13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

U-17 stelpurnar gegn Serbíu

Stelpurnar í U17 landslið Íslands í knattspyrnu luku í dag leik í milliriðli EM en hann fór fram í Serbíu að þessu sinni.  Leikið var gegn heimastúlkum í dag sem höfðu öruggan sigur, 5 – 1.  Íslenska liðið hafnaði því í þriðja sæti riðilsins, á eftir Englendingum og Serbum en á undan Belgum.

Heimastúlkur byrjuðu af krafti og komust yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik.  Jafnræði var svo nokkuð í leiknum en tvo mörk Serba á 31. og 39. mínútu gerðu þetta að mjög brattri brekku fyrir okkar stúlkur og þriggja marka munur í leikhléi.

Serbar bættu við tveimur mörkum í seinni hálfleik áður en Agla María Albertsdóttir minnkaði muninn en þar við sat.

Sem fyrr segir þá hafa íslensku stelpurnar lokið keppni að þessu sinni en liðið vann Belga í fyrsta leik en tapaði gegn Englandi og Serbíu.  Þriðja sætið staðreynd en England hefur tryggt sér farseðil í úrslitakeppninni og Serbar eygja ennþá von um að komast með bestan árangur í öðru sæti riðlanna.

Heimild: ksi.is