21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Garðaganga í Laugardal

Sunnudaginn 10. ágúst verður boðið upp á garðagöngu um Laugardal og Laugarás. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur, Garðyrkjufélags Íslands og Íbúasamtaka Laugardals. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Kaffisopi og spjall í lok göngu. Mæting við aðalinngang Grasagarðs kl. 10.

Frá Grasagarðinum verður gengið í gegnum skrúð-, rósa- og aldingarðana í Laugardal. Þaðan verður rölt eftir Sunnuvegi upp á Laugarásveg þar sem einkagarður Bryndísar Jónsdóttur verður skoðaður. Bryndís og eiginmaður hennar, Snæbjörn Jónasson heitinn, ræktuðu garðinn upp af alúð og þar má þar finna ýmsar fágætar plöntur meðal annars úrval lyngrósa, sígræna runna, tré og annan áhugaverðan gróður.

Frá Laugarásvegi liggur leiðin upp á holtið við Áskirkju þar sem holta- og garðagróður dafnar vel. Af holtinu er gott útsýni yfir gróskumikinn Laugardalinn. Eftir stutt stopp verður gengið eftir Vesturbrún og niður að einkagarði Ragnhildar Þórarinsdóttur og Bergs Benediktssonar við Brúnaveg. Garðurinn þeirra umlykur Gamla pósthúsið, sem er eitt af sögufrægum húsum Reykjavíkur og hefur komið víða við í borginni. Garðurinn er ævintýralega skemmtilegur með einstöku evrópulerki, fjölda gamalla og nýrra trjáa og úrvali fjölæringa.