Tag Archives: landsbjörg

112 dagurinn

112 og viðbragðsaðilar bjóða almenningi að skoða græjurnar og hitta 112-fólkið á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar þar sem Forseta Íslands bjargað úr Reykjavíkurhöfn upp í þyrlu.

Laugardaginn 11. febrúar verður tækjasýning á Hörputorgi og við Reykjavíkurhöfn kl. 13-16. Viðbragðsaðilar sýna margvíslegan búnað á Hörputorgi og almenningi er boðið að skoða varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóla sjómanna, við Faxagarð.

Björgum forsetanum laugardag kl. 14.30!
Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsla Íslands bjarga forseta Íslands úr Reykjavíkurhöfn laugardaginn 11. febrúar kl. 14.30. Fulltrúar 112 og viðbragðsaðila taka á móti forseta við Hörpu kl. 13.30. Hann kynnir sér tækjasýninguna en fer síðan með björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar út á Reykjavíkurhöfn þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar kemur honum til bjargar kl. 14.30.

Dagskrá í Flóa í Hörpu laugardag kl. 15.00
• Ávarp: Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
• Verðlaun í Eldvarnagetrauninni 2016 afhent
• Eva Björk Eyþórsdóttir og Ragna Björg Ársælsdóttir, starfsmenn bráðamóttöku LSH, syngja við undirleik Viðbragðssveitarinnar
• Skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur

Björgunarlykkjur settar upp á 100 stöðum í sumar

Auka má öryggi ferðafólks mikið með uppsetningu og kynningu björgunarlykkju, svokölluðu Björgvinsbelti, við áfangastaði þar sem hætta getur verið á drukknun; við sjó, vötn og ár. Því hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg, aðalstyrktaraðili þess, Sjóvá og Vegagerðin tekið höndum saman um að setja upp slíkan öryggisbúnað víða, í fyrsta áfanga á 100 stöðum í sumar.

Vinnuhópur á vegum SL, Sjóvár og Vegagerðarinnar áhættugreindi og forgangsraðaði stöðum við þjóðvegi landsins með tilliti til drukknunarhættu. Þessir 100 staðir, sem fjölsóttir eru af íbúum og erlendu sem innlendu ferðafólki, voru settir í fyrsta forgang og hafist verður handa við að setja upp björgunarlykkjur á þeim í þessum mánuði. Vegagerðin mun taka að sér uppsetninguna. Einnig er í bígerð að gefa búnað í lögreglubifreiðar og til slökkviliða.

Er það von þeirra sem að verkefninu standa að með þessum búnaði megi auka öryggi við sjó, vötn og ár.

 Helstu atriði:
  • Aukið öryggi íbúa og ferðafólks við sjó, vötn og ár
  • Samstarf Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjóvár og Vegagerðarinnar
  • 100 staðir í fyrsta forgangi,
  • Fyrstu björgunarlykkjurnar komnar upp við Jökulsárlón

 

 

 

Nánari upplýsingar veitir:

  • Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í síma 897 1757.

25.680 börn fá gjafabréf á flugeldagleraugu

Undanfarin ár hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg , Blindrafélagið, Sjóvá, Pósturinn og Prentsmiðjan Oddi unnið að forvörnum til að fyrirbyggja augnslys af völdum flugelda. Nú senda þau öllum 10 til 15 ára börnum, sem eru 25.680 talsins, gjafabréf fyrir flugeldagleraugum. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að gleraugun verði til þess að ekkert þeirra slasist á augum um áramótin. Rétt er að ítreka að allir ættu að nota flugeldagleraugu, sama á hvaða aldri þeir eru, hvort sem viðkomandi er að skjóta upp eða eingöngu að horfa á.

Fikt með flugeldavörur er of algengt hjá krökkum og þá sérstaklega strákum. Þeir taka flugelda í sundur, safna púðrinu saman og búa til sprengjur. Þessi leikur er stórhættulegur og foreldrar verða að vera vakandi og meðvitaðir um það sem börn þeirra eru að fást við þessa daga.

Annar hópur sem hefur verið að lenda í flugeldaslysum eru karlmenn á besta aldri. Oft er áfengi með í för þegar þau verða. Munum að áfengi og flugeldar eiga aldrei samleið.

Gjafabréfum á flugeldagleraugu má framvísa á öllum flugeldamörkuðum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til að fá gleraugun afhent. Einnig fylgja flugeldagleraugu öllum fjölskyldupökkum sem seldir eru hjá björgunarsveitum.

Nánari upplýsingar um öryggismál tengd flugeldum má finna á www.flugeldar.is/oryggisakademian en þar eru myndbönd með leiðbeiningum um rétta meðferð flugelda.

Óveður um allt land

Riflega 500 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sinna nú lokunum vega, óveðursútköllum eða eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins sem nú gengur yfir landið.

Í Vestmannaeyjum fauk þak af íbúðarhúsi við Smáragötu og lenti í heilu lagi á lóð rétt hjá. Húsið er stórskemmt og ekki talið öruggt fyrir björgunarmenn að fara nálægt því. Íbúarnir hafa verið fluttir í skjól og verið er að aðvara eigendur nærliggjandi húsa. Tilkynningar hafa borist um fleiri laus þök og fokverkefni.

Björgunarsveitir hafa einnig sinnt nokkrum aðstoðarbeiðnum á Suðurnesjum og fyrir austan fjall en þau hafa ekki verið alvarlegs eðlis.

Björgunarsveitir selja Neyðarkallinn næstu daga

Neyðarkall björgunarsveita,rverður seldur dagana 5.-7. nóvember. Um er að ræða björgunarsveitamann í bílaflokki með dekk og öxul. Meðlimir bílaflokka sjá um að ökutæki sveitanna séu í lagi og tilbúin í útkall þegar þörf er á. Þeir sjá einnig oft um akstur tækjanna til og frá vettvangi æfinga eða útkalla. Er þetta í tíunda skipti sem Neyðarkall björgunarsveita er seldur og er hann ein af mikilvægustu fjáröflunum þeirra.

Landsbjörg æfði leit á reiðhjólum

Síðastliðið mánudagskvöld setti Hjálparsveit skáta í Reykjavík upp samæfingu fyrir leitartæknihópa af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Áherslan var lögð á leit á reiðhjólum og voru skipulögð tvö verkefni fyrir hópana; hraðleit í götum og portum í iðnaðarhverfi og hraðleit á stígum í Elliðarárdalnum. Reiðhjól gera leitarhópum kleift að hraðleita líklegar leiðir og staði sem fyrsta viðbragð og er tilgangurinn að gera forkönnun á leitarsvæði áður en farið er í ítarlegri leit.

1725

Mynd: Guðmundur H. Önundarson .

Landsbjörg undirritar samstarfssamning

Þann 2. október síðastliðinn var skrifað undir samstarfssamning milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landsnets hf., Landsvirkjunar og RARIK um aðstoð björgunarsveita við veitufyrirtækin í vá og við önnur tilvik eða atburði þar sem aðstoðar er óskað.

Slysavarnafélagið Landsbjörg tryggir að í viðbragðskerfi félagsins séu skilgreindir verkferlar sem nýttir verða þegar fyrirtækin þurfa á að halda. Það skal gert með skipulögðum æfingum björgunarsveita í samstarfi við starfsmenn raforkufyrirtækjanna. Einnig mun Björgunarskólinn veita starfsfólki fyrirtækjanna aðgang að fræðslu samkvæmt námskrá skólans eða með sérsniðnum námskeiðum sé þess óskað.

Framlag raforkufyrirtækjanna felst í árlegum styrk til Slysavarnafélagsins Landsbjargar næstu þrjú árin. Einnig munu þau veita félögum SL nauðsynlega fræðslu sem m.a. snýr að öryggi þeirra í tengslum við verkefni sem þarf að vinna í þeirra þágu.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar fagnar samningnum og segir hann skipta miklu máli fyrir samfélagið allt. „Í raun er það öryggismál að þegar rafmagnsrof verður, standi það eins stutt og hægt er. Við eigum sérhæfðan búnað og tæki og öflugan mannskap til að aðstoða raforkufyrirtækin á neyðarstundu.“

Heimild: landsbjorg.is

Íslenskir björgunarsveitarmenn æfðu á Grænlandi

Nýverið tók níu manna hópur undanfara frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þátt í björgunaræfingunni Arctic Response, sem fór fram á Austur Grænlandi. Æfingin, sem skipulögð var af danska hernum, fól í sér viðbrögð við slysum og öðrum atvikum við heimskautaaðstæður. Mismunandi hópar danska hersins og dönsku almannavarnanna tóku þátt í æfingunni en einnig kom Landhelgisgæslan að skipulagningu hennar.
Hlutverk íslenska hópsins var að þjálfa meðlimi í dönsku Sirius hersveitinni í sprungubjörgun og ferðalögum um jökla. Sirius sveitin sérhæfir sig í löngum ferðum á hundasleðum um heimskautasvæði Austur-Grænlands. Einnig var æft með félögum úr björgunarsveit bandaríska flughersins. Ferðin var einkar lærdómsrík og gekk samstarfið við dönsku hermennina mjög vel en veður og vetraraðstæður höfðu töluverð áhrif á framgang æfingarinnar.

1697 1698 1699 Myndir: Ágúst Þór Gunnlaugsson og Jón Heiðar Rúnarsson.

Útköll Landsbjargar um verslunarmannahelgina

Um verslunarmannahelgina komu nokkur útköll til björgunarsveitanna á landsbyggðinni.

Á föstudag fór Björgunarsveitin Blanda og aðstoðaði erlenda ferðamenn sem höfðu fest bíl sinn í aurbleytu á Stórasandi. Síðar sama dag fór félagar Dagrenningar á Hvolsvelli til aðstoðar ferðamanni sem hafði sett bíl sinn á bólakaf í Markarfljóti. Björgunarsveitarmenn þurftu að nota flotgalla til að komast að bílnum svo djúpt var hann kominn.

Á laugardag voru björgunarsveitir á sunnanverðu Vesturlandi auk nokkura af höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna slys á gönguleiðinni Síldamannagötur. Sú leið liggur á milli Botnsdals í Hvalfirði og Skorradals. Þar hafði unglingsstúlka fallið og slasað sig á fæti svo hún komst ekki áfram. Samferðamenn stúlkunnar óskuðu eftir aðstoð við Neyðarlínu.

Um 1,5 km burð var að ræða en vel gekk að koma stúlkunni niður í Botnsdal þar sem hún fór í sjúkrabíl og var flutt á sjúkrahús til meðhöndlunar.

Á sunnudagskvöldi var Björgunarsveitin Vopni kölluð vegna bílstjóra sem hafði fest bíl sinn í mýri langt utan vegar. Eðli málsins vegna fór lögreglumaður með á staðinn en alls tók verkefni um fimm klukkustundir.

Einnig á sunnudagskvöld fór Björgunarsveitin Björg Eyrarbakka til aðstoðar ökumanni sem fest hafði bíl sinn í sandi rétt við veitingastaðinn Hafið Bláa við Óseyrarbrú. Nokkuð greiðlega gekk að losa bílinn og koma honum á heppilegra undirlag.

Árla mánudagsmorguns voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út vegna gruns um týndan einstakling. Rétt í þann mund er fyrsti hópur var að hefja leit kom viðkomandi fram.

Nokkuð hefur verið um verkefni hjá hópum á hálendisvakt björgunarsveita þessa verslunarmannahelgina. Þannig sinntu hópar slasaðri reiðhjólakonu, aðstoðuðu nokkra ferðalanga sem fest höfðu bíla sína í vatnsföllum eða snjó, sinntu einstaklingi sem slasaði sig á baki og fleira mætti týna til.

Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.

Unglingadeildir Landsbjargar til Rússlands

Um síðastliðna helgi fór 15 manna hópur frá unglingadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar til Rússlands til að taka þátt í æfingunni USAR 2015.

Íslensku þátttakendurnir eru á aldrinum 15 – 17 ára og koma úr unglingadeildum björgunarsveita um allt land. Æfingin fer fram í Noginsk í Rússlandi og eru þátttökulönd að þessu sinni ellefu talsins.

Æfingin stendur í sex daga og lýkur á 14 klst. rústaæfingu þar sem allar þátttökuþjóðir vinna saman. Það eru ýmis verkefni sem þátttakendur þurfa að leysa en auk rústabjörgunar er tekist á við slasaða einstaklinga, fjallabjörgun og fleira.

Æfingar sem þessar skila miklu í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem þátttakendur öðlast mikla reynslu.

Heimild: landsbjorg.is

Hálendisvakt björgunarsveita hafin

Í byrjun júlí hófst hálendisvakt björgunarsveita. Samhliða því ætla tæplega 100 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að standa vaktina á mörgum viðkomustöðum ferðamanna víða um land. Má nefna auk Reykjavíkur, Selfoss, Borgarnes, Ísafjörð, Varmahlíð, Akureyri, Egilsstaði og Höfn.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú sinnt slysavörnum ferðafólks í 10 ár en þá var hálendisvakt björgunarsveita sett í gang í fyrsta sinn. Síðan þá hefur verkefnið þróast og stækkað frá ári til árs. Innan þess er vefsíðan Safetravel, upplýsingaskjáir með öryggisleiðbeiningum á fjölförnum ferðamannastöðum og í ár er félagið með aðstöðu og starfsmann í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík til að fræða og leiðbeina ferðafólki.

Spjallað verður við ökumenn og ferðalanga, þeim afhent fræðsluefni frá Neyðarlínu, Sjóvá og Safetravel og börnum boðið að fá sér sæti á fjórhjólum til að láta mömmu eða pabba smella af sér mynd. Aðalatriðið er þó að vekja athygli á nauðsyn öruggrar ferðahegðunar og sérstökum aðstæðum á hálendinu þessar vikurnar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að aðstæður á hálendi og til fjalla eru um margt óvenjulegar og jafnvel hættulegar. Þekking á aðstæðum, reynsla og góð ferðahegðun er því enn mikilvægari þetta sumarið en oft áður.

1665

Mynd: Jón Svanberg Hjartarson  / Landsbjorg.is

Um 500 björgunarsveitarmenn sinna 600 verkefnum

Gríðarlegt álag hefur verið á björgunarsveitum landsins það sem af er degi. Hafa þær sinnt á sjötta hundruð verkefna og hafa hátt í 500 manns tekið þátt í að leysa þau. Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.

Á höfuðborgarsvæðinu hófu aðstoðarbeiðnir að streyma inn snemma í morgun og fljótt varð ljóst að kalla varð út allt tiltækt lið. Um 160 manns hafa unnið í allan morgun á öllum tiltækum tækjum sveitanna við að leysa verkefnin. Var þeim forgangsraðað eftir alvarleika.

Um 60 manns sinntu um og yfir 50 verkefni á Suðurnesjum í dag.

Einnig var mikið að gera á Vestfjörðum þar sem 40 manns tóku þátt í aðgerðum, í Skagafirði þar sem 27 björgunarsveitamenn sinntu 17 verkefnum, á Snæfellsnesi voru 27 björgunarmenn sem leystu úr 16 verkefnum, Húnar og Blanda voru með 17 manns í 13 verkefnum, í Eyjafirði leystu sveitir frá Hrísey, Akureyri og Eyjafjarðasveit 10 verkefni og voru settir í þau 19 manns, á Dalvík leystu 11 manns 7 verkefni, í Borgarfirði og nágrenni voru Brák, Elliði og Ósk úti og sinntu 11 verkefnum, 12 björgunarmenn voru að störfum á Hellu, níu manns á Seyðisfirði og 8 á Hólmavík.

Einnig var kallað út á Vopnafirði,Reykholti, Hvolsvelli, Hólmavík og Selfossi svo eitthvað sé nefnt.

ISTAT styrkir Íslensku alþjóðabjörgunarsveitina

Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni hefur borist höfðinglegur styrkur að fjárhæð 10.000 dollarar, eða rúmlega 1.2 milljónir króna, frá styrktarsjóði alþjóðasamtaka fraktflugvélaleigjenda, International Society of Transport Aircraft Trading Foundation (ISTAT Foundation).  ISTAT Foundation var stofnað árið 1994 til að styrkja einstaklinga og stofnanir sem stuðla að framgangi flugmála og hjálparstarfi.  Styrkurinn kemur sér sérstaklega vel þar sem fyrir liggur að endurnýja ýmsan búnað sveitarinnar.

Þetta kemur fram á landsbjorg.is

Úttekt rústaleitarhunda Landsbjargar

Úttekt rústaleitarhunda fór fram hjá Hjálparsveit skáta Garðabæ um síðustu helgi, en fyrsta úttekt sveitarinnar fór fram í fyrra.  Sveitin fékk til liðs við sig Norðmennina Ove Syslak og Theresia Staaland, en bæði eru þau félagar í Norwegian Search and Rescue Team (NORSAR) og leiðbeinendur hjá Norske Redningshunder (NRH).  Ove Syslak er jafnframt stjórnandi NORSAR og hefur starfað fyrir International Search and Rescue Advisory Group (INSARAG), sem eru regnhlífarsamtök rústabjörgunarsveita innan Sameinuðu þjóðanna.

Úttektin fór fram á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, en sex teymi stóðust úttektina og fara á útkallslista Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar þegar hundarnir hafa verið bólusettir.  Hjálparsveit skáta Garðabæ er með níu björgunarhunda á útkallslista, en flestir þeirra eru útteknir í viðavangs-, snjóflóða- og rústaleit.

513 Heimild: landsbjorg.is

Forsetafrúin heimsótti snjóflóðanámskeið

Frú Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsótti þátttakendur á snjóflóðanámskeiði Björgunarhundasveitar Íslands s.l. sunnudag.

Um er að ræða árlegt vetrarnámskeið sveitarinnar sem hófst þann 22. mars og stendur til 26. mars. Alls taka 23 hundar þátt ásamt þjálfurum sínum en á námskeiðinu eru hundarnir þjálfaðir og metnir til leitar í snjóflóðum.

Frú Dorrit og eiginmaður hennar, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tóku þátt í æfingu en forsetafrúin er verndari sveitarinnar. Var frú Dorrit meðal annars grafin í fönn og tók Sámur, hundur þeirra hjóna þátt í að leita að eiganda sínum undir dyggri stjórn forsetans.

Forsetahjónin vörðu drjúgum hluta dagsins á námskeiðinu og tóku virkan þátt í því sem fram fór. Var þeim svo boðið í kvöldverð þar sem forsetafrúin tók formlega við starfi verndara sveitarinnar. Sámur ber nú stoltur merki Björgunarhundasveitar Íslands og er verðugur  fulltrúi ferfætlinga í sveitinni.