13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Útköll Landsbjargar um verslunarmannahelgina

Um verslunarmannahelgina komu nokkur útköll til björgunarsveitanna á landsbyggðinni.

Á föstudag fór Björgunarsveitin Blanda og aðstoðaði erlenda ferðamenn sem höfðu fest bíl sinn í aurbleytu á Stórasandi. Síðar sama dag fór félagar Dagrenningar á Hvolsvelli til aðstoðar ferðamanni sem hafði sett bíl sinn á bólakaf í Markarfljóti. Björgunarsveitarmenn þurftu að nota flotgalla til að komast að bílnum svo djúpt var hann kominn.

Á laugardag voru björgunarsveitir á sunnanverðu Vesturlandi auk nokkura af höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna slys á gönguleiðinni Síldamannagötur. Sú leið liggur á milli Botnsdals í Hvalfirði og Skorradals. Þar hafði unglingsstúlka fallið og slasað sig á fæti svo hún komst ekki áfram. Samferðamenn stúlkunnar óskuðu eftir aðstoð við Neyðarlínu.

Um 1,5 km burð var að ræða en vel gekk að koma stúlkunni niður í Botnsdal þar sem hún fór í sjúkrabíl og var flutt á sjúkrahús til meðhöndlunar.

Á sunnudagskvöldi var Björgunarsveitin Vopni kölluð vegna bílstjóra sem hafði fest bíl sinn í mýri langt utan vegar. Eðli málsins vegna fór lögreglumaður með á staðinn en alls tók verkefni um fimm klukkustundir.

Einnig á sunnudagskvöld fór Björgunarsveitin Björg Eyrarbakka til aðstoðar ökumanni sem fest hafði bíl sinn í sandi rétt við veitingastaðinn Hafið Bláa við Óseyrarbrú. Nokkuð greiðlega gekk að losa bílinn og koma honum á heppilegra undirlag.

Árla mánudagsmorguns voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út vegna gruns um týndan einstakling. Rétt í þann mund er fyrsti hópur var að hefja leit kom viðkomandi fram.

Nokkuð hefur verið um verkefni hjá hópum á hálendisvakt björgunarsveita þessa verslunarmannahelgina. Þannig sinntu hópar slasaðri reiðhjólakonu, aðstoðuðu nokkra ferðalanga sem fest höfðu bíla sína í vatnsföllum eða snjó, sinntu einstaklingi sem slasaði sig á baki og fleira mætti týna til.

Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.