All posts by Magnús Rúnar Magnússon

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar voru afhent á degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember, í Gamla bíói í Reykjavík og hlaut þau að þessu sinni Jón G. Friðjónsson prófessor. Jón hefur kennt málvísindi og íslenska málfræði við Háskóla Íslands um áratuga skeið og verið meðal brautryðjenda í kennslu íslensku sem annars máls við skólann. Verðlaun Jónasar eru árlega veitt þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar.

Þessi hafa hlotið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar:

 1. Vilborg Dagbjartsdóttir skáld og grunnskólakennari, 1996
 2. Gísli Jónsson menntaskólakennari, 1997
 3. Þórarinn Eldjárn rithöfundur, 1998
 4. Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, 1999
 5. Magnús Þór Jónsson, Megas, 2000
 6. Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, 2001
 7. Jón Böðvarsson, 2002
 8. Jón S. Guðmundsson, 2003
 9. Silja Aðalsteinsdóttir, 2004
 10. Guðrún Helgadóttir, 2005
 11. Njörður P. Njarðvík, 2006
 12. Sigurbjörn Einarsson, 2007
 13. Herdís Egilsdóttir, kennari, 2008
 14. Þorsteinn frá Hamri, rithöfundur og skáld, 2009
 15. Vigdís Finnbogadóttir, velgjörðarsendiherra Sameinuðu Þjóðanna í tungumálum, fyrrverandi forseti Íslands og leikhússtjóri, 2010
 16. Kristín Marja Baldursdóttir rithöfundur, 2011
 17. Hannes Pétursson rithöfundur, 2012
 18. Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður, 2013
 19. Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur 2014
 20. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur 2015
 21. Sigurður Pálsson skáld 2016
 22. Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur, 2017
 23. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, 2018

Hátíðardagskrá í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2019

Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins verður í boði í samstarfi við Reykjavíkurborg og Alþingi á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2019.

Hátíðardagskráin hefst á Austurvelli klukkan 11:00 þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Því næst flytur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarp og að því loknu flytur Fjallkonan ljóð.

Þingfundur ungmenna á Alþingi hefst að lokinni athöfn á Austurvelli og verður hann í beinni útsendingu á RÚV. Markmiðið með þingfundinum er að gefa ungu fólki tækifæri til að koma málefnum sínum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar og kynnast um leið störfum Alþingis.

Þá verða Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, Alþingi, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavíkur, Seðlabanki Íslands og Hafrannsóknarstofnun opin almenningi frá klukkan 14:00 til 18:00. Í Stjórnarráðinu og á Alþingi verður lögð áhersla á að sýna húsakynni og sýnt verður myndband um Stjórnarráðið. Í Hæstarétti verður leiðsögn á hálftíma fresti yfir daginn þar sem gestir verða fræddir um sögu, húsnæði og starfsemi réttarins en Hæstiréttur verður 100 ára á næsta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur, í samstarfi við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, standa fyrir sýndarréttarhöldum. Í Seðlabanka Íslands verður m.a. til sýnis gullstöng og sýning á munum tengdum Halldóri Kiljan Laxness sem Seðlabankanum hefur verið falið að varðveita og þ. á m. eru sjálf Nóbelsverðlaunin. Einnig verður sýnt úrval málverka í eigu Seðlabankans. Hafrannsóknastofnun verður með fiska til sýnis í 10 körum við Sjávarútvegshúsið, upplýsingasetur á jarðhæð hússins verður opið og starfsemi stofnunarinnar verður kynnt á myndböndum í bíósal.

Ókeypis aðgangur verður að Þjóðminjasafninu frá klukkan 10:00 til 17:00. Mennta- og menningarmálaráðherra, opnar Stofu, nýtt fjölskyldu- og fræðslurými í safninu. Milli klukkan 14 og 16 verða settar upp í Stofu þrjár rannsóknarstöðvar sem gefa börnum tækifæri til að setja sig í spor fornleifafræðinga. Rétt er að minna á orð Eysteins Jónssonar alþingsmanns frá 1944 þar sem hann segir byggingu húss handa Þjóðminjasafninu „hæfilega morgungjöf af Alþingis hálfu til Lýðveldisins“.

Þá munu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra jafnframt hleypa af stokkunum átaksverkefni til fimm ára um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofu í Reykholti.

Landssamband bakarameistara í samstarfi við forsætisráðuneytið hefur hannað 75 metra langa Lýðveldisköku sem boðið verður upp á í miðbæ Reykjavíkur. Félagar í Landssambandi bakarameistara sem reka bakarí utan höfuðborgarsvæðisins munu einnig bjóða upp á kökuna í samvinnu við sveitarfélög á hverjum stað: Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Reykjanesbæ.

Hækkun á atvinnuleysisbótum

Atvinnuleysisbætur hækkuðu 1. maí síðastliðinn um tæp 19%. Hækkunin er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í þágu félagslegs stöðugleika frá 27. febrúar sl. sem gerð var í tengslum við mat á kjarasamningnum á almennum vinnumarkaði.

Hækkun atvinnuleysisbóta tók gildi með reglugerð sem félags- og jafnréttismálaráðherra staðfesti 23. apríl síðastliðinn og tók gildi 1. maí. Samkvæmt henni hækkaði hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr 358.516 kr. á mánuði í 425.647 kr., miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu. Jafnframt hækkuðu óskertar grunnatvinnuleysisbætur úr 227.417 kr. á mánuði í 270.000 kr. á mánuði. Hækkunin nemur 18,7%.

Embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands laust til umsóknar

Velferðarráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Heilbrigðisráðherra skipar í stöðuna frá 1. nóvember 2018 til fimm ára að fenginni tillögu stjórnar Sjúkratrygginga Íslands.

Sjúkratryggingar Íslands annast framkvæmd sjúkratrygginga, semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu.

Forstjóri ber ábyrgð á því að Sjúkratryggingar Íslands starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

 • Menntunar- og hæfniskröfur:
 • Framhaldsmenntun á háskólastigi sem nýtist í starfi.
 • Farsæl reynsla af stjórnun og áætlanagerð.
 • Haldbær reynsla af fjármálum, uppgjöri og rekstri.
 • Reynsla eða þekking á mannauðsmálum.
 • Reynsla eða þekking á heilbrigðismálum.
 • Skipulag, frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
 • Jákvæðni og hæfni í mannlegum samskiptum.
 • Leiðtogahæfileikar.
 • Skýr sýn um þróun heilbrigðisþjónustunnar og á hlutverki Sjúkratrygginga Íslands innan hennar.

Um kjör forstjóra fer samkvæmt ákvörðun kjararáðs þar til ný ákvörðun hefur verið tekin um laun og starfskjör skv. 39. gr. a. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum.

Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Vilborg Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri, vilborg.ingolfsdottir@vel.is.Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil, ásamt rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í embættið, skulu berast velferðarráðuneytinu, Skógarhlíð 6, 105 Reykjavík eða á netfangið: postur@vel.is eigi síðar en 10. júní nk.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið hefur verið tekin.

Tíundu hverri íslenskri langri leikinni kvikmynd leikstýrt af konu

Frá árinu 1949 til ársloka 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd hér á landi. Karlar hafa leikstýrt langflestum myndanna eða níu af hverjum tíu. Flestar myndanna flokkast sem drama- og gamanmyndir. Um ein af hverjum tíu kvikmyndum eru barna- og fjölskyldumyndir.

Fyrsta íslenska leikna kvikmyndin í fullri lengd var frumsýnd árið 1949. Það var kvikmyndin Milli fjalls og fjöru í leikstjórn Lofts Guðmundssonar. Næsta áratuginn voru frumsýndar fimm leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd. Eftir það dró úr framleiðslu langra leikinna mynda hér á landi. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru aðeins frumsýndar tvær innlendar myndir í fullri lengd, ein á hvorum áratug. Frá árinu 1980 að telja hefur árvisst verið frumsýnd innlend leikin kvikmynd í fullri lengd, tíðast fleiri en ein eða tvær hvert ár. Flestar voru myndirnar árið 2011, en þá voru frumsýndar myndir tíu talsins. Frá 1949 til loka árs 2017 hefur 191 íslensk leikin kvikmynd í fullri lengd verið frumsýnd, eða fast að þrjár myndir að jafnaði á ári.

Heimild: hagstofa.is

 

Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullrannsökuð

Starfshópur um framtíð Reykjavíkurflugvallar skilaði Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, nýverið áfangaskýrslu sinni. Jón Gunnarsson, fyrrverandi ráðherra, skipaði hópinn í september síðastliðnum.

Tillögur starfshópsins eru að flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð svo fljótt sem verða má með nauðsynlegum rannsóknum er varða flug á svæðinu áður en ákvörðun yrði tekin um að byggja nýjan flugvöll þar. Einnig yrðu tryggðar greiðar samgöngur milli borgarinnar og hins mögulega nýja flugvallar. Þá leggur hópurinn áherslu á að tryggja verði rekstraröryggi flugvallarins í Vatnsmýri og að brautir verði ekki styttar eða þeim lokað fyrr en nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar og bent er á að hraðað verði sem kostur er ákvarðanatöku vegna málsins.

Hópnum var falið það hlutverk að leiða viðræður samgönguyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að finna viðunandi lausn á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skyldi hópurinn leita lausna sem geti sætt ólík sjónarmið um hlutverk flugvallarins í dag og til framtíðar. Hópnum var falið að taka mið af eftirfarandi skilyrðum í viðræðum sínum:

 • Flugvellir á suðvesturhorni landsins uppfylli skilyrði um að allir landsmenn komist til og frá höfuðborgarsvæðinu innan 3,5 klst. ferðatíma. Þjónustan verði sambærileg við núverandi flugvöll í getu og afköstum.
 • Af öryggissjónarmiðum þurfi tvo flugvelli á suðvesturhorni landsins sem þjónað geti millilandaflugi með góðu móti.
 • Stjórnvöld geti ekki skuldbundið sig við dagsetningar til þess að opna nýjan flugvöll fyrr en staðsetning og hönnun liggur fyrir og að öll skilyrði um þjónustu flugvallarins og fjármögnun af fjárlögum eru uppfyllt.
 • Flugvellir á suðvesturhluta landsins uppfylli öryggishlutverk gagnvart íbúum landsins, þar með talið almannavarnahlutverk. Jafnframt sé mikilvægt að góð aðstaða fyrir kennslu- og þjálfunarflug sé á slíkum flugvelli.

Auk þessa skyldi starfshópurinn hafa til hliðsjónar skýrslu Þorgeirs Pálssonar um öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar, samkomulag Reykjavíkurborgar og ríkisins bæði í apríl og október 2013, taka tillit til markmiða samgönguáætlunar og niðurstöðu svokallaðrar  Rögnunefndar frá júní 2015 um flugvallakosti á höfuðborgarsvæðinu.

Starfshópurinn hefur haldið sjö fundi og segir í skýrslunni að í gögnum komi fram að horft sé til Hvassahrauns sem líklegasta kosts fyrir nýjan flugvöll á höfuðborgarsvæðinu verði flugvöllur í Vatnsmýri aflagður. Hafi því verið ákveðið að skoða þann kost og ræða fyrst við aðila sem gerst þekkja aðstæður þar. Þá fór hópurinn yfir aðalskipulag Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030.

Í hópnum sátu Hreinn Loftsson, lögmaður, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir ráðgjafi, Linda Gunnarsdóttir flugstjóri, Róbert Guðfinnsson athafnamaður og Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

Úthlutun styrkja á sviði menningar-, íþrótta- og æskulýðsmála 2018

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur úthlutað styrkjum af safnliðum fyrir árið 2018 til verkefna er stuðla að faglegri uppbyggingu á sviði menningarmála. Í auglýsingu ráðuneytisins 29. september 2017 var tekið fram að úthlutað yrði styrkjum á sviði lista og menningararfs annars vegar og til mannvirkja á sviði íþrótta- og æskulýðsmála hinsvegar. 

Á sviði lista og menningararfs eru veittir rekstrar- og verkefnastyrkir til félaga, samtaka og einstaklinga sem starfa á sviði lista og að verndun menningarminja og hafa ekki aðgang að uppbyggingarsjóðum landshluta eða öðrum sjóðum  lista og menningararfs.

Á sviði íþrótta- og æskulýðsmála eru veittir stofnstyrkir til að styðja við uppbyggingu, endurnýjun og viðhaldíþróttamannvirkja og mannvirkja fyrir æskulýðsstarfsemi í samstarfi við sveitarfélög og fleiri aðila.

 

Mat á umsóknum byggði einkum á eftirtöldum sjónarmiðum: 

 1. a)   gildi og mikilvægi verkefnis fyrir stefnu viðkomandi málaflokks,
 2. b)   gildi og mikilvægi verkefnisins fyrir kynningu og markaðssetningu viðkomandi málaflokks,
 3. c)   að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
 4. d)   starfsferli og faglegum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda,
 5. e)   fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verkefnis.

 

Alls bárust 97  umsóknir þar sem sótt var um styrki alls að fjárhæð 429.437.312 kr.  Alls eru veittir 37 styrkir að þessu sinni, samtals að fjárhæð 56.300.000 kr.

Eftirfarandi  umsækjendur og verkefni hlutu styrki fyrir árið 2018:

Styrkir til lista og menningararfs

Verkefnastyrkir           

Umsækjandi

Verkefni

Úthlutað

ASSITEJ Ísland

UNGI – alþjóðleg sviðslistahátíð fyrir ungt fólk

800.000

Barnabókasetur Íslands

Siljan, myndbandasamkeppni fyrir ungt fólk

500.000

Cycle Music and Art Festival

Listahátíðin Cycle, Heimur heima

1.000.000

Danshópurinn Sporið

Miðlun íslenskra þjóðdansa sem menningarhefðar

300.000

Félag norrænna forvarða -Ísland

Alþjóðleg ráðstefna á Íslandi

500.000

Félag um listasafn Samúels

Endurbætur á húsi Samúels

500.000

Fífilbrekka ehf

Ljósmyndaverkefni um hús Samvinnuhreyfingarinnar

1.000.000

Harpa ohf

Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna

500.000

Íslandsdeild ICOMOS

Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi

500.000

Íslenskir eldsmiðir

Fræðsla um eldsmíði – námskeið og sýningar

500.000

Íslensk tónverkamiðstöð

Skylduskil til Landsbókasafns Íslands

2.000.000

KrakkaRÚV

Gagnvirkt vefsjónvarp fyrir ungmenni með áherslu á vandað málfar og góða íslensku

1.500.000

Leikminjasafn Íslands

Frágangur og skráning leikmuna

3.700.000

Mýrin – félag um barnabókmenntahátíð

Úti í Mýri – alþjóðleg barnabókmenntahátíð

1.000.000

Nína Margrét Grímsdóttir

Reykjavík Classics, tónleikaröð í Hörpu

1.200.000

Norræna húsið í Reykjavík

Menningarveisla í Vatnsmýrinni í tilefni af 50 ára afmæli hússins 2018

800.000

SÍUNG

SÖGUR – verðlaunahátíð barnanna

500.000

Sviðslistasamband Íslands

Markaðs og kynningarmál

500.000

Tónskáldafélag Íslands

Myrkir músíkdagar

2.000.000

Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða

Faglegir fundir, fræðsla og alþjóðlegt samstarf

1.200.000

Valdimar Össurarson

Orðasjóður Kollsvíkinga

500.000

 

Rekstrarstyrkir

Bandalag sjálfstæðra leikhúsa

3.500.000

Bókmenntahátíð í Reykjavík

3.000.000

Félag íslenskra safna og safnmanna

1.500.000

Reykjavík Dance Festival

3.500.000

 

Stofnstyrkir til íþrótta- og æskulýðsmála

Akstursíþróttafélag Hafnarfjarðar

Úrbætur á öryggissvæði keppnisbrautar

800.000

Golfklúbbur Vestmannaeyja

Framkvæmdir á mótssvæði fyrir Íslandsmót í höggleik 2018

2.000.000

Landssamband hestamannafélaga

Uppbygging keppnisvalla í Víðidal fyrir Landsmót hestamanna 2018

6.000.000

Skáksamband Íslands

Viðgerð á þaki vegna leka í húsakynnum sambandsins

1.000.000

Skátafélagið Garðbúar

Viðgerðir og endurbætur á húsakynnum skátaheimilisins

350.000

Skátafélagið Heiðabúar

Viðgerðir og endurbætur á húsakynnum skátaheimilisins

350.000

Skátafélagið Mosverjar

Viðgerðir og endurbætur á húsakynnum skátaheimilisins

350.000

Skátafélagið Strókur

Viðgerðir og endurbætur á húsakynnum skátaheimilisins

350.000

Skógarmenn KFUM – Vatnaskógi

Vatnaskógur – ljúka við nýtt hús og bætt aðgengi

1.000.000

Sveitarfélagið Skagafjörður

Uppbygging mannvirkja fyrir Landsmót UMFÍ og Landsmót UMFÍ 50+ 2018

6.000.000

Sveitarfélagið Ölfus

Unglingalandsmót UMFÍ 2018

5.000.000

Vegahúsið ungmennahús

Viðhald Vegahússins ungmennahúss

600.000

                                              

Foreldrar langveikra og alvarlega fatlaðra barna fá desemberuppbót

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem kveður á um að foreldrar barna sem eru langveik eða alvarlega fötluð fái greidda desemberuppbót, að hámarki 53.123 kr. Þetta er nýmæli en uppbótin er sambærileg þeirri sem greidd er lífeyrisþegum og atvinnuleitendum.

Samkvæmt reglugerðinni á foreldri langveiks eða alvarlega fatlaðs barns sem hlotið hefur greiðslur í desember 2017 samkvæmt lögum þar að lútandi nr. 22/2006 rétt á desemberuppbót. Uppbótin er hlutfallsleg þannig að foreldri sem fengið hefur mánaðarlega greiðslu samkvæmt lögunum alla tólf mánuði ársins fær fulla desemberuppbót, þ.e. 53.123 kr.

Foreldri sem hefur fengið greiðslur skemur en tólf mánuði á árinu 2017 á rétt á hlutfallslegri desemberuppbót í samræmi við þann tíma sem foreldrið hefur fengið greiðslur á árinu samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu desemberuppbótar samkvæmt reglugerðinni og verður hún greidd út eigi síðar en 18. janúar næstkomandi.

Helstu skattbreytingar 2018

Ýmsar breytingar verða á skattkerfinu 1. janúar 2018 þótt þær séu færri nú en oft áður um áramót. Hér á eftir verður fjallað um helstu efnisatriði breytinganna, bæði þeirra sem snerta heimili og fyrirtæki.

Tekjuskattur einstaklinga og útsvar

Breytingar verða á tekjuskatti einstaklinga í ársbyrjun 2018 vegna verðlagsuppfærslu persónuafsláttar og þrepamarka. Persónuafslátturinn hækkar um 1,9% og þrepamörkin um 7,1%. Skattþrepin verða áfram tvö og skatthlutföllin óbreytt. Miðað við fyrirliggjandi ákvarðanir sveitarstjórna munu aðeins tvö sveitarfélög breyta útsvari sínu um áramótin og verður meðalútsvar í staðgreiðslu óbreytt, 14,44% . (1) Skattleysismörkin í staðgreiðslu hækka því um 1,9% og verða tæplega 152 þús.kr. á mánuði, þegar tekið er tillit til frádráttar 4% iðgjalds í lífeyrissjóð. Þrepamörkin, þar sem hærra skattþrepið tekur við, hækka úr 834.707 kr. í 893.713 kr. á mánuði.

Tilfærsla milli tekjuskattsþrepa í þeim tilvikum þegar annað hjóna eða samskattaðra aðila hefur tekjur í efra skattþrepi en hitt ekki getur að hámarki numið 446.857 kr. á mánuði í stað 417.354 kr. árið 2017. Tekið er tillit til samsköttunar við álagningu opinberra gjalda og mun framangreind fjárhæð gilda við álagningu tekjuskatts á árinu 2019.

Meðfylgjandi tafla sýnir skatthlutföll tekjuskatts og útsvars, persónuafslátt, skattleysismörk og þrepamörk árin 2017 og 2018.

Nánari upplýsingar um breytingar á tekjuskatti, útsvari, persónuafslætti og skattleysismörkum við áramótin eru í frétt ráðuneytisins frá 22. desember sl. og í auglýsingu á vef Stjórnartíðinda frá 27. desember sl.

Barnabætur og vaxtabætur

Fjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% milli áranna 2017 og 2018 og tekjuskerðingarmörk um 7,4% milli ára. Fjárhæðir og skerðingarmörk vaxtabóta haldast óbreytt milli ára. Sé tekið dæmi af barnabótum þá munu tekjuskerðingarmörkin hækka úr 225 þús.kr. á mánuði í um 242 þús.kr. hjá einstæðum foreldrum og úr 450 þús.kr. á mánuði í um 483 þús kr. hjá hjónum og sambýlisfólki, auk 8,5% hækkunar á bótafjárhæðunum eins og áður segir. Einstætt foreldri með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 242 þús.kr. á mánuði hefði án framangreindra breytinga fengið 66.434 kr. á mánuði í barnabætur á árinu 2018 en fær eftir breytinguna 73.892 kr., á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.458 kr. Hjá hjónum með 2 börn, annað yngra en sjö ára, með 483 þús.kr. á mánuði fer fjárhæð barnabóta úr 44.517 kr. á mánuði í 51.875 kr. á mánuði, sem er mánaðarleg hækkun um 7.358 kr. Rétt er að taka fram að barnabætur eru skattfrjálsar.

Fjármagnstekjuskattur

Skatthlutfall fjármagnstekjuskatts hækkar úr 20% í 22% um áramótin. Skatthlutfallið 22% gildir því við staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af vaxtatekjum og arði frá og með 1. janúar 2018 og við álagningu fjármagnstekjuskatts sumarið 2019 á þær fjármagnstekjur ársins 2018 sem ekki eru staðgreiðsluskyldar. Frítekjumark vaxtatekna einstaklinga hækkar jafnframt úr 125 þús.kr. í 150 þús.kr. sem þýðir að langflestir greiðendur fjármagnstekjuskatts munu ekki greiða hærri skatt þrátt fyrir hækkun skatthlutfallsins. Hér eftir sem hingað til er þó ekki tekið tillit til frítekjumarksins í staðgreiðslukerfinu heldur eftir á, við álagninguna. Hækkun frítekjumarksins er hins vegar afturvirk og mun gilda þegar álagning á vaxtatekjur ársins 2017 fer fram sumarið 2018. Skatthlutfall aðila með takmarkaða skattskyldu og tiltekinna lögaðila, eins og sameignar- og samlagsfélaga, sem tekur mið af bæði tekjuskatti lögaðila og fjármagnstekjuskatti einstaklinga, hækkar tilsvarandi úr 36% í 37,6% 1. janúar 2018.

Krónutölugjöld

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi, tóbak o.fl. hækka almennt um 2% um áramótin. Hið sama gildir um „nefskattana“ tvo, þ.e. útvarpsgjald og gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Hækkunin miðast við að gjöldin haldi verðgildi sínu miðað við almennt verðlag. Kolefnisgjald hækkar þó meira eða um 50% í samræmi við þá stefnu að hvetja til orkuskipta í samgöngum. Krónutölugjöld eru sýnd í meðfylgjandi töflu.

Niðurfelling virðisaukaskatts á rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbifreiðar

Frá árinu 2012 hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt eða telja til undanþeginnar veltu fjárhæð að ákveðnu hámarki við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða. Heimildin átti að renna sitt skeið um næstu áramót en verður nú framlengd þangað til bílum hefur fjölgað í 10.000 í hverjum þessara þriggja flokka fyrir sig, en þó ekki lengur en til ársloka 2020.

Vörugjöld á bifreiðar ökutækjaleiga

Ökutækjaleigur (bílaleigur) hafa um árabil notið skattastyrks í formi afsláttar af vörugjaldi sem lagt er á við innflutning bifreiða. Fast hámark sem sett er á afsláttinn á hverja bifreið lækkar úr 500 þús.kr. í 250 þús.kr. 1. janúar 2018. Þessi ívilnun fellur úr gildi í árslok 2018.

Heimild: stjornarradid.is

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir þetta fyrsta skrefið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Fyrir dyrum standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið með þetta að markmiði, líkt og fjallað sé um í stjórnarsáttmálanum: „Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins“ segir Ásmundur Einar.

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.

 • Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
 • Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
 • Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:

 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
 • Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar efldur

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita um 16,5 m. kr. framlag af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu í aukið stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar sem var stofnaður árið 2013.

Gunnar Gunnarsson skáld og eiginkona hans Franzisca gáfu íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu, ásamt húsakosti með gjafabréfi árið 1948 með þeim skilmálum að jarðeignin skyldi vera ævarandi eign íslenska ríkisins og skyldi hún hagnýtt þannig að til menningarauka horfði. Auk þess hafa erfingjar skáldsins framselt handhöfn höfundarréttar af verkum Gunnars til Gunnarsstofnunar sem fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ríkisstjórnin ákvað, með vísan til hinnar einstöku gjafar Gunnars Gunnarssonar og ættingja hans, að auka stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar um u.þ.b. 16,5 m. kr.

Aðgerðir stjórnvalda vegna erfiðleika í sauðfjárrækt

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega fjallað um að bregðast beri við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Alþingi hefur samþykkt tillögur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að í fjáraukalögum 2017 verði varið 665 milljónum króna til að koma til móts við sauðfjárbændur.

Í fyrsta lagi munu bændur eiga kost á greiðslum sem miðist við fjölda kinda á vetrarfóðrum samkvæmt haustskráningu Matvælastofnunar. Skilyrði fyrir þessum greiðslum verði m.a. að viðkomandi bóndi búi á lögbýli og hafi fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur. Til þessa verkefnis verði varið 400 m.kr.

Í öðru lagi er 150 m.kr. aukalega varið í svæðisbundinn stuðning við bændur sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan bús vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Þessi fjárhæð kemur til viðbótar þeim 150 m.kr. sem varið er til þessara mála samkvæmt gildandi búvörusamningi.

Þá verði ráðist í úttekt á afurðastöðvakerfinu sem verði grundvöllur viðræðna stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar til hagsbóta fyrir neytendur og bændur. Til þessa verkefnis verður varið allt að 65 m.kr.

Verkefni er lúta að kolefnisjöfnun eru styrkt sérstaklega enda er mikilvægt að nýta krafta bænda til að vinna að markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Þá er lögð áhersla á að efla nýsköpun og vöruþróun til að mæta kröfum ólíkra markaða og að styrkja útflutning. Til að undirbyggja framangreind verkefni og tengja þau við  endurskoðun búvörusamninga verði heimilt að verja þeim 50 m. kr. sem eftir standa.

Þá verði málefni ungra sauðfjárbænda tekin til sérstakrar skoðunar af Byggðastofnun í ljósi umræðu um skuldavanda þeirra og kostir eins og endurfjármögnun og/eða lenging lána kannaðir sérstaklega.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Við erum að bregðast við fordæmalausum vanda sem felst í því að afurðaverð til bænda hefur fallið um þriðjung vegna utanaðkomandi aðstæðna. Ég vona að um málið geti myndast pólitísk sátt enda erum við að styrkja tekjugrundvöll greinarinnar og jafnframt að styðja þá bændur sem byggja tekjur sínar nær alfarið á búrekstrinum. Þetta á ekki hvað síst við um bændur sem búa hvað lengst frá þéttbýli.

Oddný Steina Valsdóttir formaður Landssambands sauðfjárbænda: „Landssamtök sauðfjárbænda fagna því að komnar eru fram aðgerðir gagnvart greininni. Það er mikilvægt að brugðist sé strax við þeim rekstrarvanda sem bændur standa frammi fyrir. Þá telja samtökin einnig jákvætt að farið verði í úttekt á afurðageiranum enda greining sem er nauðsynlegur liður fyrir framtíðarlausnir. Í framhaldinu er nauðsynlegt að fara í frekari vinnu til framtíðarlausna. Það er mikilvægt að fyrir liggi ákveðið ferli og ekki þurfi að treysta á sértækar aðgerðir þegar fall verður á mörkuðum vegna utanaðkomandi aðstæðna.“

Heimild: stjornarradid.is

Fjárlög samþykkt á Alþingi

Fjárlög fyrir árið 2018 voru samþykkt á Alþingi 30. desember 2017.  Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi koma fram áherslur nýrrar ríkisstjórnar á ýmis lykilverkefni sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum.  Þar má einkum nefna fjármögnun heilbrigðiskerfisins, eflingu menntakerfisins og máltækniverkefni, útgjöld til samgöngumála og úrbætur í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis.

Fjárlög voru samþykkt með tæpum 33 ma.kr. afgangi, eða um 1,2% af landsframleiðslu. 55,3 ma.kr. aukin fjárframlög voru samþykkt ef miðað er við fjárlög fyrra árs, en um er að ræða 19 ma.kr. aukningu frá því fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Fjárlögin endurspegla sterka stöðu efnahagsmála með áformum um skuldalækkun ríkissjóðs á sama tíma og brugðist er við ákalli um auknar fjárveitingar í mikilvæga samfélagslega innviði.

Með samþykkt fjárlaga eru stigin fyrstu skrefin í langtímastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er megináhersla á að varðveita efnahagslegan stöðugleika, styrkja innviði s.s. samgöngur og heilbrigðiskerfið, renna stoðum undir samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og auka stuðning við menntun og nýsköpun.

Skýr langtímasýn í öllum málaflokkum ríkisstjórnarinnar mun síðan birtast í fjármálaáætlun sem lögð verður fram í vor.

Heildaraukning til heilbrigðismála frá síðustu fjárlögum er 22 ma.kr. sem skiptist m.a. þannig að til heilsugæslunnar rennur 2,3 ma.kr., í sjúkrahúsþjónustu 8,8 ma.kr., í lyf: 5,4 ma.kr. og í tannlækningar: 500 m.kr.

Aukning frá síðasta fjárlagafrumvarpi í heilbrigðismálum eru 8 ma.kr. og skiptist þannig að til sjúkrahúsþjónustu er veitt 3 ma.kr., í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa (þ.m.t. heilsugæsla) 1,3 ma.kr., í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu 360 m.kr., í lyf og lækningavörur 3 ma.kr. og í lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála fara 270 m.kr.

Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka um 8,5% og tekjuviðmiðunarmörk um 7,4%. Þannig munu greiðslur til einstæðs tveggja barna foreldris á lágmarkslaunum hækka um rúmlega 12% á ári. Frítekjumark fyrir aldraða verður þegar hækkað úr 25 þúsund kr. í 100 þúsund kr. um áramótin.

Aukning í menntamálum frá síðustu fjárlögum nemur 4,1 ma.kr. Af þeim fer 2,9 ma.kr. til háskólastigsins og 1,0 ma.kr. til framhaldsskólastigsins.

Til úrbóta í málefnum brotaþola kynferðisofbeldis renna samtals 376 m.kr. til nokkurra málefnasviða, m.a. innan löggæslu, heilbrigðiskerfisins og réttarkerfisins.

Í eflingu Alþingis er veitt 22,5 m.kr. framlag til þess að styrkja löggjafar, fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk þingsins. Aukið framlag til þingflokka nemur 20 m.kr.

Varðandi eflingu löggæslu er tímabundið 400 m.kr. framlag, sem samþykkt var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs, gert varanlegt. Þá er veitt 298 m.kr. framlag til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlagið skiptist í 178 m.kr. framlag til að styrkja innviði lögreglu á sviði rannsóknar kynferðisbrotamála og í öllum þáttum málsmeðferðar, 80 m.kr. framlag til uppbyggingar upplýsingatæknikerfis fyrir réttarvörslukerfið og 40 m.kr. tímabundið framlag til uppfærslu rannsóknarhugbúnaðar, upplýsinga og gæðastaðla lögreglu.

Framlag til héraðssaksóknara er aukið um 38 m.kr. sem ein fjölmargra aðgerða til innleiðingar aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota. Framlaginu er ætlað að styrkja innviði embættisins til að bæta ákærumeðferð kynferðisbrota í samræmi við áherslur sem fram koma í aðgerðaáætluninni.

Framlag til aðalskrifstofu dómsmálaráðuneytisins er aukið um 20 m.kr. til að styrkja framkvæmd aðgerðaáætlunar um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og vinnu við fullgildingu Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í samgöngumálum leggur ríkisstjórnin áherslu á að hraða uppbyggingu í vegamálum þannig að á árinu 2018 verði 2,3 ma.kr. varið til viðbótar í framkvæmdir á vegum, þ.e. umfram það sem gert var ráð fyrir í frumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar. Um er að ræða níu framkvæmdir sem snúa fyrst og fremst að umferðaröryggismálum en einnig aðgerðum til að greiða úr umferð og minnka tafir. Framlag til hafnaframkvæmda (hafnabótasjóðs) hækkar um 500 m.kr. frá gildandi fjárlögum.

Fjárheimild á sviði sjávarútvegsmála hækkar um 90 m.kr. vegna framlags til vöktunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum.

Aukið fjárframlag til umhverfismála, frá frumvarpinu sem lagt var fram í september sl., nemur 334 milljónum kr. Til náttúruverndar verður varið 296 m.kr. 260 m.kr. verður veitt í landsáætlun um uppbyggingu innviða og 36 m.kr. til friðlýsinga. Einnig var 150 m.kr. tímabundið framlag til þjóðgarðsmiðstöðar á Hellissandi framlengt. Framkvæmdakostnaður er áætlaður 380 m.kr. og ófjármagnað af því eru um 180 m.kr.

Til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fara 18 m.kr. og 20 m.kr. í stofnun nýs loftslagsráðs.

Til mennta- og menningarmála verða veittar 290 m.kr. vegna sýningarhalds Náttúruminjasafns Íslands. Þá verða 250 m.kr. veittar vegna efniskostnaðar framhaldsskóla og 450 m.kr. til máltækniverkefnis til þess að stuðla að því að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi.

Fiskveiðisamningur Íslands og Færeyja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að fella úr gildi allar heimildir færeyskra fiskiskipa til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu á árinu 2018. Í því fellst að þær reglugerðir sem gilda um heimildir færeyskra fiskiskipa til veiða innan íslenskrar lögsögu eru felldar úr gildi frá og með 1. janúar 2018.

Á árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landanna sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 12.–13. desember 2017 náðist ekki samkomulag m.a. um veiðiheimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu og um gagnkvæman aðgang að lögsögum ríkjanna vegna veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld árið 2018. Á fundinum bauð Ísland fram óbreyttan samning en Færeyjar kröfðust aukinna heimilda til veiða á botnfiski í íslenskri lögsögu ásamt afléttingu takmarkana á manneldisvinnslu á loðnu. Áform ráðherra voru kynnt færeyskum stjórnvöldum fyrir jól eftir að Færeyjar höfðu tilkynnt að íslensk  fiskiskip fengju ekki aðgang til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu nema að kröfum þeirra yrði gengið. Ákvörðun ráðherra nú hefur sömuleiðis verið kynnt færeyskum stjórnvöldum.

Heimild: stjornarradid.is

Nýr samningur um þjónustu Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar

Þjónusta Hugarafls á sviði starfsendurhæfingar, einkum fyrir ungt fólk með geðraskanir, verður aukin til muna með nýjum þjónustusamingi milli samtakanna og Vinnumálastofnunar sem undirritaður var í vikunni.

Gerð samningsins er niðurstaða samstarfs sem efnt var til milli velferðarráðuneytisins og Hugarafls í ágúst síðastliðnum með það að markmiði að styðja við starfsemi samtakanna á þann hátt sem best myndi nýtast fólki með geðræn vandamál.

Markmiðið með samningnum er að veita þeim sem Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins, heilbrigðisstofnanir eða aðrir viðurkenndir aðilar svo sem félagsþjónusta sveitarfélaga vísa til Hugarafls, aðstoð með sértækum endurhæfingaraðgerðum og gefa þeim þannig færi á að komast aftur út á vinnumarkaðinn eða skipta um starfsvettvang til dæmis að undangengnu frekara námi.

Þjónustan stendur einnig til boða þeim sem hafa takmörkuð atvinnutækifæri eða standa höllum fæti á vinnumarkaði vegna skorts á grunnmenntun eða annarri hæfni og koma af sjálfsdáðun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafréttismálaráðherra, var viðstaddur undirritun samningsins í dag og lýsti ánægju með þá niðurstöðu sem í honum felst. „Með samningnum er traustum stoðum skotið undir hið mikilvæga starf Hugarafls í þágu ungs fólks með geðraskanir. Okkar markmið er að hjálpa sem flestum til aukinnar virkni í samfélaginu og Hugarafl tekur opnum örmum á móti viðkvæmum hópi á erfiðum tímum í lífum þeirra. Þá er sérstaklega gott að sjá hversu hratt og ötullega starfsfólk í ráðuneytinu og undirstofnunum hefur unnið að þessu máli sem nú fær farsælan endi.“ Ráðherra tilkynnti einnig við þetta tækifæri að hann hefði ákveðið að veita eina milljón króna af ráðstöfunarfé sínu til að styrkja starfsemi Hugarafls.

Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, tók í sama streng og ráðherra: „Við í Hugarafli erum gríðarlega ánægð með stuðning velferðarráðuneytisins við að tryggja áframhaldandi öflugt starf Hugarafls. Einnig erum við ánægð með að í fyrsta skipti er opnu úrræði veittur stuðningur sem og fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði hjá öðrum endurhæfingarúrræðum. Sérstaklega erum við glöð að sjá áhersluna á ungt fólk í samningnum. Þá er ég afar ánægð með hröð og góð vinnubrögð ráðherra og hans fólks, þegar neyðarástand myndaðist í starfsemi Hugarafls.“

Samningurinn gildir frá september 2017 til ársloka 2019.

Fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu

Breyting á reglugerð um leigubifreiðar tók gildi við birtingu í Stjórnartíðindum í gær og snýst hún um að fjölga atvinnuleyfum leigubifreiða um 20 á höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi atvinnuleyfa á þessu svæði hefur verið óbreyttur frá 2003.

Endurskoðun hefur staðið yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu á fjölda atvinnuleyfa og hafa borist ábendingar bæði frá leigubifreiðarstjórum og leigubifreiðastöðvum. Frá árinu 2002 hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um liðlega 23% auk þess sem erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á þessum tíma.

Drög að breytingu á reglugerðinni voru kynnt í júlí og var þar gert ráð fyrir 100 leyfa fjölgun, 90 á svæði 1, sem er höfuðborgarsvæðið, og 10 á öðrum svæðum. Nokkrar umsagnir bárust bæði með og á móti svo mikilli fjölgun. Komu fram sjónarmið um að iðulega væri löng bið eftir þjónusu leigubifreiða á höfuðborgarsvæðinu og því væri brýnt að fjölga leyfum en aðrir töldu nægilega marga sinna leiguakstri og að fjölgun ferðamanna hefði ekki fært leigubifreiðastöðvun aukin verkefni svo nokkru næmi. Í kjölfar umsagna áttu sérfræðingar ráðuneytisins fundi með hagsmunaaðilum, m.a. fulltrúa Frama og ráðherra hitti fulltrúa leigbifreiðarstjóra frá öllum stöðvum á svæði 1.

Niðurstaða ráðuneytisins varð sú að ekki væru forsendur til að fjölga atvinnuleyfum um 90 á einu bretti en ákveðið að fjölga leyfum um 20 á höfuðborgarsvæðinu og verða þau því alls 580.

100 ár frá spænsku veikinni á næsta ári

Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að spænska veikin lagði mörg hundruð manns að velli í Reykjavík og nágrenni. Um var að ræða afar skæðan inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn á árunum 1918-1919. Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að sett verði í gang hugmyndavinna um það hvernig minnast skuli tímamótanna og þeirra sem létust í þessum skæða faraldri.

Þess má geta að rithöfundurinn Gerður Kristný kom hugmyndinni á framfæri við borgarstjóra um að minnast þess að öld er liðin frá því að hin mannskæða farsótt geisaði í Reykjavík.

Hefja skal undirbúning að viðburðum, sögulegum merkingum og öðru sambærilegu til að varpa ljósi á og minnast tímamótanna. Leita skal samstarfs við aðra aðila eftir atvikum.

Spænska veikin er mannskæðasti inflúensufaraldur sögunnar og létust um 25 milljónir manna að minnsta kosti í heiminum öllum. Veikin er talin hafa borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt.

Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur og fimm dögum síðar voru tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar rúmfastir. Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 9. nóvember. Borginni var skipt í þrettán hverfi og gengið var í hús. Aðkoman var víða hroðaleg.

Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spænsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykvíkingum, þar sem 258 létust, en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Framangreindar upplýsingar eru sóttar af Vísindavef Háskóla Íslands og úr bókinni Ísland í aldanna rás.

Öll tiltæk lyf sem hjálpað gátu við lungnabólgu og hitasótt, sem voru fylgifiskar veikinnar, kláruðust umsvifalaust. Læknar unnu myrkranna á milli og læknanemar fengu bráðabirgðaskírteini til að sinna smituðum. Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist. Flestar verslanir lokuðust og 6. nóvember hættu blöð að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sorphirða og hreinsun útisalerna féll niður. Erfitt var að anna líkflutningum og koma varð upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum 20. nóvember í Hólavallagarði við Suðurgötu og hvíla sumir enn í ómerktum gröfum.

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar árið 2017

Verkís og Orkuveita Reykjavíkur hljóta Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2017 og ræður vistvænn ferðamáti starfsmanna og fordæmi fyrirtækjanna í vistvænum rekstri þar mestu um val dómnefndar.

Verkís býður starfsfólki góða aðstöðu fyrir hjól, hleðsla er fyrir rafbíla, bílastæðum var fækkaði hjá fyrirtækinu og starfsfólk fær samgöngustyrk. Orkuveitan greiðir samgöngustyrk til sinna starfsmanna og fylgst er með því hvernig fólk kemur til vinnu og hvað hindri það í að velja vistvænar samgöngur. Orkuveitan er með 65 vistvænar bifreiðar sem nýtast starfsfólki.

Auglýst var eftir umsóknum eða tilnefningum frá fyrirtækjum, félagsamtökum, stofnunum og einstaklingum. Dómnefndin byggir val sitt á árangri að aðgerðum sem fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir eða einstaklingar hafa gripið til í þeim tilgangi að t.d. einfalda starfsfólki að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn, draga úr umferð á sínum vegum og/eða stuðla að notkun vistvænna orkugjafa.

Sjö fyrirtæki komu fyrir valnefnd á þessu ári og voru það auk Verkís og Orkuveitunnar, Advania, Alta, Arionbanki, Háskólinn í Reykjavík og Seðlabanki  Íslands.

Deilibílaþjónusta í Reykjavík

Zipcar deilibílaþjónusta var kynnt í Háskólanum í Reykjavík í gær. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri prufukeyrði einn af tveimur Zipcar bílum sem verða staðsettir við háskólann og nýtist hverjum þeim sem eru meðlimir í kerfinu.

Reykjavík er fyrsta borgin á Norðurlöndum þar sem boðið er upp á þjónustu Zipcar.  Deilibílaþjónusta er nýjung í ferðamáta innan höfuðborgarsvæðisins þar sem notendur deila bílum í stað þess að eiga sjálfir bíl, eða til að bæta við akstursþörfina án þess að bæta við bíl númer tvö.

Hug­mynd­in geng­ur út á að not­end­ur geti nálg­ast bíla til að nýta í stutt­ar ferðir og geta meðlim­ir Zipcar bókað bíl eft­ir þörf­um með appi all­an sól­ar­hring­inn. Bíll­inn er bókaður með Zipcar-app­inu og skilað aft­ur á sama stæðið þegar notk­un lýk­ur.

Borgarfulltrúum fjölgar á næsta kjörtímabili

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag að fjöldi borgarfulltrúa frá og með næsta kjörtímabili yrði 23, eða sá lágmarksfjöldi fulltrúa sem mælt er fyrir um í sveitarstjórnarlögum.

Afgreiðslu tillögu um fjölda borgarfulltrúa, sem var frestað á fundi borgarstjórnar í sumar, þar sem ráðherra sveitarstjórnarmála hafði boðað frumvarp sem fól í sér breytingu á lágmarksfjölda borgarfulltrúa úr 23 í 15, sem er núverandi fjöldi borgarfulltrúa.

Málið var tekið á dagskrá borgarstjórnar í dag í ljósi atburða síðustu daga, þar sem ríkisstjórnin hefur beðist lausnar, starfsstjórn er við völd og dagskrá og verkefni Alþingis næstu vikur í uppnámi. Jafnframt kom fram í fréttum í síðustu viku að ekki var full samstaða um málið í þingflokkum þáverandi stjórnarflokka á Alþingi.

Tillagan var samþykkt með 11 atkvæðum gegn 4.

Reykjavíkurborg styrkir björgunarsveitir í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fulltrúar björgunarsveita í Reykjavík hafa undirritað styrktarsamning. Björgunarsveitirnar sem um ræðir eru Björgunarsveitin Ársæll, Björgunarsveitin Kjölur, Flugbjörgunarsveitin í Reykjavík og Hjálparsveit skáta í Reykjavík.

Samningurinn er til þriggja ára og mun Reykjavíkurborg styrkja björgunarsveitirnar um 10 milljónir árlega til að styðja við rekstur á samningstímanum. Samtals nemur styrk fjárhæðin 30 milljónum króna og er hún greidd óskipt til styrkþega og skulu þeir sjá um að skipta styrknum á milli sín skv. sérstöku samkomulagi þar um.

Björgunarsveitirnar hafa sér þjálfaðan mannskap í rústabjörgun, fjallabjörgun, köfun og fyrstu hjálp. Um er að ræða sjálfboðaliða sem eru þaulvanir að takast á við hvern þann vanda sem upp kann að koma

37 sóttu um embætti dómara við Landsrétt

Umsóknarfrestur um embætti dómara við Landsrétt rann út 28. febrúar síðastliðinn og bárust 37 umsóknir um embættin. Landsréttur tekur til starfa 1. janúar 2018 á grundvelli laga um dómstóla nr. 50/2016. Auglýst voru embætti 15 dómara þann 10. febrúar síðastliðinn.

Eftirtaldir sóttu um embætti:

 1. Aðalsteinn E. Jónasson, hæstaréttarlögmaður
 2. Arnfríður Einarsdóttir, héraðsdómari
 3. Ásmundur Helgason, héraðsdómari
 4. Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður
 5. Baldvin Hafsteinsson, hæstaréttarlögmaður
 6. Björn Þorvaldsson, sviðsstjóri ákærusviðs efnahagsbrota hjá embætti héraðssaksóknara
 7. Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari
 8. Bryndís Helgadóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu
 9. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 10. Davor Purusic, lögfræðingur hjá Rauða krossi Íslands
 11. Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 12. Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari
 13. Guðrún Sesselja Arnardóttir, hæstaréttarlögmaður
 14. Helgi Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 15. Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari
 16. Hildur Briem, dómstjóri við Héraðsdóm Austurlands
 17. Höskuldur Þórhallsson, fyrrverandi alþingismaður
 18. Ingveldur Einarsdóttir, settur hæstaréttardómari
 19. Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 20. Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður
 21. Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari
 22. Jón Höskuldsson, héraðsdómari
 23. Jónas Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður
 24. Karl Óttar Pétursson, hæstaréttarlögmaður
 25. Kristbjörg Stephensen, borgarlögmaður
 26. Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar   umhverfis- og auðlindamála
 27. Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands
 28. Ólafur Ólafsson, dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra
 29. Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála
 30. Ragnheiður Bragadóttir, héraðsdómari
 31. Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari
 32. Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómari
 33. Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík
 34. Soffía Jónsdóttir, hæstaréttarlögmaður
 35. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður
 36. Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness
 37. Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík

Varað við snjóhengjum og grýlukertum

Lögreglan beinir þeim tilmælum til fólks á höfuðborgarsvæðinu að huga að grýlukertum og snjóhengjum er lafa fram af húsþökum en af þeim getur stafað mikil hætta. Tilmælunum er ekki síst beint til verslunar- og/eða húseigenda á stöðum þar sem mikið er um gangandi vegfarendur. Þetta á m.a. við um Laugaveg og nærliggjandi götur í miðborginni. Mælst er til þess að fólk kanni með hús sín og grípi til viðeigandi ráðstafana áður en slys hlýst af.

Grænlenskur karlmaður áfram í gæsluvarðhaldi

Grænlenskur karlmaður á þrítugsaldri var í byrjun mars í héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til fjögurra vikna á grundvelli almannahagsmuna í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dauða Birnu Brjánsdóttur. Maðurinn var handtekinn um borð í fiskiskipinu Polar Nanoq 18. janúar og úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald daginn eftir, sem nú hefur verið framlengt þriðja sinni.

Bjarkarhlíð – miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Bjarkarhlíð er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytis, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Samtaka um kvennaathvarf, Stígamóta, Drekaslóðar, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar. Um er að ræða þróunarverkefni til tveggja ára (2017-2019). Starfsemin mun verða rekin á dagvinnutíma frá 9:00 til 17:00 og í húsnæði Reykjavíkurborgar í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg.

Verkefnið er að hluta til byggt á erlendri fyrirmynd þar sem meginmarkmiðið er að brotaþolar fái, á einum stað, þá þjónustu sem á þarf að halda í kjölfar ofbeldis. Starfshópurinn sem stóð að stofnun miðstöðvarinnar og borgarstjóri, ráðherrar og lögreglustjóri fengu öll bjarkarhríslu að gjöf frá Rögnu Björgu Guðbrandsdóttur verkefnastjóra Bjarkarhlíðar í tilefni opnunarinnar. Ragna Björg sagði að stofnun miðstöðvarinnar hefði tekist með góðri samvinnu allra aðila og nú væri hægt að fara að vinna af fullum krafti að því mikilvæga starfi sem miðstöðin á að sinna.

Starfsemin í Bjarkarhlíð, mun felast í samhæfðri þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi s.s. kynferðisofbeldi, ofbeldi í nánum samböndum eða eru brotaþolar í mansalsmálum og/eða vændi. Veitt verður fræðsla og umfjöllun um eðli og afleiðingar ofbeldis, auk námskeiða um birtingamyndir ofbeldis og afleiðingar þess, þess að gefa skýr skilaboð um að ofbeldi verði ekki liðið.

Bjarkarhlíð hóf að kynna starfsemi sína í febrúar sl. fyrir samstarfsaðilum og öðrum stofnunum sem vinna með afleiðingar ofbeldis. Nú þegar hafa 9 mál komið á borð Bjarkarhlíðar og segir verkefnastjórinn Ragna Björg Guðbrandsdóttir að það sýni og sanni að þörf er á slíkri þjónustu. Það sem einkennir helst þau mál sem komið hafa er að ekki er um eitt afmarkað atvik að ræða heldur langvarandi og oft endurtekin saga um ofbeldi.

Framlag samstarfsaðila verður með ýmsum hætti en Reykjavíkurborg leggur til húsnæði, búnað og stendur straum af rekstrarkostnaði hússins. Velferðarráðuneytið ábyrgist ákveðið fjármagn til rekstrarins, 10 m.kr. á árinu 2016 og 20 m.kr. á hvoru ári árin 2017 og 2018. Vinnuframlag og viðvera verður frá Stígamótum, Drekaslóð, Kvennaathvarfi, Kvennaráðgjöf og Mannréttindaskrifstofu Íslands Auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitir upplýsingar um meðferð mála í réttarvörslukerfinu og kemur að mati á öryggi þolenda.

Gert er ráð fyrir að fleiri samstarfsaðilar verði hluti af starfseminni með tímanum.

Breyting á mörkum skólahverfa

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni breytingar á mörkum tveggja skólahverfa í borginni frá og með næsta skólaári 2017-2018.

Skólahverfamörkum Langholtsskóla og Vogaskóla verður breytt þannig að Álfheimar 31 – 35, Glaðheimar, Sólheimar 25, Hlunnavogur og Sigluvogur flytjast úr skólahverfi Langholtsskóla yfir í skólahverfi Vogaskóla. Breytingin mun ekki hafa áhrif á þá nemendur sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Skólahverfamörk Grandaskóla og Melaskóla verða færð þannig að Meistaravellir tilheyri Grandaskóla í stað Melaskóla áður. Breytingin nær ekki til nemenda sem sækja nú þegar þessa tvo skóla.

Í báðum tilvikum eigi foreldrar sem eiga lögheimili í götum sem færast á milli skólahverfa val um í hvorn skólann börn þeirra fara og forgang í báða skólana út skólaárið 2017 – 2018.

Breytingar á skólamörkum voru gerðar að tillögu starfshóps og að undangengnu umsagnarferli hjá skólaráðum og foreldrafélagum,  svo og opnum íbúafundum þar sem þær voru kynntar.

Fyrirtæki í Reykjavík flokka og skila

Reykvískum heimilum hefur verið gert að flokka ákveðna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og skila í endurvinnslu og aðra móttöku. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að fyrirtækjum sé einnig skylt að flokka og skila til endurvinnslu og endurnýtingar eins og heimili gera.

Þetta kemur til framkvæmda frá og með mánudaginum 13. febrúar. Þessar breytingar voru innleiddar í gegnum endurskoðaða Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í desember.

Greiningar SORPU benda til að hlutfall pappírs í blönduðum úrgangi sé meira frá fyrirtækjum en heimilum. En 110 þúsund tonn voru urðuð í Álfsnesi árið 2016. Þarf af voru 60% frá fyrirtækjum eða 66 þúsund tonn.

Þó hefur hlutur pappírs í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang aukist lítið eitt frá því það var lægst árið 2014 eða 8% en er nú 13%. Eftir að íbúum var gert skylt að flokka pappír frá öðrum úrgangi jókst endurvinnsla pappírs stórlega eða úr 32% í gráu tunninni í einungis 8% á skömmum tíma. Vonir standa til að það sama gerist hjá fyrirtækjum.

Mörg fyrirtæki standa sig nú þegar afar vel og eru með umhverfisstefnu og skila nær engu til urðunar og endurvinna nánast allt sem til fellur.

Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið um flokkun og skil til endurvinnslu í aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs og í Aðalskipulagi.  Svo þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt, bæði íbúar og fyrirtæki.

Hagnaður Landsbankans 16,6 milljarðar árið 2016

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna.

Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta.

Þá dragast aðrar rekstrartekjur saman um tæpa 9 milljarða króna sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu.

Samstarfssamningur um viðhald gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins

Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær hafa undirritað samstarfssamning um undirbúning nauðsynlegs átaks í viðhaldi og endurbótum gatnakerfis höfuðborgarsvæðisins.

Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar undirrituðu samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Samstarfið felur meðal annars í sér :

Sameiginlegt mat á ástandi, viðhaldsþörf og endurbótaþörf
Unnið verði sameiginlegt mat á þörf við viðgerðir, viðhald og endurbætur á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins, Reykjavíkurborgar og Garðabæjar sérstaklega eftir erfiða vetur og sparnað síðustu ára. Jafnframt verði lagt mat á hlut slits vegna aukningar umferðar, vaxandi ferðaþjónustu (bílaleigubílar og rútur), notkunar nagladekkja, veðurfars og annarra atriða.

Áætlun um viðhald og endurbætur
Lagt verði mat á kostnað við átakið og nauðsynlegar framkvæmdir.
Unnin verði sameiginleg viðhalds- og endurbótaáætlun fyrir vega- og gatnakerfi Reykjavíkurborgar og Garðabæjar  með það að markmiði að tryggja viðundandi þjónustustig.

Fjármögnun
Vegagerðin mun miða við að fjárheimildir til viðhalds á þeim hluta gatnakerfisins, sem hún ber ábyrgð á, verði í samræmi við niðurstöður matsins en endanlegt umfang á hverju ári mun ráðast af heildar fjárveitingum stofnunarinnar til viðhalds vega á hverjum tíma. Reykjavíkurborg og Garðabær munu með sama hætti nýta fjármuni til viðgerða, viðhalds og endurbóta og gera tillögur um nauðsynlegar fjárveitingar  til verkefnisins til næstu ára.

Rannsóknir
Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Garðabær dragi svo saman þær rannsóknir sem fyrir liggja um gatnagerð, malbikslagnir og væntan endingartíma. Sérstaklega verði hugað að umhverfissjónarmiðum og mögulegri endurnýtingu malbiks. Greindar verði ástæður versnandi ástands, skemmda og holumyndunar í gatnakerfinu og gerðar tillögur að frekari rannsóknum þar sem þekkingu skortir.