
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að styrkja Rauða kross Íslands um 7,5 milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu í tilefni af 100 ára afmæli félagsins. Er styrkurinn veittur sem viðurkenning fyrir ómetanlegt starf í þágu samfélags og þjóðar.
Rauði krossinn á Íslandi var stofnaður 10. desember 1924 og starfar félagið að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Björnsson, sem síðar varð fyrsti forseti lýðveldisins.
Rauði krossinn gegnir stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum en starfsemi félagsins nær til alls landsins og byggist aðallega á sjálfboðavinnu. Undanfarin ár og áratugi hefur mætt mikið á Rauða krossinum og má í því sambandi nefna verkefni á sviði almannavarna sem félagið sinnir í ásamt Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Þá rak félagið sóttvarnahús á tímum heimsfaraldursins og hefur að beiðni stjórnvalda rekið fjöldahjálparstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd.
Aðrar fréttir
Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir
Opnað að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán
Tekjumörk hlutdeildarlána hækkuð