Category Archives: Reykjavík

Fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því fellst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimild: stjornarradid.is

Nýr samningur um þjónustu Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar

Þjónusta Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar, einkum fyrir ungt fólk með geðraskanir, verður aukin til muna með nýjum þjónustusamingi milli samtakanna og Vinnumálastofnunar sem undirritaður var í vikunni.

Gerð samningsins er niðurstaða samstarfs sem efnt var til milli velferðarráðuneytisins og Hugarafls í ágúst síðastliðnum með það að markmiði að styðja við starfsemi samtakanna á þann hátt sem best myndi nýtast fólki með geðræn vandamál.

Markmiðið með samningnum er að veita þeim sem Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga vísa til Hugarafls, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.

Þjónustan stendur einnig til boða þeim sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og koma af sjálfsdáðun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafréttismálaráðherra, var viðstaddur undirritun samningsins í dag og lýsti ánægju með þá niðurstöðu sem í honum felst. „Með samningnum er traustum stoðum skotið undir hið mikilvæga starf Hugarafls í þágu ungs fólks með geðraskanir. Okkar markmið er að hjálpa sem flestum til aukinnar virkni í samfélaginu og Hugarafl tekur opnum örmum á móti viðkvæmum hópi á erfiðum tímum í lífum þeirra. Þá er sérstaklega gott að sjá hversu hratt og ötullega starfsfólk í ráðuneytinu og undirstofnunum hefur unnið að þessu máli sem nú fær farsælan endi.“ Ráðherra tilkynnti einnig við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að veita eina milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja starfsemi Hugarafls.

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, tók í sama streng og ráðherra: „Við í Hugarafli erum gríðarlega ánægð með stuðning velferðarráðuneytisins við að tryggja áframhaldandi öflugt starf Hugarafls. Einnig erum við ánægð með að í fyrsta skipti er opnu úrræði veittur stuðningur sem og fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði hjá öðrum endurhæfingarúrræðum. Sérstaklega erum við glöð að sjá áhersluna á ungt fólk í samningnum. Þá er ég afar ánægð með hröð og góð vinnubrögð ráðherra og hans fólks, þegar neyðarástand myndaðist í starfsemi Hugarafls.“

Samningurinn gildir frá september 2017 til ársloka 2019.

Fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu

Breyting á reglugerð um leigubifreiðar tók gildi við birtingu í Stjórnartíðindum í gær og snýst hún um að fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða um 20 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi atvinnuleyfa á þessu svæði hefur verið óbreyttur frá 2003.

Endurskoðun hefur staðið yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á fjölda atvinnuleyfa og hafa borist ábendingar bæði frá leigubifreiðarstjórum og leigubifreiðastöðvum. Frá árinu 2002 hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um liðlega 23% auk þess sem erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á þessum tíma.

Drög að breytingu á reglugerðinni voru kynnt í júlí og var þar gert ráð fyrir 100 leyfa fjölgun, 90 á svæði 1, sem er höfuðborgarsvæðið, og 10 á öðrum svæðum. Nokkrar umsagnir bárust bæði með og á móti svo mikilli fjölgun. Komu fram sjónarmið um að iðulega væri löng bið eftir þjónusu leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og því væri brýnt að fjölga leyfum en aðrir töldu nægilega marga sinna leiguakstri og að fjölgun ferðamanna hefði ekki fært leigubifreiðastöðvun aukin verkefni svo nokkru næmi. Í kjölfar umsagna áttu sérfræðingar ráðuneytisins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. fulltrúa Frama og ráðherra hitti fulltrúa leigbifreiðarstjóra frá öllum stöðvum á svæði 1.

Niðurstaða ráðuneytisins varð sú að ekki væru forsendur til að fjölga atvinnuleyfum um 90 á einu bretti en ákveðið að fjölga leyfum um 20 á höfuðborgarsvæðinu og verða þau því alls 580.

100 ár frá spænsku veikinni á næsta ári

Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að spænska veikin lagði mörg hundruð manns að velli í Reykjavík og nágrenni. Um var að ræða afar skæðan inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn á árunum 1918-1919. Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að sett verði í gang hugmyndavinna um það hvernig minnast skuli tímamótanna og þeirra sem létust í þessum skæða faraldri.

Þess má geta að rithöfundurinn Gerður Kristný kom hugmyndinni á framfæri við borgarstjóra um að minnast þess að öld er liðin frá því að hin mannskæða farsótt geisaði í Reykjavík.

Hefja skal undirbúning að viðburðum, sögulegum merkingum og öðru sambærilegu til að varpa ljósi á og minnast tímamótanna. Leita skal samstarfs við aðra aðila eftir atvikum.

Spænska veikin er mannskæðasti inflúensufaraldur sögunnar og létust um 25 milljónir manna að minnsta kosti í heiminum öllum. Veikin er talin hafa borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt.

Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur og fimm dögum síðar voru tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar rúmfastir. Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 9. nóvember. Borginni var skipt í þrettán hverfi og gengið var í hús. Aðkoman var víða hroðaleg.

Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spænsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykvíkingum, þar sem 258 létust, en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Framangreindar upplýsingar eru sóttar af Vísindavef Háskóla Íslands og úr bókinni Ísland í aldanna rás.

Öll tiltæk lyf sem hjálpað gátu við lungnabólgu og hitasótt, sem voru fylgifiskar veikinnar, kláruðust umsvifalaust. Læknar unnu myrkranna á milli og læknanemar fengu bráðabirgðaskírteini til að sinna smituðum. Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist. Flestar verslanir lokuðust og 6. nóvember hættu blöð að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sorphirða og hreinsun útisalerna féll niður. Erfitt var að anna líkflutningum og koma varð upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum 20. nóvember í Hólavallagarði við Suðurgötu og hvíla sumir enn í ómerktum gröfum.

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar árið 2017

Verkís og Orkuveita Reykjavíkur hljóta Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2017 og ræður vistvænn ferðamáti starfsmanna og fordæmi fyrirtækjanna í vistvænum rekstri þar mestu um val dómnefndar.

Verkís býður starfsfólki góða aðstöðu fyrir hjól, hleðsla er fyrir rafbíla, bílastæðum var fækkaði hjá fyrirtækinu og starfsfólk fær samgöngustyrk. Orkuveitan greiðir samgöngustyrk til sinna starfsmanna og fylgst er með því hvernig fólk kemur til vinnu og hvað hindri það í að velja vistvænar samgöngur. Orkuveitan er með 65 vistvænar bifreiðar sem nýtast starfsfólki.

Auglýst var eftir umsóknum eða tilnefningum frá fyrirtækjum, félagsamtökum, stofnunum og einstaklingum. Dómnefndin byggir val sitt á árangri að aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að t.d. einfalda starfsfólki að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn, draga úr umferð á sínum vegum og/eða stuðla að notkun vistvænna orkugjafa.

Sjö fyrirtæki komu fyrir valnefnd á þessu ári og voru það auk Verkís og Orkuveitunnar, Advania, Alta, Arionbanki, Háskólinn í Reykjavík og Seðlabanki  Íslands.

Deilibílaþjónusta í Reykjavík

Zipcar deilibílaþjónusta var kynnt í Háskólanum í Reykjavík í gær. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri prufukeyrði einn af tveimur Zipcar bílum sem verða staðsettir við háskólann og nýtist hverjum þeim sem eru meðlimir í kerfinu.

Reykjavík er fyrsta borgin á Norðurlöndum þar sem boðið er upp á þjónustu Zipcar.  Deilibílaþjónusta er nýjung í ferðamáta innan höfuðborgarsvæðisins þar sem notendur deila bílum í stað þess að eiga sjálfir bíl, eða til að bæta við akstursþörfina án þess að bæta við bíl númer tvö.

Hug­mynd­in geng­ur út á að not­end­ur geti nálg­ast bíla til að nýta í stutt­ar ferðir og geta meðlim­ir Zipcar bókað bíl eft­ir þörf­um með appi all­an sól­ar­hring­inn. Bíll­inn er bókaður með Zipcar-app­inu og skilað aft­ur á sama stæðið þegar notk­un lýk­ur.

Borgarfulltrúum fjölgar á næsta kjörtímabili

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að fjöldi borgarfulltrúa frá og með næsta kjörtímabili yrði 23, eða sá lágmarksfjöldi fulltrúa sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum.

Afgreiðslu tillögu um fjölda borgarfulltrúa, sem var frestað á fundi borgarstjórnar í sumar, þar sem ráðherra sveitarstjórnarmála hafði boðað frumvarp sem fól í sér breytingu á lágmarksfjölda borgarfulltrúa úr 23 í 15, sem er núverandi fjöldi borgarfulltrúa.

Málið var tekið á dagskrá borgarstjórnar í dag í ljósi atburða síðustu daga, þar sem ríkisstjórnin hefur beðist lausnar, starfsstjórn er við völd og dagskrá og verkefni Alþingis næstu vikur í uppnámi. Jafnframt kom fram í fréttum í síðustu viku að ekki var full samstaða um málið í þingflokkum þáverandi stjórnarflokka á Alþingi.

Tillagan var samþykkt með 11 atkvæðum gegn 4.

Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík hafa undirritað styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Björgunarsveitirnar hafa sér þjálfaðan mannskap í rústabjörgun, fjallabjörgun, köfun og fyrstu hjálp. Um er að ræða sjálfboðaliða sem eru þaulvanir að takast á við hvern þann vanda sem upp kann að koma

37 sóttu um embætti dómara við Landsrétt

Umsóknarfrestur um embætti dómara við Landsrétt rann út 28. febrúar síðastliðinn og bárust 37 umsóknir um embættin. Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 á grundvelli laga um dómstóla nr. 50/2016. Auglýst voru embætti 15 dómara þann 10. febrúar síðastliðinn.

Eftirtaldir sóttu um embætti:

 1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
 2. Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómari
 3. Ásmundur Helgason, héraðsdómari
 4. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
 5. Baldvin Hafsteinsson, hæstaréttarlögmaður
 6. Björn Þorvaldsson, sviðsstjóri ákærusviðs efnahagsbrota hjá embætti héraðssaksóknara
 7. Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari
 8. Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu
 9. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 10. Davor Purusic, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands
 11. Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 12. Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari
 13. Guðrún Sesselja Arnardóttir, hæstaréttarlögmaður
 14. Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 15. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
 16. Hildur Briem, dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands
 17. Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi alþingismaður
 18. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstaréttardómari
 19. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 20. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 21. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari
 22. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
 23. Jónas Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 24. Karl Óttar Pétursson, hæstaréttarlögmaður
 25. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
 26. Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar   umhverfis- og auðlindamála
 27. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 28. Ólafur Ólafsson, dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra
 29. Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
 30. Ragnheiður Bragadóttir, héraðsdómari
 31. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
 32. Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari
 33. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
 34. Soffía Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður
 35. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
 36. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness
 37. Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Varað við snjóhengjum og grýlukertum

Lögreglan beinir þeim tilmælum til fólks á höfuðborgarsvæðinu að huga að grýlukertum og snjóhengjum er lafa fram af húsþökum en af þeim getur stafað mikil hætta. Tilmælunum er ekki síst beint til verslunar- og/eða húseigenda á stöðum þar sem mikið er um gangandi vegfarendur. Þetta á m.a. við um Laugaveg og nærliggjandi götur í miðborginni. Mælst er til þess að fólk kanni með hús sín og grípi til viðeigandi ráðstafana áður en slys hlýst af.

Grænlenskur karlmaður áfram í gæsluvarðhaldi

Grænlenskur karlmaður á þrítugsaldri var í byrjun mars í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til fjögurra vikna á grundvelli almannahagsmuna í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dauða Birnu Brjánsdóttur. Maðurinn var handtekinn um borð í fiskiskipinu Polar Nanoq 18. janúar og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald daginn eftir, sem nú hefur verið framlengt þriðja sinni.

Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Starfsemin mun verða rekin á dagvinnutíma frá 9:00 til 17:00 og í húsnæði Reykjavíkurborgar í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.

Verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað, þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Starfshópurinn sem stóð að stofnun miðstöðvarinnar og borgarstjóri, ráðherrar og lögreglustjóri fengu öll bjarkarhríslu að gjöf frá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur verkefnastjóra Bjarkarhlíðar í tilefni opnunarinnar. Ragna Björg sagði að stofnun miðstöðvarinnar hefði tekist með góðri samvinnu allra aðila og nú væri hægt að fara að vinna af fullum krafti að því mikilvæga starfi sem miðstöðin á að sinna.

Starfsemin í Bjarkarhlíð, mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Veitt verður fræðsla og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis og afleiðingar þess, þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Bjarkarhlíð hóf að kynna starfsemi sína í febrúar sl. fyrir samstarfsaðilum og öðrum stofnunum sem vinna með afleiðingar ofbeldis. Nú þegar hafa 9 mál komið á borð Bjarkarhlíðar og segir verkefnastjórinn Ragna Björg Guðbrandsdóttir að það sýni og sanni að þörf er á slíkri þjónustu. Það sem einkennir helst þau mál sem komið hafa er að ekki er um eitt afmarkað atvik að ræða heldur langvarandi og oft endurtekin saga um ofbeldi.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Vinnuframlag og viðvera verður frá Stígamótum, Drekaslóð, Kvennaathvarfi, Kvennaráðgjöf og Mannréttindaskrifstofu Íslands Auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir upplýsingar um meðferð mála í réttarvörslukerfinu og kemur að mati á öryggi þolenda.

Gert er ráð fyrir að fleiri samstarfsaðilar verði hluti af starfseminni með tímanum.

Breyting á mörkum skólahverfa

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni breytingar á mörkum tveggja skólahverfa í borginni frá og með næsta skólaári 2017-2018.

Skólahverfamörkum Langholtsskóla og Vogaskóla verður breytt þannig að Álfheimar 31 – 35, Glaðheimar, Sólheimar 25, Hlunnavogur og Sigluvogur flytjast úr skólahverfi Langholtsskóla yfir í skólahverfi Vogaskóla. Breytingin mun ekki hafa áhrif á þá nemendur sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Skólahverfamörk Grandaskóla og Melaskóla verða færð þannig að Meistaravellir tilheyri Grandaskóla í stað Melaskóla áður. Breytingin nær ekki til nemenda sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Í báðum tilvikum eigi foreldrar sem eiga lögheimili í götum sem færast á milli skólahverfa val um í hvorn skólann börn þeirra fara og forgang í báða skólana út skólaárið 2017 – 2018.

Breytingar á skólamörkum voru gerðar að tillögu starfshóps og að undangengnu umsagnarferli hjá skólaráðum og foreldrafélagum,  svo og opnum íbúafundum þar sem þær voru kynntar.

Fyrirtæki í Reykjavík flokka og skila

Reykvískum heimilum hefur verið gert að flokka ákveðna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og skila í endurvinnslu og aðra móttöku. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að fyrirtækjum sé einnig skylt að flokka og skila til endurvinnslu og endurnýtingar eins og heimili gera.

Þetta kemur til framkvæmda frá og með mánudaginum 13. febrúar. Þessar breytingar voru innleiddar í gegnum endurskoðaða Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í desember.

Greiningar SORPU benda til að hlutfall pappírs í blönduðum úrgangi sé meira frá fyrirtækjum en heimilum. En 110 þúsund tonn voru urðuð í Álfsnesi árið 2016. Þarf af voru 60% frá fyrirtækjum eða 66 þúsund tonn.

Þó hefur hlutur pappírs í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang aukist lítið eitt frá því það var lægst árið 2014 eða 8% en er nú 13%. Eftir að íbúum var gert skylt að flokka pappír frá öðrum úrgangi jókst endurvinnsla pappírs stórlega eða úr 32% í gráu tunninni í einungis 8% á skömmum tíma. Vonir standa til að það sama gerist hjá fyrirtækjum.

Mörg fyrirtæki standa sig nú þegar afar vel og eru með umhverfisstefnu og skila nær engu til urðunar og endurvinna nánast allt sem til fellur.

Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið um flokkun og skil til endurvinnslu í aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs og í Aðalskipulagi.  Svo þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt, bæði íbúar og fyrirtæki.

Hagnaður Landsbankans 16,6 milljarðar árið 2016

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna.

Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta.

Þá dragast aðrar rekstrartekjur saman um tæpa 9 milljarða króna sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu.

Samstarfssamningur um viðhald gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins

Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær hafa undirritað samstarfssamning um undirbúning nauðsynlegs átaks í viðhaldi og endurbótum gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Samstarfið felur meðal annars í sér :

Sameiginlegt mat á ástandi, viðhaldsþörf og endurbótaþörf
Unnið verði sameiginlegt mat á þörf við viðgerðir, viðhald og endurbætur á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar sérstaklega eftir erfiða vetur og sparnað síðustu ára. Jafnframt verði lagt mat á hlut slits vegna aukningar umferðar, vaxandi ferðaþjónustu (bílaleigubílar og rútur), notkunar nagladekkja, veðurfars og annarra atriða.

Áætlun um viðhald og endurbætur
Lagt verði mat á kostnað við átakið og nauðsynlegar framkvæmdir.
Unnin verði sameiginleg viðhalds- og endurbótaáætlun fyrir vega- og gatnakerfi Reykjavíkurborgar og Garðabæjar  með það að markmiði að tryggja viðundandi þjónustustig.

Fjármögnun
Vegagerðin mun miða við að fjárheimildir til viðhalds á þeim hluta gatnakerfisins, sem hún ber ábyrgð á, verði í samræmi við niðurstöður matsins en endanlegt umfang á hverju ári mun ráðast af heildar fjárveitingum stofnunarinnar til viðhalds vega á hverjum tíma. Reykjavíkurborg og Garðabær munu með sama hætti nýta fjármuni til viðgerða, viðhalds og endurbóta og gera tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar  til verkefnisins til næstu ára.

Rannsóknir
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær dragi svo saman þær rannsóknir sem fyrir liggja um gatnagerð, malbikslagnir og væntan endingartíma. Sérstaklega verði hugað að umhverfissjónarmiðum og mögulegri endurnýtingu malbiks. Greindar verði ástæður versnandi ástands, skemmda og holumyndunar í gatnakerfinu og gerðar tillögur að frekari rannsóknum þar sem þekkingu skortir.

112 dagurinn

112 og viðbragðsaðilar bjóða almenningi að skoða græjurnar og hitta 112-fólkið á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar þar sem Forseta Íslands bjargað úr Reykjavíkurhöfn upp í þyrlu.

Laugardaginn 11. febrúar verður tækjasýning á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn kl. 13-16. Viðbragðsaðilar sýna margvíslegan búnað á Hörputorgi og almenningi er boðið að skoða varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóla sjómanna, við Faxagarð.

Björgum forsetanum laugardag kl. 14.30!
Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsla Íslands bjarga forseta Íslands úr Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar kl. 14.30. Fulltrúar 112 og viðbragðsaðila taka á móti forseta við Hörpu kl. 13.30. Hann kynnir sér tækjasýninguna en fer síðan með björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar út á Reykjavíkurhöfn þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar kemur honum til bjargar kl. 14.30.

Dagskrá í Flóa í Hörpu laugardag kl. 15.00
• Ávarp: Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
• Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2016 afhent
• Eva Björk Eyþórsdóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir, starfsmenn bráðamóttöku LSH, syngja við undirleik Viðbragðssveitarinnar
• Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur

Landsbankinn hefur höfðað mál vegna sölu á hlut í Borgun hf.

Landsbankinn hefur stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf.

Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu. Það er mat bankans að hann hafi orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2% hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bankinn fékk ekki upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ. á m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.

47 einstaklingar ættleiddir á Íslandi árið 2015

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 47 einstaklingar ættleiddir á Íslandi árið 2015. Þetta eru nokkuð fleiri en árið 2014, en þá voru ættleiðingar 37. Árið 2015 voru stjúpættleiðingar 28 en frumættleiðingar 19. Með hugtakinu stjúpættleiðing er átt við ættleiðingu á barni (eða kjörbarni) maka umsækjanda. Með hugtakinu frumættleiðing er átt við ættleiðingu á barni sem ekki er barn maka umsækjanda.

Frumættleiðingar frá útlöndum
Frumættleiðingar frá útlöndum voru 17 árið 2015, og hélt þeim áfram að fjölga frá því að þær fóru í einungis tíu árið 2013. Frumættleiðingar frá útlöndum höfðu ekki verið svo fáar á einu ári frá árinu 1997. Undanfarin ár hafa flest ættleidd börn verið frá Kína og árið 2015 voru einnig flestar ættleiðingar þaðan, eða átta, en einnig voru ættleidd fimm börn frá Tékklandi.

Ættleiðingar innanlands
Stjúpættleiðingar árið 2015 voru 28. Það er fjölgun frá árinu 2014, en þá voru þær óvenjulega fáar eða 19. Í flestum tilvikum var stjúpfaðir kjörforeldri, en það hefur jafnan verið algengast. Frumættleiðingar innanlands voru tvær árið 2015, og hafa þær einungis einu sinni verið færri á einu ári frá 1990, það var árið 2012 þegar engin frumættleiðing átti sér stað innanlands.

aettleidingar
Mynd og heimilid: hagstofa.is

Flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli

 Flugslysaæfing verður haldin á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 1. október á milli kl. 11-15. Æfingin er mjög umfangsmikil og munu um 450 manns taka þátt í henni. Kveiktir verða eldar, sjúkrabílar aka í neyðarakstri, björgunarsveitarbílar verða áberandi og svo framvegis. Fólk sem er á ferli um höfuðborgina mun eflaust verða vart við æfinguna.
Æfingin verður sem fyrr segir mjög umfangsmikil og margar starfseiningar koma að henni svo sem starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningsaðilar, starfsmenn sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn, prestar, rannsóknaraðilar auk fjölda annarra. Flugslysaæfingar sem þessar eru haldnar á um fjögurra ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem starfrækt er áætlunarflug.
flugslysaaefing-rvk-6-okt-026-1

Eftirlit með akstri ferðamanna

Í vikunni fór Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að Skarfabakka ásamt starfsmönnum skatt- og tollstjóra en ætlunin var að hafa eftirlit með atvinnuréttindum, ökuréttindum og tilskildum starfsleyfum vegna ábendinga um brot í þeim geira.

Skemmst er frá því að segja að það sem sneri að lögreglu var í lagi og engin brot voru kærð.  Starfsmenn Ríkisskattsjóra voru með í för og könnuðu með svarta atvinnustarfsemi og mál tengdum skilum á vinnunótum.

Alls voru 64 bílstjórar stöðvaðir og athugað með réttindi þeirra. Almennt var gerður góður rómur með þessa aðgerð og samvinnu Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og Ríkisskattstjóra. Á myndinni sem fylgir með má sjá þá lögreglumenn úr Umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem tóku þátt í verkefninu.

IMG_0977

 

Gefum blóð! Blóðbankinn hvetur fólk til að gefa blóð

Starfsfólk Blóðbankans vill minna blóðgjafa á þörfina fyrir blóðgjöf. Erfitt er að ná í blóðgjafa þessa dagana þar sem margir eru í sumarfríi. Virkir gjafar eru hvattir til að koma og gefa blóð til að koma í þessarri og næstu viku.

Móttaka blóðgjafa er opin:

 • Mánudaga: 11:00-19:00
 • Þriðjudaga: 08:00-15:00
 • Miðvikudaga: 08:00-15:00
 • Fimmtudaga: 08:00-19:00

Landmælingar Íslands 60 ára

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í gær 60 ára afmælisráðstefnu Landmælinga Íslands, sem haldin var á Akranesi. Yfirskrift ráðstefnunnar var Kortin vísa veginn.

Umfjöllunarefnið á ráðstefnunni var mikilvægi góðra korta og landupplýsinga í samfélaginu m.a. í tengslum við örnefni, leit og björgun, náttúruvá og ferðaþjónustu.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra m.a. að mikilvægi Landmælinga Íslands væri af tvennum toga. „Annars vegar búum við í þessu landi, sem alltaf er að breytast, það  teygist, lækkar og hækkar. Hér eru tíð eldgos sem breyta landi og við verðum vitni að aðstæðum eins og í Höfn í Hornafirði þar sem land er að lyftast. Hins vegar upplifum við nú gífurlegan fjölda ferðamanna sem vill sækja landið heim. Af þessum sökum þurfum við að kortleggja landið vandlega og undirbúa okkur betur fyrir það hvernig við miðlum upplýsingum um það.“

Þá afhenti ráðherra Magnúsi Guðmundssyni, forstjóra Landmælinga, viðurkenningu fyrir að stofnunin hefur lokið fimm grænum skrefum í ríkisrekstri, en þau votta innleiðingu vistvænna starfshátta hjá stofnunum ríkisins.  Eru Landmælingar þriðja ríkisstofnunin sem lýkur öllum fimm skrefunum.

Heimild: umhverfisraduneyti.is

Forsetaframbjóðendur skiluðu inn meðmælalistum

Yfirkjörstjórnir Reykjavíkurkjördæma norður og suður tóku við meðmælendalistum frambjóðenda til embættis forseta Íslands í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær.

Frambjóðendurnir sem skiluðu inn meðmælendalistum eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

Nú tekur við innsláttur og yfirferð á listunum sem skilað var inn. Meðmælendur þurfa að vera kosningabærir og ennfremur verður gengið úr skugga um að um raunverulegar undirritanir sé að ræða. Mæli einstaklingur með fleiri en einum frambjóðanda verður nafn hans fjarlægt af báðum/öllum listum.
Komi í ljós að meðmælendur falli út í þessu ferli er frambjóðanda gefinn kostur á að bæta úr því í næstu viku eða allt þar til yfirkjörstjórnir gefa út vottorð föstudaginn 20. maí nk.
Allar upplýsingar um kosningarnar má nálgast á kosningavef innanríkisráðuneytisins www.kosning.is en þar má einnig finna upplýsingar um framkvæmd kosninganna.

Hraðakstur í Grafarholti

Lögreglan myndaði 77  brot ökumanna á Reynisvatnsvegi í Reykjavík þann 6. maí síðastliðinn. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Reynisvatnsveg í austurátt, að Jónsgeisla.  Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 293 ökutæki þessa akstursleið og því ók rúmlega fjórðungur ökumanna, eða 26%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 63 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 77.

Vöktun lögreglunnar á Reynisvatnsvegi er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu.

Lars hættir eftir EM

Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, mun láta af störfum eftir EM í Frakklandi en Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti þetta á fjölmiðlafundi í dag.

Það hefur verið rætt um mögulegt framhald á störfum Lars með Heimi en það er nú ljóst að Lars ætlar að draga sig í hlé eftir EM.

Lars tók við íslenska landsliðinu árið 2011 og undir hans stjórn, og Heimis Hallgrímssonar, hefur landsliðið komist í umspil um sæti á HM og tryggt sér sæti í lokakeppni EM í Frakklandi.

_D3_5607

EM hópur Íslands

Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfarar, tilkynntu í dag lokahóp leikmanna sem munu leika á EM í Frakklandi.

Þjálfararnir völdu 23 leikmenn í hópinn en 6 aðrir leikmenn eru tilbúnir að koma til móts við liðið verði skakkaföll á hópnum. Þetta eru Gunnleifur Gunnleifsson, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Rúrik Gíslason, Viðar Örn Kjartansson og Ólafur Ingi Skúlason.

Íslenska liðið hefur leik í Saint-Etienne gegn Portúgal þann 14. júní. Næsti leikur er gegn Ungverjum í Marseille þann 18. júní en lokaleikur riðilsins er gegn Austurríki í París þann 22. júní þar sem leikið verður á Stade de France.

Lokahópurinn

Landsliðshópur Íslands á EM 2016

Nr Markmenn Fæddur Tímabil L M Félag
1 Hannes Þór Halldórsson 1984 2011-2016 32 Bodö/Glimt
12 Ögmundur Kristinsson 1989 2014-2016 10 Hammarby
13 Ingvar Jónsson 1989 2014-2016 4 Sandefjord
Varnarmenn
2 Birkir Már Sævarsson 1984 2007-2016 56 Hammarby
6 Ragnar Sigurðsson 1986 2007-2016 54 1 FK Krasnodar
14 Kári Árnason 1982 2005-2016 47 2 Malmö FF
23 Ari Freyr Skúlason 1987 2009-2016 37 OB
3 Haukur Heiðar Hauksson 1991 2015-2016 6 AIK
5 Sverrir Ingi Ingason 1993 2014-2016 4 1 KSC Lokeren
19 Hörður Björgvin Magnússon 1993 2014-2016 3 AS Cesena
4 Hjörtur Hermannsson 1995 2016 2 IFK Gautaborg
Miðjumenn
17 Aron Einar Gunnarsson 1989 2008-2016 57 2 Cardiff City FC
20 Emil Hallfreðsson 1984 2005-2016 52 1 Udinese Calcio
8 Birkir Bjarnason 1988 2010-2016 46 6 FC Basel
7 Jóhann Berg Guðmundsson 1990 2008-2016 45 5 Charlton Athletic FC
10 Gylfi Þór Sigurðsson 1989 2010-2016 37 12 Swansea City FC
18 Theódór Elmar Bjarnason 1987 2007-2016 25 AGF
16 Rúnar Már Sigurjónsson 1990 2012-2016 9 1 GIF Sundsvall
21 Arnór Ingvi Traustason 1993 2015-2016 6 3 IFK Norrköping
Sóknarmenn
22 Eiður Smári Guðjohnsen 1978 1996-2016 84 25 Molde
9 Kolbeinn Sigþórsson 1990 2010-2016 38 19 FC Nantes
11 Alfreð Finnbogason 1989 2010-2016 31 7 FC Augsburg
15 Jón Daði Böðvarsson 1992 2012-2016 20 1 1.FC  Kaiserslautern

 

Ólafur Ragnar hættir við framboð

Yfirlýsing forseta Íslands:
Í nýársávarpi mínu til íslensku þjóðarinnar 1. janúar bað ég landsmenn alla að íhuga vel lýsinguna á kjörstöðu Íslands sem var meginboðskapur ávarpsins og tilkynnti að í „ljósi hennar og á grundvelli lýðræðisins sem er okkar aðalsmerki finnast mér blasa við hin réttu vegamót til að færa ábyrgð forseta á aðrar herðar og hef því ákveðið að bjóða mig ekki fram til endurkjörs.“
Í kjölfar hinnar sögulegu mótmælaöldu sem reis hátt í byrjun apríl knúðu margir á um að ég breytti þessari ákvörðun og gæfi kost á mér á ný þótt ég hefði þegar gegnt embætti forseta í tuttugu ár; höfðuðu til umróts og óvissu og lítils fylgis yfirlýstra frambjóðenda.  Af skyldurækni og ábyrgð gagnvart þeim sem lengi höfðu sýnt mér mikið traust tilkynnti ég 18. apríl að ég myndi verða við þessum óskum en lýsti jafnframt yfir, að ég myndi taka því vel ef í ljós kæmi að aðrir nytu nægilegs trausts þjóðarinnar til að gegna embættinu.  Kannanir hafa síðan sýnt að fjöldi kjósenda vildi fela mér embættið á ný en það hefur líka orðið sú ánægjulega þróun að öldur mótmæla hefur lægt og þjóðmálin eru komin í hefðbundinn og friðsamlegri farveg.
 Það er nú líka orðið ljóst með atburðum síðustu daga að þjóðin á nú kost á að velja frambjóðendur sem hafa umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins; niðurstaða kosninganna gæti orðið áþekkur stuðningur við nýjan forseta og fyrri forsetar fengu við sitt fyrsta kjör.
Við þessar aðstæður er bæði lýðræðislegt og eðlilegt, eftir að hafa gegnt embættinu í 20 ár, að fylgja í ljósi alls þessa röksemdafærslu, greiningu og niðurstöðu sem ég lýsti í nýársávarpinu.  Ég hef því ákveðið að tilkynna með þessari yfirlýsingu þá ákvörðun mína að gefa ekki kost á mér til endurkjörs.  Um leið þakka ég einlæglega þann mikla stuðning sem ég hef notið og vona að allt það góða fólk sem hvatti mig til framboðs sýni þessari ákvörðun velvilja og skilning.  Þessi niðurstaða mín er studd þeirri fullvissu að þjóðin getur nú farsællega valið sér nýjan forseta og ég er, eftir langa setu hér á Bessastöðum, bæði í huga og hjarta reiðubúinn að ganga glaður til nýrra verka.

Kiwanismenn gáfu hjartahnoðtæki í björgunarþyrlurnar

Styrktarsjóður Kiwanisumdæmisins Ísland / Færeyjar og Kiwanisklúbbarnir Elliði, Eldey, Esja, Hekla og Dyngja hafa fært bráðamóttökunni á Landspítala Fossvogi að gjöf sjálfvirkt Lucas hjartahnoðtæki, ásamt fylgihlutum, til notkunar í þyrlum Landhelgisgæslunnar.  Slík tæki hafa ekki verið í þyrlunum en Gæslan stundum fengið þau lánuð hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Hjartahnoðtækið var formlega afhent við TF-Líf á þyrlupallinum í Fossvogi þann 4. maí síðastliðinn.  Bergur Stefánsson, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, tók við tækinu fyrir hönd Landspítala, af  Birni Ágústi Sigurjónssyni, formanni stjórnar Styrktarsjóðs Kiwanisumdæmisins og Gunnsteini Björnssyni, umdæmisstjóra Kiwanishreyfingarinnar.  Með fleiri viðstaddra voru Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem tók síðan við tækinu af spítalanum til að hafa í björgunarþyrlunum.

IMG_3432
Heimild: Landspitali.is