna breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki árið 2010 og breytingar á lagaumhverfi fjármálamarkaða, m.a. með stofnun fjármálastöðugleikaráðs og kerfisáhættunefndar. Þá hafa nýjar reglur tekið gildi um eigið fé bankanna þar sem gerðar eru verulega auknar kröfur um eigið fé og gæði þess.

Einnig hafa orðið breytingar á lögum um innstæðutryggingar þar sem sú vernd sem innstæðutryggingakerfið veitir er afmörkuð skýrar með áherslu á að vernda innstæður almennings.

Áfram er unnið að því að styrkja nauðsynlegt öryggisnet um fjármálamarkaði og fjölga úrræðum opinberra eftirlitsaðila og stjórnvalda til þess að grípa tímanlega inn þegar þörf krefur. Á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er nú unnið að innleiðingu nýs Evrópuregluverks um skilameðferð fjármálafyrirtækja sem gefur stjórnvöldum heimildir til inngripa í rekstur slíkra fyrirtækja og auðveldar þeim að koma innstæðum almennings í skjól ef aðstæður krefjast. Einnig er unnið að innleiðingu nýrra Evrópureglna um innstæðutryggingar sem munu styðja við regluverk um skilameðferð

Saman gegn sóun í Perlunni

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra opnaði sýninguna „Saman gegn sóun“ í Perlunni á föstudaginn. Á sýningunni kynntu fyrirtæki og opinberir aðilar nýjar leiðir í umhverfismálum á fjölbreyttan hátt.

Það eru Umhverfisstofnun og Fagráð um endurnýtingu og úrgang (FENÚR) sem standa fyrir sýningunni þar sem m.a. er hægt að taka þátt í ratleik, læra allt um flokkun, gramsa í gefins bókum, skoða trjátætara, ruslabíla svo fátt eitt sé nefnt.

Ráðherra sagði m.a. að ákveðna hugarfarsbreytingu þyrfti til að sporna við sóun. „Þar geta allir lagt sitt af mörkum því það er okkar allra að gera breytingar.  Með því að draga úr sóun í okkar neyslu förum við betur með auðlindir jarðar sem er lykilatriði þegar kemur að loftslagsmálum sem og öðrum umhverfismálum. Slíkt er nauðsynlegt, eins og endurspeglast í  Parísarsamkomulaginu sem Alþingi hefur núna til umfjöllunar og stefnt er að því að fullgilda á næstu dögum.“

ihw84xj4

 

Rjúpnaveiði hefst 28. október

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í ár verði með sama sniði og verið hefur undanfarin þrjú ár. Munu því veiðidagar rjúpu í ár verða tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 28. október til 20. nóvember 2016.

Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 40.000 rjúpur og miðað við fjölda veiðimanna síðasta ár, gera það 5-6 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

Rjúpnastofninn er ekki stór um þessar mundir og mælist nokkuð minni í ár en í fyrra. Samkvæmt talningum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru því lagt til að veiddir verði um 20% færri fuglar en árið 2015. Því leggur ráðherra til óbreytt veiðifyrirkomulag í ár.

Stjórnvöld hafa það sem meginstefnu að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra lifandi auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin nota. Til að vinna að því eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Tillaga ráðherra varðandi rjúpnaveiðar 2016 er eftirfarandi:

 • 1.     Leyfileg heildarveiði árið 2016 eru 40.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.
 • 2.     Sölubann verður á rjúpum. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.
 • 3.     Hófsemi skuli vera í fyrirrúmi: Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og miða veiðar við 5-6 fugla pr. veiðimann. Jafnframt eru veiðimenn sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að  hvetja til hófsemi í veiðum.
 • 4.     Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi, líkt og undanfarin ár.
 • 5.     Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:
 • Föstudaginn 28. október til sunnudags 30. október. 3 dagar.
 • Föstudaginn 4. nóvember til sunnudags 6. nóvember. 3 dagar.
 • Föstudaginn 11. nóvember til sunnudags 13. nóvember. 3 dagar.
 • Föstudaginn 18. nóvember til sunnudags 20. nóvember. 3 dagar.
 • 6.     Fyrirsjáanleiki. Lagt er til að þetta fyrirkomulag gildi áfram, þ.e. komi ekki eitthvað óvænt uppá í árlegri mælingu og rannsóknum á rjúpnastofninum eða umbætur í stjórnkerfi veiðanna, er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði með þessum hætti amk. næstu þrjú ár.

130 björgunarsveitarmenn kallaðir út vegna neyðarkalls frá farþegaþotu

Mikill viðbúnaður var hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu  vegna farþegaþotu sem sendi frá sér neyðarkall laust upp úr klukkan 1100 í gærmorgun þar sem  lítið afl var í öðrum hreyfli vélarinnar. Alls tóku um 130 björgunarsveitamenn þátt í aðgerðunum sem lauk eftir að flugmenn vélarinnar lentu henni farsællega á Keflavíkurflugvelli kl 14:40.

Um borð í vélinni, sem er af gerðinni Boeing 767, voru 258 manns. Hún var á leið frá London til Edmonton í Kanada.

Fjórum vespum stolið í Kópavogi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú þjófnaði á bensín- og rafmagnsvespum, en fjórum slíkum var stolið í Kópavogi í gær. Einni var stolið af lóð Kárnesskóla um tíuleytið í gærmorgun og annarri utan við Menntaskólann í Kópavogi á tímabilinu frá kl. 8.15 – 10.20. Báðum vespunum var læst með keðju sem þjófurinn, eða þjófarnir, klippti í sundur. Jafnframt var klippt á keðju á annarri vespu við Kársnesskóla, en vespan var ekki tekin. Síðdegis var svo tveimur öðrum vespum stolið utan við íþróttahúsið í Digranesi, en önnur þeirra var læst við staur sem þar er. Þetta mun hafa gerst á tímabilinu frá kl. 16.30 – 19.30.

Lögreglan biður þá sem geta varpað ljósi á þjófnaðina að hafa samband, en upplýsingum má koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gunnarh@lrh.is í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins eða í síma lögreglunnar 444 1000.

Styrkir veittir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Fjórtán skólar hafa fengið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðar, samtals að andvirði 12 milljónir króna. Styrkirnir felast í tölvubúnaði og námskeiðum fyrir kennara til að þeir séu betur í stakk búnir til að kenna nemendum sínum forritun.

Alls bárust 30 umsóknir vegna úthlutunar úr sjóðnum árið 2016, flestar frá grunnskólum. Að þessu sinni fengu eftirtaldir fjórtán skólar styrk úr sjóðnum og óskum við þeim til hamingju um leið og við hvetjum sem flesta skóla til að sækja um að ári:

Auðarskóli, Álfhólsskóli, Blönduskóli, Glerárskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar, Grunnskóli Vesturbyggðar, Heiðarskóli, Hvaleyrarskóli, Ingunnarskóli, Klébergsskóli, Oddeyrarskóli, Tálknafjarðarskóli, Vatnsendaskóli og Víðistaðaskóli.

Efli forritun og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum

Hlutverk sjóðsins Forritarar framtíðarinnar er að efla forritun og tæknimenntun í íslenskum grunn- og framhaldsskólum. Mikill uppgangur er í upplýsingatækni á Íslandi og skortur á fólki með viðeigandi menntun. Sjóðnum er ætlað að stuðla að því að börn og unglingar fá þjálfun og þekkingu á tölvutækni til að þau geti nýtt sér hana í víðum skilningi.

Landsbankinn er einn af hollvinum sjóðsins. Styrkur bankans felst annars vegar í árlegu peningaframlagi og hins vegar hefur bankinn gefið um 30 tölvur og tölvuskjái árlega. Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar- og upplýsingatæknisviðs Landsbankans, situr í stjórn stjóðsins.

Stofnaðilar sjóðsins eru RB og Skema. Hollvinir sjóðsins eru Advania, CCP, Cyan veflausnir, Icelandair, Íslandsbanki, Landsbankinn, Samtök iðnaðarins, Síminn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Nýherji, og Össur.

Landsbankinn hættir útgáfu og innlausn ávísana

Með tilkomu rafrænna aðferða við greiðslumiðlun hefur dregið verulega úr notkun á ávísunum, enda er rafræn greiðslumiðlun í senn einfaldari og öruggari en ávísanir. Landsbankinn hefur hætt útgáfu og sölu ávísanahefta til einstaklinga og fyrirtækja og mun hætta innlausn innlendra ávísana 15. ágúst næstkomandi.

Notkun á ávísunum hefur dregist verulega saman og sífellt færri verslanir og þjónustuaðilar taka við þeim. Landsbankinn í samvinnu við Reiknistofu bankanna vinnur nú að því að endurnýja grunnupplýsingakerfi bankans og ekki er gert ráð fyrir umsýslu með ávísanir í nýja kerfinu.

Notkun á ávísunum hefur undanfarin ár einkum verið bundin við fá fyrirtæki og stofnanir. Yfir 100.000 viðskiptavinir Landsbankans nýta sér aðrar leiðir til að greiða og millifæra.

Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála stofnað

Íslenska ríkið og Samtök ferðaþjónustunnar hafa stofnað formlega sérstakt sameignarfélag utan um rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Nafn þess er Rekstrarfélag Stjórnstöðvar ferðamála og er það í 50% eigu ríkissjóðs og 50% eigu Samtaka ferðaþjónustunnar.

Stjórnstöð ferðamála er samráðsvettvangur, skipaður af forsætisráðherra í kjölfar þess að samkomulag var undirritað þann 6. október sl. milli ríkisstjórnar Íslands, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2020. Stjórnstöð ferðamála tekur þó ekki með neinum hætti yfir ábyrgð og skyldur stjórnvalda eða hagsmunasamtaka greinarinnar.

Tilgangur hins nýstofnaða félags er að halda utan um starfsmannamál og almennan rekstur Stjórnstöðvar ferðamála. Starfsmenn félagsins skulu sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin af Stjórnstöð ferðamála í samræmi við Vegvísi í ferðaþjónustu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Samtök ferðaþjónustunnar gáfu út í október 2015.

Stjórnstöð ferðamála er ætlað að starfa til ársins 2020 og var Hörður Þórhallsson ráðinn framkvæmdastjóri tímabundið til sex mánaða til að koma verkefninu af stað. Hann mun hverfa til annarra starfa og starf framkvæmdastjóra verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.

Þrjú ný ómtæki til Landspítalans

Minningargjafasjóður Landspítala færði fósturgreiningardeild Landspítala 27 milljónir króna að gjöf sem varið hefur verið til að kaupa 3 ný ómtæki.  Þau leysa af hólmi eldri tæki sem voru orðin úr sér gengin eftir notkun í meira en áratug.  Eðlileg endurnýjun á slíkum tækjum er talin vera 5 til 7 ár.

Tilefni gjafarinnar var 100 ára afmæli Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Eftir tilkomu sjúkratrygginga hefur sjóðurinn styrkt sjúklinga sem ekki geta fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis og þurfa að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítala styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort gegnum Póstinn og með ávöxtun höfuðstóls.

Heimild: landspitali.is

Björgunarlykkjur settar upp á 100 stöðum í sumar

Auka má öryggi ferðafólks mikið með uppsetningu og kynningu björgunarlykkju, svokölluðu Björgvinsbelti, við áfangastaði þar sem hætta getur verið á drukknun; við sjó, vötn og ár. Því hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg, aðalstyrktaraðili þess, Sjóvá og Vegagerðin tekið höndum saman um að setja upp slíkan öryggisbúnað víða, í fyrsta áfanga á 100 stöðum í sumar.

Vinnuhópur á vegum SL, Sjóvár og Vegagerðarinnar áhættugreindi og forgangsraðaði stöðum við þjóðvegi landsins með tilliti til drukknunarhættu. Þessir 100 staðir, sem fjölsóttir eru af íbúum og erlendu sem innlendu ferðafólki, voru settir í fyrsta forgang og hafist verður handa við að setja upp björgunarlykkjur á þeim í þessum mánuði. Vegagerðin mun taka að sér uppsetninguna. Einnig er í bígerð að gefa búnað í lögreglubifreiðar og til slökkviliða.

Er það von þeirra sem að verkefninu standa að með þessum búnaði megi auka öryggi við sjó, vötn og ár.

 Helstu atriði:
 • Aukið öryggi íbúa og ferðafólks við sjó, vötn og ár
 • Samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjóvár og Vegagerðarinnar
 • 100 staðir í fyrsta forgangi,
 • Fyrstu björgunarlykkjurnar komnar upp við Jökulsárlón

 

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

 • Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í síma 897 1757.

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2016

Aðalfundur Landsbankans vegna rekstrarársins 2015 fór fram í Hörpu 14. apríl síðastliðinn. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2015 sem nemur 1,2 krónum á hlut eða um 28,5 milljarðar króna. Arðurinn skal greiddur í tveimur jöfnum greiðslum og skal gjalddagi fyrri greiðslu vera 20. apríl 2016 og gjalddagi síðari greiðslu vera 21. september 2016. Arðgreiðslan samsvarar um 80% af hagnaði bankans árið 2015.

Aðalfundurinn samþykkti heimild þess efnis að Landsbankinn hf. eignist eigin hluti, allt að 10% af nafnverði hlutafjár. Lægsta og hæsta fjárhæð sem bankinn má reiða fram sem endurgjald fyrir hvern hlut skal vera bókfært virði hvers hlutar, þ.e. samsvara hlutfalli á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og hlutafjár, samkvæmt síðasta birta ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri áður en kaup á eigin hlutum fara fram. Ráðstöfun Landsbankans á eigin hlutum sem keyptir verða á grundvelli þessarar heimildar er háð samþykki hluthafafundar. Samsvarandi heimild var samþykkt á aðalfundi 2015.

Starfskjarastefna og þóknun til bankaráðsmanna breytast ekki frá fyrra ári.

Þá fól fundurinn bankaráði að setja í starfsreglur sínar ákvæði um samkeppnislegt sjálfstæði Landsbankans hf. gagnvart öðrum viðskiptabönkum í eigu ríkisins.

Allar nánari upplýsingar um niðurstöður aðalfundar bankans má nálgast á www.landsbankinn.is/adalfundur. Þar má finna skýrslu bankaráðs, kynningu bankastjóra og önnur gögn sem fram voru lögð á fundinum. Þá verður fundargerð einnig gerð aðgengileg á vef bankans.

Heimild: Landsbankinn.is

Ný Ríkisstjórn

Á fundi ríkisráðs á Bessastöðum í dag féllst forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, á tillögu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að veita ráðuneyti hans lausn frá störfum.

Á öðrum fundi ríkisráðs féllst forseti Íslands á tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar um skipun fyrsta ráðuneytis hans og gaf út úrskurð um skiptingu starfa ráðherra.

Í nýrri ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar eru 10 ráðherrar.

Ráðherrar nýju ríkisstjórnarinnar eru:

 • Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
 • Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra
 • Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra
 • Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
 • Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 • Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
 • Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra

U-17 stelpurnar gegn Serbíu

Stelpurnar í U17 landslið Íslands í knattspyrnu luku í dag leik í milliriðli EM en hann fór fram í Serbíu að þessu sinni.  Leikið var gegn heimastúlkum í dag sem höfðu öruggan sigur, 5 – 1.  Íslenska liðið hafnaði því í þriðja sæti riðilsins, á eftir Englendingum og Serbum en á undan Belgum.

Heimastúlkur byrjuðu af krafti og komust yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik.  Jafnræði var svo nokkuð í leiknum en tvo mörk Serba á 31. og 39. mínútu gerðu þetta að mjög brattri brekku fyrir okkar stúlkur og þriggja marka munur í leikhléi.

Serbar bættu við tveimur mörkum í seinni hálfleik áður en Agla María Albertsdóttir minnkaði muninn en þar við sat.

Sem fyrr segir þá hafa íslensku stelpurnar lokið keppni að þessu sinni en liðið vann Belga í fyrsta leik en tapaði gegn Englandi og Serbíu.  Þriðja sætið staðreynd en England hefur tryggt sér farseðil í úrslitakeppninni og Serbar eygja ennþá von um að komast með bestan árangur í öðru sæti riðlanna.

Heimild: ksi.is

Mottukeppnin haldin í síðasta sinn

Tilkynning frá Krabbameinsfélaginu:
Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir, Mottumars er að bresta á.
Nú dregur þó til tíðinda, því mottukeppnin sjálf er nú haldin í sjöunda og síðasta sinn. Ekki missa af tækifærinu til að rækta karlmennskuna og láta mottuna blómstra.
Þú og yfir 14 þúsund aðrir mottumenn og konur hafið tekið þátt í þessu skemmtilega og mikilvæga verkefni Krabbameinsfélagsins síðan 2010. Við erum ykkur að eilífu þakklát fyrir stuðninginn og skemmtunina. Og allar motturnar auðvitað.
Verið viðbúin. Leggið rakvélunum og dragið fram skeggsnyrtinn. Við opnum fyrir skráningar 27. febrúar á mottumars.is.
Föstudaginn 11. mars 2016 hvetur Krabbameinsfélagið alla landsmenn, konur og karla, til að halda upp á Mottudaginn með því að leyfa karlmennskunni að skína sem aldrei fyrr!