21/05/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Landsbjörg undirritar samstarfssamning

Þann 2. október síðastliðinn var skrifað undir samstarfssamning milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landsnets hf., Landsvirkjunar og RARIK um aðstoð björgunarsveita við veitufyrirtækin í vá og við önnur tilvik eða atburði þar sem aðstoðar er óskað.

Slysavarnafélagið Landsbjörg tryggir að í viðbragðskerfi félagsins séu skilgreindir verkferlar sem nýttir verða þegar fyrirtækin þurfa á að halda. Það skal gert með skipulögðum æfingum björgunarsveita í samstarfi við starfsmenn raforkufyrirtækjanna. Einnig mun Björgunarskólinn veita starfsfólki fyrirtækjanna aðgang að fræðslu samkvæmt námskrá skólans eða með sérsniðnum námskeiðum sé þess óskað.

Framlag raforkufyrirtækjanna felst í árlegum styrk til Slysavarnafélagsins Landsbjargar næstu þrjú árin. Einnig munu þau veita félögum SL nauðsynlega fræðslu sem m.a. snýr að öryggi þeirra í tengslum við verkefni sem þarf að vinna í þeirra þágu.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar fagnar samningnum og segir hann skipta miklu máli fyrir samfélagið allt. „Í raun er það öryggismál að þegar rafmagnsrof verður, standi það eins stutt og hægt er. Við eigum sérhæfðan búnað og tæki og öflugan mannskap til að aðstoða raforkufyrirtækin á neyðarstundu.“

Heimild: landsbjorg.is