Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði í samræmi við nýja reglugerð þessa efnis.
Reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi tók gildi í apríl síðastliðnum. Markmiðið með setningu reglugerðarinnar var að skýra kröfur og skilyrði fyrir menntun lækna og kröfur sem þarf að uppfylla til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.
Ýmis nýmæli eru í reglugerðinni. Meðal þeirra helstu er að með breytingunni er gerð krafa um að starfsnám sem stundað er hér á landi til að hljóta almennt lækningaleyfi skuli byggjast á sérstökum marklýsingum þar sem nákvæmlega er kveðið á um uppbyggingu, innihald og marga aðra þætti námsins. Með reglugerðinni er á sama hátt gerð krafa um að sérstök marklýsing skuli liggja að baki sérnámi sem fram fer hér á landi og er forsenda fyrir sérfræðileyfi í viðkomandi grein.
Mats- og hæfisnefndin sem skipuð er samkvæmt reglugerðinni hefur það hlutverk að meta og staðfesta marklýsingar fyrir starfsnám til starfsleyfis og samþykkja marklýsingar einstakra sérnámsbrauta fyrir formlegt sérnám. Enn fremur skal nefndin meta hæfi heilbrigðisstofnunar eða deildar heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til lækningaleyfis samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Formaður nefndarinnar er Reynir Tómas Geirsson.
Á grundvelli sömu reglugerðar hefur einnig verið skipuð nefnd sem hefur það hlutverk að skipuleggja námsblokkir fyrir læknakandídata í starfsnámi. Formaður hennar er Inga Sif Ólafsdóttir.
Heimild: velferdarraduneyti.is
Aðrar fréttir
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi
Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna á Íslandi
Frábær aðsókn að nýju grunnnámi í blaðamennsku við Háskóla Íslands