21/05/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Markvisst útinám í Gufunesbæ

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að skipa starfshóp til að móta heildstæða stefnu um markmið og hlutverk Gufunesbæjar sem miðstöðvar útivistar og útináms fyrir börn og unglinga úr öllum hverfum.

Starfshópurinn á m.a. að skilgreina þjónustustig og þörf fyrir uppbyggingu fjölnota útivistarsvæðis, húsnæðis og aðstöðu. Sérstaklega skal hópurinn líta til hlutverks frístundamiðstöðvarinnar í Gufunesi sem þekkingarmiðstöðvar um útinám og útivist og hvernig efla megi fræðslu fyrir leikskóla, grunnskóla og í frístundastarfi í öllum hverfum borgarinnar, svo og í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur. Leiðarljós starfshópsins á að vera að styrkja stöðu Gufunesbæjar sem valkost fyrir alla aldurshópa til að stunda fjölbreytta útivist og frístundaiðkun, árið um kring.

Í greinargerð með tillögunni segir að frá því að Frístundamiðstöðin Gufunesbær hafi verið stofnuð haustið 1998 hafi verið lögð áhersla á að nýta svæðið til útivistar og skoða möguleika á uppbyggingu í því sambandi. Töluverð uppbygging hafi átt sér stað síðan, m.a. með endurbyggingu gamla bæjarins og hlöðunnar. Lega og aðstæður við Gufunesbæ bjóði upp á fjölmörg tækifæri til uppbyggingar enda sé staðsetningin eins konar sveit í borg. Þá hafi fjöldi heimsókna ýmissa hópa á svæðið aukist ár frá ári en aukin ásókn kalli á endurskipulagningu á þjónustu og aðstöðu.
Í greinargerð er jafnframt tilgreint að útinám sé árangursrík leið til að mæta markmiðum um menntun til sjálfbærni en sjálfbærni er einn af grunnþáttum í aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Menntun til sjálfbærni er þar að auki einn af níu áhersluþáttum í umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar. Loks segir að á útivistarsvæði Gufunesbæjar gefist gott tækifæri til að efla lýðheilsu borgarbúa með hreyfingu, virkri þátttöku og útivist. Uppbygging á slíku svæði styðji við samning Reykjavíkurborgar og embættis Landlæknis um heilsueflandi starfsemi á vegum skóla- og frístundasviðs. Fyrir liggja ýmsar hugmyndir um uppbyggingu svæðisins og verður það hlutverk starfshópsins að rýna þær og nýta eftir föngum í þeirri vinnu sem framundan er.