Velferðarráðuneytið hefur í samvinnu við Reykjavíkurborg sett á laggirnar tilraunaverkefni sem á að styðja við möguleika fatlaðs fólks til að nýta sér almenningssamgöngur. Markmiðið er að virkja fatlað fólk enn frekar til þátttöku í daglegu lífi án aðgreiningar.
Framkvæmd verkefnisins verður þannig háttað að ráðnir verða starfsmenn til að vinna með fötluðu fólki sem nú notar ferðaþjónustu fatlaðra og skoða hvort þeir geti í einhverjum mæli nýtt sér almenningssamgöngur. Ljóst þykir að í einhverjum tilvikum geti almenningssamgöngur nýst fötluðu fólki til reglulegra ferða, t.d. til og frá vinnu, fái það til þess nauðsynlegan stuðning.
Reykjavíkurborg mun vinna samantekt að verkefninu loknu um þann árangur sem náðst hefur. Verkefnið er unnið á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks og hefur Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákveðið að veita til þess 2 milljónir króna.
Aðrar fréttir
Veitir Bjarkarhlíð 15 milljóna króna styrk
Ríkissjóður kaupir alla hluti Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti hf.
Willum Þór fundaði með heilbrigðisráðherra Grænlands