30/11/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Vinna hafin við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum

Ríkisstjórnin samþykkti hefur samþykkt framhald vinnu við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Skýrsla sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar. Síðan þá hefur verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála haft tillögur meirihluta og minnihluta nefndarinnar til skoðunar. Í nýútkominni skýrslu verkefnastjórnar er lagt til að lán  húsnæðislánafélaga verði til framtíðar óverðtryggð, enda hafi nauðsynlegar kerfisbreytingar og mótvægisaðgerðir gert það kleift.

Í framhaldi af vinnu verkefnisstjórnarinnar verður nú hafist handa við að innleiða tillögur meirihluta sérfræðihópsins frá janúar sl. með hliðsjón af tillögum minnihluta sérfræðihópsins. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016 þegar reynsla yrði komin á þær breytingar sem hópurinn lagði til að gerðar yrðu í ársbyrjun 2015. Breytingarnar eru eftirfarandi:

  1. óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
  2. lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
  3. takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
  4. hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Í áliti minnihlutans er varpað ljósi á mótvægisaðgerðir sem grípa verði til í því skyni að afnema verðtryggingu. Í tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála eru lagðar til ýmsar breytingar sem koma til móts við álit minnihluta sérfræðihópsins og auðvelda afnám verðtryggingar á næstu árum. Í áliti minnihluta sérfræðihópsins er einnig bent á hættuna á ofmati á verðbólgumælingum vegna innbyggðrar skekkju, eða vísitölubjaga. Forsætisráðuneytið mun óska eftir skýrslu frá Hagstofu Íslands um vísitölubjaga og áhrif hans.

Næstu skref í vinnu við afnám verðtryggingar verða eftirfarandi:

  1. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun hafa umsjón með vinnu við að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. 
  2. Velferðarráðuneytið mun hafa umsjón, í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána. 
  3. Forsætisráðuneytið mun skipa starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. d) Ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna mun skipa Verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.