01/12/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Íslandsbanki byggir við höfuðstöðvar á Kirkjusandi

Íslandsbanki hyggst sameina starfsemi höfuðstöðva bankans á einn stað á Kirkjusandi en starfsemi höfuðstöðva fer fram á fjórum stöðum í dag.

Sameiningin felur í sér stækkun húsnæðis á Kirkjusandi með viðbyggingu við suðurenda byggingarinnar. Stærsta breytingin mun felast í flutningi á Upplýsingatækni- og rekstrarsviði bankans frá Lynghálsi á Kirkjusand, en á því sviði starfa um 300 manns.

Töluverð hagræðing næst með sameiningu höfuðstöðvanna á einn stað, bæði með lægri leigukostnaði og lækkun rekstrarkostnaðar vegna upplýsingakerfa, viðhaldi vinnustöðva og rekstri mötuneyta. Með sameiningunni má gera ráð fyrir töluverðri lækkun samgöngukostnaðar og tímasparnaðar þar sem starfsmenn þurfa ekki að ferðast á milli staða í sama mæli og í dag.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á seinni hluta þessa árs og er áætlað að þær standi yfir í um tvö ár. Við hönnun viðbyggingarinnar verður horft til bæði umhverfisþátta og aukinnar hagkvæmni í rekstri.

Heimild: islandsbanki.is