03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Verulegur sparnaður í sameiginlegu útboði ríkisstofnana

Verulegur sparnaður náðist í nýafstöðnu sameiginlegu útboði stofnana ríkisins á tölvum og ljósritunarpappír. Niðurstaða fyrsta sameiginlega útboðsins á tölvum liggur nú fyrir og er veittur afsláttur um 50% miðað við listaverð seljenda og innkaupsverð 27% lægra en besta verð sem ríkinu hefur áður boðist. Ljóst er að sá ávinningur sem náðst hefur er verulegur og heildarsparnaður í tilviki sumra stofnana er enn meiri en framangreindar tölur gefa til kynna þar sem þær njóta nú magnafsláttar vegna sameiginlegra innkaupa en áttu ekki kost á slíkum afslætti áður.

Átta stofnanir tóku þátt í örútboðinu. Þessar stofnanir eru Ríkisskattstjóri, Fjársýsla ríkisins, Tollstjóri, Rekstrarfélag stjórnarráðsins, f.h. ráðuneyta, Seðlabanki Íslands, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Fjölbrautaskólinn við Ármúla og Ríkiskaup.

Sameiginlegt útboð á ljósritunarpappír fyrir 14 stofnanir fór einnig fram fyrir skömmu. Niðurstaða þess útboðs var 55% afsláttur miðað við listaverð seljenda.

Aukin hagkvæmni í opinberum innkaupum hefur verið eitt af forgangsmálum fjármála-  og efnahagsráðuneytisins. Umfang innkaupa ríkisins er um 140 milljarðar króna á ári en þar af kaupir ríkið vörur og þjónustu fyrir um 88 milljarða króna á ári. Með hagkvæmum innkaupum er ætlað að spara megi allt að 2-4 milljarða króna á ári.

Vinnu við að greina og gera tillögur um bætt vinnubrögð í innkaupum ríkisaðila lauk á síðasta ári og í kjölfarið var skipuð verkefnisstjórn sem var falið að koma á sameiginlegum innkaupum ríkisstofnana með það að markmiði að nýta stærðarhagkvæmni ríkisins sem kaupanda. Í framhaldi af því var ákveðið að öll innkaup stofnana ríkisins á tölvum á árinu 2016 verði gerð í sameiginlegum útboðum innan gildandi rammasamnings.

Verkefnisstjórnin um sameiginleg innkaup vinnur áfram að framkvæmd nýrra sameiginlegra útboða fyrir stofnanir ríkisins. Annað sameiginlegt útboð á tölvum fyrir stofnanir ríkisins er á lokastigi og verður auglýst nú í apríl. Þá er einnig unnið að fleiri sambærilegum verkefnum t.d. útboði á raforku, hugbúnaðarleyfum, tölvuskjám og flugmiðum.

Heimild: .fjarmalaraduneyti.is.