03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Willum Þór fundaði með heilbrigðisráðherra Grænlands

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra átti í vikunni fund með Kirsten Fencker heilbrigðisráðherra Grænlands í Íslandsheimsókn hennar í vikunni. Helstu áskoranir heilbrigðiskerfanna, samningar milli þjóðanna á sviði heilbrigðismála og möguleikar frekara samstarfs og þekkingarmiðlunar, til dæmis við áframhaldandi uppbyggingu fjarheilbrigðisþjónustu, var meðal þess sem ráðherrarnir ræddu á fundi sínum.

Mönnun heilbrigðiskerfa til framtíðar er sameiginleg, alþjóðleg áskorun sem Ísland og Grænland fara ekki varhluta af. Um þetta ræddu ráðherrarnir meðal annars og um nauðsyn markvissra aðgerða til að mæta þessari áskorun. Heimsfaraldur COVID-19 var einnig umræðuefni ráðherranna með áherslu á hvernig best megi nýta reynslu heilbrigðiskerfisins af faraldrinum til framtíðar varðandi viðbrögð og skipulag þegar vá ber að höndum.

Kirsten Fencker og sendinefnd hennar heimsótti einnig í vikunni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að kynna sér skimanir og bólusetningar vegna Covid-19. Óskar Reykdalsson, forstjóri og Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar kynntu starfsemi Heilsugæslunnar fyrir gestunum og sýndu þeim skimunaraðstöðuna við Suðurlandsbraut, þar sem hraðpróf og PCR-próf hafa verið tekin.

Grænlenski ráðherrann heimsótti einnig Landspítala þar sem Runólfur Pálsson forstjóri spítalans tók á móti Kristen og sendinefndinni. Samningur var gerður milli Landspítala og heilbrigðisráðuneytis Grænlands árið 2016 um þjónustu spítalans við Grænlendinga og var efni þess samnings til umræðu í heimsókninni, árangur samstarfsins og frekari þróun þess.

Fram undan er árlegur samstarfsfundur ráðherra Íslands, Grænlands og Færeyja en þeir fundir hafa fallið niður síðastliðin tvö ár vegna COVID-19. Gert er ráð fyrir fundurinn verði haldinn á Grænlandi í vor.