21/05/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Mælti fyrir frumvarpi þar sem stutt er betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi að lögum um nýtt stuðningskerfi fyrir umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna á Alþingi. Í frumvarpinu er lagt til að sérstök lög um greiðslur til umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna komi í stað gildandi laga en markmiðið er að styðja betur við umönnunaraðila, meðal annars með því að einfalda stuðningskerfið og draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila.

„Ég tel nauðsynlegt að setja nýja löggjöf um þennan málaflokk þar sem fjallað er heildstætt um fjárhagslegan stuðning ríkisins við fjölskyldur langveikra og fatlaðra barna enda er núverandi kerfi komið til ára sinna og hefur heildarendurskoðun þess staðið yfir í langan tíma,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í framsöguræðu sinni.

Frumvarpið er byggt á skýrslu starfshóps um umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna, en hópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í ársbyrjun 2020 með tillögum um breytingar á stuðningskerfinu. Meginefni frumvarpsins er að umönnunar- og foreldragreiðslur í núverandi kerfi verði sameinaðar og skiptist í tvo flokka, annars vegar tekjutengdar umönnunargreiðslur til skamms tíma sem byggjast á fyrri atvinnuþátttöku og hins vegar umönnunarstyrk sem greiðist með barni til 18 ára aldurs. Kveðið er á um það nýmæli að umönnunaraðilar eigi nú sjálfstæðan rétt til umönnunargreiðslna og að nú geti báðir foreldrar fengið umönnunarstyrk á sama tíma. Með þessu er meðal annars reynt að jafna möguleika umönnunaraðila til þátttöku í námi eða á vinnumarkaði. Einnig er stigið það mikilvæga skref að leggja til að nám eða atvinnuþátttaka útiloki ekki umönnunaraðila frá því að fá umönnunarstyrk og þannig verður stuðningskerfið sveigjanlegra og stuðlar í auknum mæli að því að draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila.

„Ég tel að verði frumvarpið að lögum muni það bæta lífskjör og lífsgæði langveikra og fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra þar sem stuðningur við umönnunaraðila verði í auknum mæli miðaður við raunverulega umönnunarþörf langveikra og fatlaðra barna. Auk þess tel ég afar mikilvægt að stuðningskerfið verði sveigjanlegra og stuðli í auknum mæli að því að draga úr félagslegri einangrun umönnunaraðila, en hagsmunasamtök hafa lagt ríka áherslu á að umönnunaraðilar geti stundað nám og eftir atvikum atvinnu samhliða umönnun barnanna,“ sagði ráðherra einnig.