03/12/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Íslenska ökuskírteinið vinnur til verðlauna í Ungverjalandi

Árið 2012 stóð Ríkislögreglustjórinn fyrir útboði á hönnun, framleiðslu og persónugerð nýrra ökuskírteina á evrópska efnahagssvæðinu.   Lægsta tilboð átti ungverska fyrirtækið ANY Security Printing sem rekur aðalskrifstofu sína í Búdapest, í samvinnu við Öryggismiðstöðina.  Mjög vel tókst til við hönnunina og framleiðsluna sem og persónugerð skírteinanna og dreifingu þeirra á vegum Öryggismiðstöðvarinnar.

Í vor óskaði ANY Security Printing eftir heimild Ríkislögreglustjórans til að tefla hönnun íslenska ökuskírteinisins fram í hönnunarkeppni prentiðnaðarins í Ungverjalandi, Pro Typographia 2014, en Ríkislögreglustjórinn á höfundarréttinn að skírteininu samkvæmt samningi við ANY Security Printing.  Það samþykki var góðfúslega veitt og hönnunin lögð fram í þeim flokki keppninnar sem nefnist “Security printed forms and securities”.

Hönnunin hlaut bronsverðlaun, sem verður að teljast mikill heiður, enda á Ungverjaland ríka listahefð og ANY Security Printing sögu hátt á aðra öld í prentiðnaði.

Frá þessu er greint á vef Lögreglunnar.