30/11/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Reykjavík

Reykjavík er höfuðborg Íslands, fjölmennasta sveitarfélag þess og eina borgin. Þannig er Reykjavík efnahagsleg, menningarleg og stjórnmálaleg þungamiðja landsins. Tæplega 120 þúsund manns búa í Reykjavík, þar af eru 11,1% innflytjendur. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru um 203 þúsund í 7 sveitarfélögum.

Ingólfur Arnarson nam Reykjavík og með tíð og tíma byggðist fleiri bæir í kring og má þar helst nefna Laugarnes og Nes við Seltjörn. Lítið gerðist á miðöldum í Reykjavík. Árið 1226 hófst byggð á Viðey þegar munkar af Ágústínusarreglu stofnuðu þar klaustur. Ekki fór að myndast þéttbýli að ráði í Reykjavík fyrr en á 18. öld, en fram að því lágu býli af ýmsum stærðum á víð og dreif um svæðið þar sem borgin stendur nú. Á 18. öld var gerð tilraun til að reka ullariðnað í Reykjavík sem var kallað Innréttingarnar, og markaði það þáttaskil í þróun svæðisins, sem í kjölfarið fór að taka á sig einhverja þorpsmynd. Danska konungsvaldið studdi þessar tilraunir til uppbyggingar með því að gefa jarðir sem það átti í Reykjavík og Örfirisey. Sextán hús voru byggð í Reykjavík vegna Innréttinganna, sem hefur verið mikil fjölgun á þeim tíma, merki um tvö þeirra má enn sjá. Þá var fyrsta fangelsi landsins byggt á árunum 1761-71, stæðilegt steinhús, sem í dag er Stjórnarráð Íslands við Lækjargötu.

Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1786, í kjölfar afnáms einokunarverslunar í landinu. Á nítjándu öld mynduðust þéttar þyrpingar lítilla húsa eða kofa sjómanna í bænum. Alþingi var endurreist í Reykjavík árið 1845. Ári síðar var Menntaskólinn í Reykjavík fluttur frá Bessastöðum í miðbæinn. Árið 1881 var Alþingishúsið fullbúið. Stýrimannaskólinn tók til starfa 1891 eftir að þilskip voru komin til landsins. Árið 1898 var Miðbæjarskólinn við Tjarnargötu fullbúinn. Hann var þó ekki tekinn í notkun fyrr en haustið 1908 og þá hófu tæplega þrjú hundruð grunnskólabörn nám þar.

Fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur, Páll Einarsson, tók til starfa 1908 og fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalistum sem buðu fram til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík í janúar árið 1908. Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909. Gasstöð Reykjavíkur við Hlemm var tekinn í gagnið árið 1910. Gasstöðin starfaði til 1956. Reykjavíkurhafnir voru byggðar í áföngum á árunum 1913-17 bættu mjög skipaaðstöðu. Þaðan gátu hafskip lagst að bryggju en áður fyrr þurfti að ferja fólk og varning á milli smærri bryggja og hafskipa sem lágu úti fyrir. Elliðaárvirkjun var byggð 1921 til þess að sjá ört stækkandi borginni fyrir rafmagni.

Í Reykjavík hafa verið gerðar samfelldar veðurathuganir frá 1920, en elstu skráðu veðurathuganir eru frá fyrri hluta 19. aldar. Þann 3. janúar 1841 mældist þar loftþrýstingurinn 1058,5 hPa, sem er sá mesti sem mælst hefur á Íslandi.