Tag Archives: ísland

Fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því fellst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimild: stjornarradid.is

Ríkisstjórnin styrkir komu San Francisco ballettsins

Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun að veita Hörpu styrk að upphæð fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til að standa straum af komu San Francisco ballettsins hingað til lands.

Fyrirhugað er að San Francisco ballettinn, ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands, haldi fimm sýningar í Eldborgarsal Hörpu á komandi sumri. Koma ballettsins hingað til lands, með því umfangsmikla sýningahaldi sem fyrirhugað er, mun án efa teljast til hápunkta í menningarstarfseminni hér á landi á árinu.

Lokanir á vegum vegna óveðurs

Vegna óveðurs sem gengur yfir landið hefur nánast öllum fjallvegum á landinu verið lokað. Vegir á Reykjanesi og flestir vegir á Suðurlandi eru einnig lokaðir og það sama má segja um Kjalarnes, Hafnarfjall og  Snæfellsnes. Í Skagafirði er slæmt ferðaveður og flestir vegir lokaðir.  Vegirnir um Súðavíkurhlíð, Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Einnig er lokað með suðausturströndinni frá Hvolsvelli og austur á Fáskrúðsfjörð. Ekki er reiknað með að þessir vegir opni fyrr en á morgun.

Hálka er á flestum öðrum leiðum en flughálka á nokkrum leiðum á Suðurlandi og í Ísafjarðardjúpi.

Líkfundur í Laxárdal í Nesjum

Í gær, þriðjudaginn 18. ágúst, klukkan 16:11 barst tilkynning á lögreglustöðina á Höfn í Hornafirði, um líkfund í Laxárdal í Nesjum.  Lögreglumenn á Höfn fóru þegar á vettvang.  Landhelgisgæslan lagði til þyrlu til að flytja rannsóknarlögreglumann frá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, lögreglumenn úr Kennslanefnd ríkislögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann frá Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins og réttarlækni á staðinn.

Ekki hefur verið borin kennsl á líkið.  Kennslanefnd hefur gefið út að líkið sé af ungum karlmanni um það bil 186 sentimetrar á hæð með ljóst axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkbláar íþróttabuxur og hettupeysu með áletrun að framan „QUICKSILVER“.  Ætla má að maðurinn hafi látist fyrir einhverjum mánuðum síðan.  Málið er í rannsókn og ekkert hægt að segja til um á þessu stigi með hvaða hætti andlát mannsins bar að.

Lögreglan á Suðurlandi biðlar til allra þeirra sem gætu veitt upplýsingar sem gætu átt við lýsingu hér að ofan, þær má hringja inn í síma 842 4250.

Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar.

Úthlutun úr Myndlistarsjóði

Þann 1. júlí s.l. var úthlutað myndlistarráð úr Myndlistarsjóði fyrir árið 2015, 18,5 milljónum til 42 verkefna myndlistarmanna og fagaðila á sviði myndlistar.

Í tilkynningu frá myndlistarráði segir: “Að þessu sinni bárust sjóðnum alls 117 umsóknir að heildarfjárhæð 106,5 milljónir kr. Myndlistarráð fagnar því hversu margar umsóknir bárust sjóðnum en fjöldi umsókna sýnir berlega þann drifkraft og grósku sem einkennir íslenskt myndlistarlíf.

Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun.

Fimmtán styrkir voru veittir úr flokki stærri sýningarverkefna sem er stærsti flokkur sjóðsins; þar af hlutu styrk tíu hátíðir og sýningarstaðir og fimm einstaklingar. Stærsta styrkinn að upphæð 1,8 m.kr hlýtur myndlistarhátíðin Sequences VIII. Að auki hljóta tólf myndlistarmenn styrk í flokki minni sýningarverkefna, styrkir til útgáfu- og rannsókna nema 6,1 m.kr. og 1,5 m.kr  er veitt til undirbúnings verkefna.

UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Sequences-myndlistarhátíð Sequences VIII 1.800.000
Cycle Music and Art Festival Leyst úr læðingi 900.000
Theresa Himmer Speak Nearby, exhibition at Soloway, New York 600.000
Culturescapes CULTURESCAPES Iceland: Special Art Program 1.000.000
Eygló Harðardóttir 3 sýningar 400.000
Gerðarsafn-Listasafn Kópavogs skúlptúr-skúlptúr 400.000
Hrafnhildur Arnardóttir All Very Agile Flames 250.000
Nýlistasafnið P.S. Ekki gleyma mér 500.000
Kling & Bang The Confected Video Archive of Kling & Bang – viðhald og sýning í Austellungsraum Klingental 400.000
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands The Assembly of The Hyperboreans 500.000
Djúpavogshreppur Rúllandi Snjóbolti/6, Djúpivogur 400.000
Verksmiðjan Hjalteyri Sumarryk, sýningar 2016 400.000
Listasafnið á Akureyri A! Gjörningahátíð 300.000
Karlotta Blöndal Rannsókn, sýning og útgáfa um pappír 300.000
Hulda Rós Guðnadóttir Keep Frozen 400.000
8.550.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Styrmir Örn Guðmundsson Einkasýning í JOEY RAMONE (Rotterdam) 300.000
Eva Ísleifsdóttir I am Here Belive 250.000
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands Sýning: Ingólfur Arnarsson & Þuríður Rós Sigurþórsdóttir 300.000
Arnar Ásgeirsson Promesse du Bonheur 200.000
Arna Óttarsdóttir Einkasýning í i8 nóvember 2015 200.000
Tumi Magnússon Sýning í MACMO, Museo de Arte Contemporaneo, Montevideo, Uruguay 200.000
Einar Falur Ingólfsson Culturescape 2015 / 2 sýningar 100.000
Claudia Hausfeld Exhibition Switzerland 100.000
Una Margrét Árnadóttir Þrykk í SØ 150.000
Rakel McMahon We are Family 200.000
Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir Samsýning í Sideshow Gallery, New York 150.000
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir Umgerð – Sýning Hugsteypunnar í Listasafni Akureyrar 200.000
2.350.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Staðir / Places Staðir / Places 250.000
Sigurður Guðjónsson Einkasýning í Berg Contemporary 250.000
Nýlistasafnið Rolling Line 500.000
Helga Þórsdóttir augnaRáð 300.000
Haraldur Jónsson Hringstig 200.000
1.500.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Sigtryggur Berg Sigmarsson óskýr sjón, lita raskanir, mjúkar og hraðar handahreyfingar 50.000
Ragnhildur Jóhanns Reykjavík Stories 550.000
Steingrímur Eyfjörð Vinnuheiti: „Tegundagreining“ – Rit um verk Steingríms Eyfjörð 700.000
Ásta (Ástríður) Ólafsdóttir Ásta Ólafsdóttir, Myndlist 500.000
Eygló Harðardóttir Útgáfa bókverks 500.000
Margrét H. Blöndal Teikningabók 500.000
Heiðar Kári Rannversson ÍSLENSK BÓKVERK 600.000
Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá Útgáfa á listaverkabók um Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá. Vinnuheiti: Orðin, tíminn og blámi vatnsins. 700.000
Crymogea Birgir Andrésson – Verk 1.000.000
Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg) Gjörningar – Útgáfa bókar / skráning ljósmynda og heimilda 1.000.000
6.100.000

Viljayfirlýsing að taka á móti 50 flóttamönnum

Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum við ráðherraráðið í Brussel um að taka á móti 50 flóttamönnum samtals á þessu og næsta ári. Ísland verður þannig þátttakandi í samvinnu Evrópuþjóða um móttöku kvótaflóttafólks. Yfirlýsingin er birt með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjármögnun verkefnisins.

Móttaka fólksins verður ákveðin í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, líkt og ávallt er gert þegar tekið er á móti kvótaflóttafólki, en viljinn stendur til þess að létta á miklum straumi flóttamanna til Grikklands og Ítalíu.

Hér á landi annast flóttamannanefnd undirbúning að móttöku kvótaflóttafólks í samvinnu við einstök sveitarfélög hverju sinni, auk þess sem Rauði kross Íslands hefur hlutverki að gegna.

Heimild: velferdarraduneyti.is

A landslið karla í 23. sæti á FIFA listanum

A landslið karla í knattspyrnu er í sinni hæstu stöðu á styrkleikalista FIFA frá því mælingar hófust.  Á nýútgefnum lista er Ísland í 23. sæti af öllum aðildarþjóðum FIFA og ef einungis Evrópuþjóðir eru teknar með í reikninginn er Ísland númer 16 í röðinni og jafnframt efst Norðurlandaþjóða.  Íslenska liðið tók svo sannarlega stökk frá síðasta lista, fer upp um heil 14 sæti. Þetta er hæsta staða liðsins frá því mælingar hófust.

Argentína kemst í efsta sæti listans og fer þar með upp fyrir Þýskaland og Belgíu.  Kólumbía er í fjórða sæti og næstu mótherjar Íslands í undankeppni EM 2016, Hollendingar, eru í 5. sæti.  Af öðrum þjóðum sem eru í 1. riðli með Íslandi og Hollandi er það að frétta að Tékkar eru í 20. sæti, Tyrkir í 48. sæti, Lettar í 87. sæti og Kasakar í sæti 142.

Mannúðarsamtök fá styrki fyrir jólin frá Landsbankanum

Landsbankinn hefur úthlutað fjórum milljónum króna til fjögurra félagasamtaka sem vinna mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir samfélagið fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn á Íslandi fengu hver um sig eina milljón króna til að sinna aðstoð innanlands og UNICEF á Íslandi fékk eina milljón króna til neyðarhjálpar gegn ebólufaraldrinum í ríkjum Vestur-Afríku.

Mæðrastyrksnefnd nýtir fjárstuðning sinn til að fjármagna matarúthlutun og gjafir fyrir jólin og aðstoðar með því fjölda fjölskyldna. Hjálparstarf kirkjunnar færir skjólstæðingum sínum um land allt innkaupakort og Rauði krossinn sinnir innanlandsaðstoð við efnalitlar fjölskyldur um land allt. Hópur starfsfólks Landsbankans mun aðstoða Mæðrastyrksnefnd á næstu dögum við að deila út stuðningi til skjólstæðinga en stefna bankans er að starfsmenn taki þátt í völdum samfélagsverkefnum með sjálfboðastarfi.

Jolastyrkir-hopmynd-515

Heimild og mynd: landsbankinn.is

Fjármálastöðuleikaráð tekur til starfa

Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs fór fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu miðvikudaginn 10. september 2014. Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika.  Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.

Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru:

  1. Að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika,
  2. Að meta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika,
  3. Að skilgreina þær aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika,
  4. Að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra getur haft áhrif á fjármálastöðugleika.