Metaðsókn var á ráðstefnu Landsbankans um ferðaþjónustu sem haldin var í Hörpu 24. mars undir yfirskriftinni Eru milljón ferðamenn vandamál? Rúmlega 450 manns skráðu sig á ráðstefnuna og hafa aldrei verið fleiri, en Landsbankinn hefur undanfarin ár staðið fyrir stórum vorráðstefnum um stöðu og horfur í ferðaþjónstu á Íslandi.
Á ráðstefnunni kynnti Gústaf Steingrímsson hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans nýja úttekt bankans á mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, kynnti uppbyggingaráætlun Isavia á Keflavíkurflugvelli til næstu 25 ára og allar þær fjárfestingar sem ráðast þarf í til að anna fyrirsjáanlegri fjölgun ferðamanna næstu árin. Davíð Björnsson forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans fór yfir hótelmarkaðinn í Reykjavík og þá uppbyggingu sem framundan er á því sviði.
Aðalræðumaður ráðstefnunnar var bandaríkjamaðurinn Doug Lansky sem er þekktur fyrirlesari, blaðamaður, ráðgjafi og rithöfundur. Lansky ræddi um þær skyldur sem stöðug fjölgun ferðamanna leggur ferðaþjónustunni á herðar og hvernig hægt væri að halda áfangastöðum spennandi um lengri tíma.
Heimild: Landsbankinn.is
Aðrar fréttir
Stórfelld lækkun gjalds fyrir brjóstaskimanir
Opnað að nýju fyrir umsóknir um hlutdeildarlán
Tekjumörk hlutdeildarlána hækkuð