30/11/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Leigufélag aldraðra byggir á Sjómannaskólareitnum

Skóflustunga var tekin í vikunni í Vatnsholti að 51, íbúð sem Leigufélag aldraðra mun byggja. Framkvæmdirnar marka upphaf uppbyggingar á Sjómannaskólareitnum.

Þeir sem tóku skóflustunguna voru Ásmundur Einar Daðason, Félags- og barnamálaráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ólafur Örn Ingólfsson stjórnarformaður Leigufélags aldraðra og Ingibjörg Sverrisdóttir formaður FEB.

Íbúðirnar verða í tveimur þriggja hæða húsum sem munu standa við Vatnsholt 1-3 á Sjómannaskólareitnum. Um er að ræða tveggja og þriggja herbergja íbúðir. Húsin verða reist úr steinsteyptum einingum. Framkvæmdir hefjast strax og eru verklok áætluð á þriðja ársfjórðungi 2022.

Leigufélag aldraðra hses var stofnað 2018. Félagið er stofnað á grundvelli laga um almennar íbúðir frá júní 2016 en markmið laganna var að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga með lágar tekjur. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. aldraða.

Samkvæmt lögunum geta stofnframlög ríkis og sveitarfélaga numið 30% af stofnkostnaði og jafnvel meira við sérstakar aðstæður. Þá er heimilt að reka félagið í deildum.

Stofnaðili Leigufélagsins var Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, með því skilyrði að í stofnsamningi væri ákvæði um að væntanlegir leigjendur væru félagar í FEB. Leigufélagið er að öðru leyti húsnæðissjálfseignarstofnun með sérstaka stjórn og rekið án hagnaðarsjónarmiða eins og mælt er fyrir í lögum. Leigufélagið fékk úthlutað lóð við Vatnsholt 1-3 á svokölluðum Sjómannaskólareit í apríl 2018.

Nú um þremur árum síðar er hönnun og undirbúningi lokið og stefnir félagið á hraða uppbyggingu á reitnum.

Framkvæmdirnar marka upphaf framkvæmda á Sjómannaskólareitnum svokallaða. Mynd: Reykjavíkurborg.