27/03/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Umhverfisvæn eyðing gróðurs

Vegagerðin og Reykjavíkurborg vinna nú í sameiningu að tilraunum með umhverfisvæna gróðureyðingu. Mikilvægt er fyrir veghaldara að geta eytt gróðri sem getur hvorttveggja eyðilagt vegi og hindrað sýn. Í umferðaröryggislegu tilliti er það nauðsynlegt. Sláttur og eyðing með eitri hafa verið aðferðirnar hingað til. En nú er gerðar tilraunir með aðferð frá NCC Roads sem er algerlega umhverfisvæn. Kallast Spuma en hefur verið þýtt af Reykjavík sem Góði eyðirinn.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar hafa sótt námskeið í notkun búnaðarins síðustu daga hjá Stig Nielsen sérfræðingi hjá NCC Roads sem starfar á Norðurlöndum, en fyrirtækið  framleiðir og selur Spuma. Heitið Spuma er komið úr latínu og þýðir froða.
Eyðing gróðursins byggir á hita en unnið er með 95 – 98 gráðu heitt vatn, ekki ósvipað þeirri aðferð að sem margir nota heima í sínum garði þegar þeir sjóða vatn og hella yfir óæskilegar plöntur. Eftir því sem hitinn er meiri og varir lengur nær eyðingarmátturinn neðar í rótina. Til að halda hitanum lengur á plöntunum kemur froðan yfir til einangrunar, en hún er búin til úr afurðum maíss og kókospálma.  Þessi aðferð hefur verið notuð í 10 ár í Danmörku með góðum árangri, efnin eru umhverfisvæn og hafa fengið jákvæða umsögn Umhverfisstofnunar.
Enginn hætta er af froðunni og hún skemmir ekki skó, eða lakk eða hjólbarða eða reiðhjól. Óhætt er meira að segja að bragða á froðunni svo sem menn hafa gert í þessum tilraunum, jafnt þeir sem eru að læra aðferðina sem og forvitnir vegfarendur.
Texti: vegag.is