06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Menningarsjóður Gunnarsstofnunar efldur

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita um 16,5 m. kr. framlag af sameiginlegu ráðstöfunarfé sínu í aukið stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar sem var stofnaður árið 2013.

Gunnar Gunnarsson skáld og eiginkona hans Franzisca gáfu íslenska ríkinu jörðina Skriðuklaustur í Fljótsdal, Norður-Múlasýslu, ásamt húsakosti með gjafabréfi árið 1948 með þeim skilmálum að jarðeignin skyldi vera ævarandi eign íslenska ríkisins og skyldi hún hagnýtt þannig að til menningarauka horfði. Auk þess hafa erfingjar skáldsins framselt handhöfn höfundarréttar af verkum Gunnars til Gunnarsstofnunar sem fagnar 20 ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ríkisstjórnin ákvað, með vísan til hinnar einstöku gjafar Gunnars Gunnarssonar og ættingja hans, að auka stofnframlag til Menningarsjóðs Gunnarsstofnunar um u.þ.b. 16,5 m. kr.