21/05/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Nýr flughermir Icelandair

Icelandair hefur tekið formlega í notkun flughermi í nýju húsnæði fyrirtækisins í Hafnarfirði. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri félagsins klipptu á borða og opnuðu þannig flugherminn með táknrænum hætti.

Í framhaldinu prófaði innanríkisráðherra sig í flugstjórasæti flughermisins og lenti vélinni í New York ásamt Hilmari B. Baldurssyni. Í ávarpi við athöfnina sagði Ólöf Nordal þetta djarft skref hjá Icelandair og að það þyrfti áræði til að starfa í þeim áhætturekstri sem flug- og ferðaþjónusta væri. Hún kvaðst sannfærð um að þetta skref yrði fyrirtækinu til heilla og hagræðingar. Birkir Hólm Guðnason sagði að með stækkandi flugvélaflota og fleiri flugmönnum væri hagkvæmast að geta stundað þjálfun í eigin flughermi og hann sagði ný tækifæri geta skapast með tilkomu hans.

Flughermirinn er sameiginleg fjárfesting Icelandair og bandaríska fyrirtækisins Opinicus og verður hann notaður til að þjálfa nýja flugmenn Icelandair og í reglubundna síþjálfun flugmanna en þessi þjálfun hefur til þessa farið fram erlendis. Viðræður standa yfir við erlent flugfélag um að nýta flugherminn til að þjálfa flugmenn sína. Flughermirinn er með mjög fullkomnum myndvörpum sem líkja eftir útsýni úr flugstjórnarklefa og er á rafdrifnum tjökkum sem hreyfa hann og skapa þá tilfinningu hjá flugmönnum að þeir séu að fljúga við raunverulegar aðstæður.

Þetta kemur fram á vef Innanríkisráðuneytisins.