30/11/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Könnun á öryggi barna í bílum við leikskóla

Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá, VÍS og Samgöngustofa gerðu haustið 2015 könnun á öryggi barna í bílum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 30 ár en á
árunum 1985 til 2011 voru árlega gerðar kannanir en eftir 2011 hafa þær verið gerðar annað hvert ár. Það er rétt að skipta þessu tímabili í tvennt. Annarsvegar „umferðarkannanirnar“ sem gerðar voru á árunum 1985 til 1995 af Umferðarráði og lögreglunni en þær voru ekki framkvæmdar við leikskóla og hinsvegar „leikskólakannanir“ sem hafa verið framkvæmdar frá 1996 til dagsins í dag.

Laus börn í bílum voru 80% en eru nú 2%

Nú liggur fyrir niðurstaða könnunarinnar 2015 sem gerð var við 60 leikskóla í 25 bæjarfélögum víða um land með 2.236 þátttakendum. Félagar í slysavarnadeildum og björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víða um land, starfsfólk tryggingafélaganna Sjóvár, VÍS og starfsfólk Samgöngustofu sáu að þessu sinni um framkvæmd könnunarinnar. Það vekur athygli að árið 1985 voru um 80% barna alveg laus í bílum en í dag er það hlutfall komið niður í 2%. Á þessum þremur áratugum hefur banaslysum meðal barna í umferðinni fækkað umtalsvert.

Meðaltal látinna barna í umferðinni fer úr 5,5 í 0,8

Á áratugnum 1964 til 1973 var meðaltal fjölda látinna barna 5,5 börn en áratuginn 2006 til 2015 er það komið niður í 0,8 börn. Það er því um umtalsverða fækkun slysa meðal barna í umferðinni að ræða á þessum 30 árum.

Mikill árangur með lagasetningu og aukinni vitund um öryggisbúnað
Lagasetning um notkun öryggisbúnaðar fyrir börn og aukin notkun þess búnaðar í kjölfar fræðslu og kynninga er stór áhrifavaldur í fækkun banaslysa meðal barna í bifreiðum. Fækkun slysa á börnum sem tilheyra öðrum vegfarendahópum má einnig, ásamt fleiri þáttum, þakka almennri fræðslu og þá ekki síst í grunn- og leikskólum.

Ef skoðað er tímabilið sem leikskólakönnunin hefur verið framkvæmd þ.e. frá 1996 sést að tilfellum þar sem enginn búnaður er notaður hefur fækkað mikið, nánar tiltekið úr 32% árið 1997 í 2% árið 2015. Árið 1990 var sett í lög að skylt væri að nota sérstakan öryggis- og verndarbúnað fyrir börn í bílum og jafnframt var komið á beltaskyldu fyrir öll sæti í bíl.

Þrátt fyrir jákvæða þróun er niðurstaðan ekki ásættanleg

Það er þó vitanlega ekki ásættanlegt að einhverjir skuli enn sleppa því að nota viðeigandi öryggisbúnað – búnað sem getur skilið milli lífs og dauða barns ef slys á sér stað. Að baki þessum 2% eru u.þ.b. 45 einstaklingar og það er því mikilvægt að niðurstöður þessarar könnunar séu kunngjörðar svo hægt sé að setja markið á enn betri og fullnægjandi árangur á komandi árum.

Fréttatikynninguna ásamt gröfum má sjá hér.