13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Rjúpnaveiði hefst 28. október

Umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir hefur ákveðið að fyrirkomulag rjúpnaveiða í ár verði með sama sniði og verið hefur undanfarin þrjú ár. Munu því veiðidagar rjúpu í ár verða tólf talsins sem skiptast á fjórar helgar á tímabilinu 28. október til 20. nóvember 2016.

Leyfileg heildarveiði á rjúpum er 40.000 rjúpur og miðað við fjölda veiðimanna síðasta ár, gera það 5-6 fugla á hvern veiðimann. Áfram verður sölubann á rjúpum og er Umhverfisstofnun falið að fylgja því eftir. Að óbreyttum forsendum er lagt til að þetta fyrirkomulag haldist a.m.k. næstu þrjú ár.

Rjúpnastofninn er ekki stór um þessar mundir og mælist nokkuð minni í ár en í fyrra. Samkvæmt talningum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru því lagt til að veiddir verði um 20% færri fuglar en árið 2015. Því leggur ráðherra til óbreytt veiðifyrirkomulag í ár.

Stjórnvöld hafa það sem meginstefnu að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra lifandi auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin nota. Til að vinna að því eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting.

Tillaga ráðherra varðandi rjúpnaveiðar 2016 er eftirfarandi:

  • 1.     Leyfileg heildarveiði árið 2016 eru 40.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.
  • 2.     Sölubann verður á rjúpum. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.
  • 3.     Hófsemi skuli vera í fyrirrúmi: Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og miða veiðar við 5-6 fugla pr. veiðimann. Jafnframt eru veiðimenn sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að  hvetja til hófsemi í veiðum.
  • 4.     Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi, líkt og undanfarin ár.
  • 5.     Fjöldi veiðidaga eru 12 sem skiptast á fjórar helgar, þ.e. síðustu helgina í október og fyrstu þrjár í nóvember:
  • Föstudaginn 28. október til sunnudags 30. október. 3 dagar.
  • Föstudaginn 4. nóvember til sunnudags 6. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 11. nóvember til sunnudags 13. nóvember. 3 dagar.
  • Föstudaginn 18. nóvember til sunnudags 20. nóvember. 3 dagar.
  • 6.     Fyrirsjáanleiki. Lagt er til að þetta fyrirkomulag gildi áfram, þ.e. komi ekki eitthvað óvænt uppá í árlegri mælingu og rannsóknum á rjúpnastofninum eða umbætur í stjórnkerfi veiðanna, er gert ráð fyrir að fyrirkomulag veiðanna verði með þessum hætti amk. næstu þrjú ár.