Tag Archives: landspítali

Þrjú ný ómtæki til Landspítalans

Minningargjafasjóður Landspítala færði fósturgreiningardeild Landspítala 27 milljónir króna að gjöf sem varið hefur verið til að kaupa 3 ný ómtæki.  Þau leysa af hólmi eldri tæki sem voru orðin úr sér gengin eftir notkun í meira en áratug.  Eðlileg endurnýjun á slíkum tækjum er talin vera 5 til 7 ár.

Tilefni gjafarinnar var 100 ára afmæli Minningargjafasjóðs Landspítala Íslands. Sjóðurinn var stofnaður árið 1916. Í fyrstu var hlutverk hans að styrkja fátæka sjúklinga til spítalavistar. Eftir tilkomu sjúkratrygginga hefur sjóðurinn styrkt sjúklinga sem ekki geta fengið fullnægjandi læknishjálp hérlendis og þurfa að fara til sjúkradvalar í útlöndum. Frá árinu 1966 hefur Minningargjafasjóður Landspítala styrkt tækjakaup á spítalanum. Tekjur sjóðsins myndast með minningargjöfum fólks sem sendir samúðarkort gegnum Póstinn og með ávöxtun höfuðstóls.

Heimild: landspitali.is

Skóflustunga að húsnæði fyrir jáendaskannann

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, tók  þann 12. janúar síðastliðinn fyrstu skóflustungu að húsnæði fyrir jáeindaskanna á spítalanum.  Íslensk erfðagreining færði íslensku þjóðinni skannann að gjöf sem og allan tilheyrandi tækjakost og sérhæft húsnæði undir hann. Verðmæti gjafarinnar er rúmar 840 milljónir króna.

Flókinn og umfangsmikill búnaður fylgir skannanum,  svo sem öreindahraðall sem framleiðir geislavirk efni sem leita í sjúka vefi líkamans. Jáeindaskanni er oftast notaður í krabbameinsmeðferðum en hann er einnig hægt að nýta í tauga-, hjarta- og gigtlækningum.

Húsnæðið verður byggt á Landspítala Hringbraut, aðlægt skyldri starfsemi til að ná sem mestri skilvirkni og þægindum fyrir sjúklinga. Gert er ráð fyrir að það verði tilbúið í september en þá verður skannanum og búnaði komið fyrir og hann prufukeyrður.

Áætlað er að jáeindaskanninn verði kominn í notkun um næstu áramót.

LSH29147-20x30

Hjartagátt Landspítala færðar gjafir

Hjartagátt Landspítala hafa verið færðar gjafir sem keyptar voru fyrir fé sem safnaðist með jólatónleikum í Fríkirkjunni 17. desember 2015.  Um 140 gestir mættu á tónleikana og söfnuðust um 340 þúsund krónur. Keypt voru m.a. þrjú 32″ sjónvörp, fimm útvarpstæki ásamt heyrnartólum, örbylgjuofn, blandari, eggjasuðutæki, vöfflujárn og fleira.

Það er fastur liður í tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni að halda styrktartónleika í desember. Að þessu sinni var ákveðið að styrkja Hjartagátt.  Á tónleikunum komu fram um 30 flytjendur.  Einsöngvarar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Valgerður Guðnadóttir og Einar Clausen. Með þeim voru kvennakórinn Heklurnar og sjö manna hljómsveit.

IMG_3218

Víðtæk áhrif verkfalla á Landspítala

Verkfalli Sjúkraliðafélags Íslands og Starfsmannafélags ríkissofnana,  var boðað á miðnætti aðfaranótt 15. október 2015, hefur það víðtæk áhrif á starfsemi Landspítala og þjónustu við sjúklinga.

Landspítali leggur áherslu á að tryggja bráðaþjónustu og öryggi sjúklinga eins og frekast er unnt. Heildaráhrif verkfallanna eru óljós en gert ráð fyrir að áhrifa gæti í allri starfsemi spítalans. Þannig munu falla niður allar skipulagðar skurðaðgerðir en bráðum og brýnum aðgerðum verða sinnt. Gert er ráð fyrir miklum áhrifum á dag- og göngudeildir og mun hluta þeirra verða lokað meðan á verkfalli stendur, s.s. göngudeild kvenlækninga, barna og á Grensási. Þá mun legurýmum fækka á bráðadeildum spítalans, þjónusta á öðrum skerðast (s.s. í Rjóðri) og fimm daga deild á Landakoti verður lokað. Svipað eða sama gildir um margar sambærilegar deildir, annað hvort lokun eða takmörkuð starfsemi. Stoðþjónusta spítalans raskast líka verulega komi til verkfalls, svo sem rekstur tölvukerfa og flutninga- og símþjónusta.

Líkur eru á að símkerfi spítalans verði fyrir miklu álagi vegna þess ástands sem skapast komi til verkfalls. Því er eindregið mælst til þess að hringja ekki í aðalnúmer spítalans nema brýna nauðsyn beri til. Minnt er á að neyðarnúmer landsmanna er 112.

Gáfu Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar

Kvenfélagið Hringurinn hefur fært fósturgreiningardeild  Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar fóstra og barna í móðurkviði og Thorvaldsensfélagið nýjan ómhaus  við tækið.

Sónartæknin á meðgöngu er fyrir löngu orðin hluti af greiningu og jafnvel meðferð á meðgöngu og er samofin mæðravernd, í vissum tilvikum út alla meðgönguna. Tækninni fer sífellt fram og er nú hægt að greina ákveðin frávik frá eðlilegu ferli snemma á meðgöngu sem gerir kleift að bregðast við sérhæfðum vandamálum miklu fyrr en áður. Með nýjum tækjum eykst skerpa og skýrleiki myndanna sem síðan eykur líkur á nákvæmari  greiningu.

IMG_2917 - Copy

Geislafræðingar sóttu aftur um stöður á Landspítala

Nánast allir geislafræðingar sem sögðu upp á Landspítala og hættu störfum 1. september 2015 eru meðal þeirra sem sótt hafa um starf aftur.  Alls sögðu 25 geislafræðingar upp störfum og hættu 17 þeirra 1. september.  Þau störf voru auglýst með umsóknarfresti til 21. september.  Fyrir þann tíma bárust 15 umsóknir en umsóknir héldu áfram að berast eftir þann tíma og því var ákveðið að auglýsa aftur.  Sá umsóknarfrestur rennur út 12. október. Nú þegar hafa rúmlega 30 umsóknir borist og eru sumar þeirra erlendis frá.
Díana Óskarsdóttir, deildarstjóri röntgendeildar, segir að útlitið sé allt annað og betra en verið hefur og fari sem horfi verði röntgendeildin á Landspítalanum aftur fullmönnuð þegar kemur fram í október.

Íslensk erfðagreining gefur jáeindaskanna

Íslensk erfðagreining hefur skuldbundið sig til að gefa 5,5 milljónir Bandaríkjadala eða rúmar 720 milljónir íslenskra króna til að kaupa jáeindaskanna fyrir Landspítala.  Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti  Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þess efnis 12. ágúst 2015. Ráðherra segir vonast til þess að jáeindaskanni komist í gagnið á spítalanum eftir eitt og hálft ár.

Við hönnun nýbygginga á Landspítalalóð hefur verið gert ráð fyrir að koma fyrir þessu mikilvæga myndgreiningar- og rannsóknartæki.   Nauðsynlegt er að reisa nýtt húsnæði til að koma jáeindaskannanum fyrir á spítalanum og tengdum búnaði til að búa til geislavirk efni.

Á hverju ári eru um 100 krabbameinssjúklingar sendir til útlanda í jáeindaskanna (petskanna) vegna þess að slíkt tæki er ekki til hér. Skanninn þykir nýtast einkar vel fyrir ýmsar tegundir af lungnakrabbameinum, eitlakrabbamein, leghálskrabbamein og krabbamein í koki. Jáeindaskanni gagnast líka vel við að finna uppruna krabbameins ef fólk hefur greinst með meinvarp.

Þetta kemur fram á vef Landspitala.is.

jaeindaskanni_mynd

Aukið samstarf Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands

Landspítali og Krabbameinsfélag Íslands hafa gert með sér samning sem felur í sér aukið samstarf þeirra á milli á sviði hefðbundinnar krabbameinsleitar í brjóstum og sérhæfðrar þjónustu við konur með brjóstakrabbamein. Markmiðið er að auka samhæfingu og bæta þjónustu.

Leit að krabbameinum í brjóstum kvenna er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða reglubundna hópleit þar sem einkennalausum konum er boðin þátttaka samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum. Hins vegar er klínísk brjóstaskoðun sem fram fer hjá konum ef niðurstaða hópleitar bendir til þess að nánari skoðunar er þörf eða ef konur hafa sjálfar fundið einkenni frá brjóstum sem þarfnast nánari skoðunar og greiningar. Krabbameinsfélagið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar þjónustu, hvort sem um er að ræða hópleit eða klíníska brjóstaskoðun. Með samningnum sem undirritaður hefur verið felst hins vegar ákvörðun um þá stefnu að ábyrgð á klínískri skoðun verði færð á hendi Landspítalans. Tveir röntgenlæknar Landspítalans annast klíníska skoðun og er nýmæli að annar þeirra verður yfirlæknir leitarstarfsins. Krabbameinsfélagið leggur til annað starfsfólk, húsnæði, aðstöðu og nauðsynlegan búnað.

Krabbameinsleit, hvort sem er hópleit eða klínískar brjóstaskoðanir, munu áfram fara fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og þjónusta sjúkrahússins á Akureyri verður einnig óbreytt.

KrabbsamningurHeimild: velferdarraduneyti.is

Eldhús og matsalir Landspítala hafa fengið umhverfisvottun

Eldhús og matsalir Landspítala (ELM) hafa fengið Svansvottun sem staðfestir að þjónustan uppfylli strangar umhverfis- og gæðakröfur. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, hefur afhent Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, staðfestinguna um Svansvottun. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.

Eldhúsið og matsalirnir tíu framleiða og selja 4.500 máltíðir á dag fyrir starfsmenn, gesti og sjúklinga spítalans. Tækifærin eru því mörg til að leggja umhverfinu lið sem samræmist vel metnaðarfullri umhverfisstefnu Landspítala.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið markvisst að því að gera starfsemina umhverfisvænni.  Fjöldi starfsmanna hefur komið að þeirri vinnu auk þess sem gestir í matsölum hafa lagt sitt af mörkum með aukinni flokkun og margnota matarboxum. Birgjar hafa einnig hjálpað til með því að auka framboð af umhverfisvottuðum hreinsiefnum og pappírsþurrkum, umhverfisvænni ílátum auk þess að flytja inn lífrænt ræktaðar matvörur í magnumbúðum sem áður voru ekki til.

Þetta kemur fram á vef Landspítala.

eldhus_matsalir_svansvottun_2015

Faraómaur í húsi á Landspítala

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sóttvarnalækni hefur verið tilkynnt að vart hafi orðið við faraómaur í Landspítalahúsi 13 við Hringbraut. Skordýrið hefur að líkindum borist með varningi á Landspítala. Maursins hefur orðið vart á nokkrum stöðum í byggingunni. Aðgerðir til að ráða niðurlögum hans eru þegar hafnar í samráði við meindýraeyði Reykjavíkurborgar og verður meðal annars notað sérpantað eitur til verksins.

Meðal deilda í húsi 13 eru framleiðslueldhús Landspítala, trésmíðaverkstæði og heilbrigðistæknideild. Talsverðir flutningar eru því úr húsi 13 til annarra deilda og húsa Landspítala og hefur stjórnendum því verið gert viðvart um málið og þeir beðnir um að vera á varðbergi gagnvart þessu. Mikilvægt er að ráða niðurlögum maursins þar sem hann getur verið smitberi og valdið skaða á meðferðartækjum.

Faraómaur er þekktur á Íslandi og var fyrsta staðfesta tilviksins vart 1980. Hans hefur þó ekki orðið vart á Landspítala áður. Maurinn þrífst vel í hita og raka og er aðstæðum á Landspítala þannig háttað að gera má ráð fyrir  að hann geti orðið erfiður viðureignar.

Þetta kemur fram á vef Landspítala.