13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Nýr Baldur tekur 280 farþega og 55 einkabíla

Nýtt skip Vågan, kemur til með að leysa Baldur af hólmi á Breiðafirði. Skipið tekur 280 farþega og 55 bíla. Það var byggt 1979 en endurbyggt 1989 og fékk nýja og stærri vél 1993.

Bílaflutningsgeta skipsins að mati Sæferða er u.þ.b. 55 einkabílar. Andstætt fyrirrennara Vågan, Baldri, þá eru öll ökutæki flutt undir dekki og varin fyrir sjóroki. Vågan er svo kallað gegnumakstursskip svipað Herjólfi. Hrein hæð á ekjudekki 4.5 m og heimilaður öxulþungi 13 tonn, sem leiðir til þess að öll lögleg flutningaeyki geta nýtt skipið.

Þetta er svipaður farþegafjöldi og Baldur flytur en munurinn felst í bílunum þar sem sá gamli tekur um 38 bíla. Einnig munar miklu að bílaþilfarið er lokað fyrir sjógangi. Lofthæðin er líka 4,5 m í stað 4,1 og munar um það.
Vågan var byggt í Bolsönes Verft í Molde í Noregi 1979, en síðan lengt um 14 m og endurbyggt árið 1989. Árið 1993 var sett ný og stærri aðalvél í skipið sem er 2609 bhö og er ganghraði skipsins rúmir 13 hnútar (25 km/klst.), en skipið er einnig búið öflugri bógskrúfu.
Ekjubrýr í áætlanahöfnum við Breiðafjörð, þ.e.a.s. í Stykkishólmi og Brjánslæk, eru byggðar eftir norskum stöðlum og smellpassar því Vågan við brýrnar. Skipið er búið öryggisbúnaði í samræmi við bæði íslenskar og norskar kröfur til ferja á siglingu á hafsvæðum sambærilegum við Breiðafjörðinn.
Sæferðir ehf. stefna að smávægilegum breytingum á skipinu í Breiðafjarðarsiglingum, þ.e.a.s. að búa skipið vörukrana til að þjóna Flatey og einnig verða gerðar breytingar á geymum skipsins fyrir ferskvatnsflutninga til Flateyjar.

Skipið er um 68 m langt og tæpir 12 m á breidd. Það er 1677 brúttótonn og ristir 4,0 m eða aðeins minna en Herjólfur og getur því auðveldlega leyst af í Landeyjahöfn þegar Herjólfur fer í slipp eða af öðrum ástæðum reynist þörf á afleysingu.
Vagan-i-Skutvik
Heimild: vegagerdin.is