27/03/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Höfuðstöðvar Íslandsbanka flytjast í Kópavog

Á stefnufundi starfsmanna Íslandsbanka sem fram fór fyrr í dag var tilkynnt að höfuðstöðvar Íslandsbanka munu á haustmánuðum flytjast í Norðurturninn í Kópavogi frá Kirkjusandi þar sem höfuðstöðvar bankans hafa verið undanfarin 20 ár. Með þessari breytingu verður starfsemi höfuðstöðva, sem í dag fer fram á fjórum stöðum, sameinuð undir einu þaki þar sem 650 starfsmenn munu starfa. Mikil hagkvæmni fylgir sameiningunni en samanlagður fermetrafjöldi höfuðstöðvastarfsemi fer úr 13.900 í 8.600 fermetra í Norðurturninum.

Nýtt útibú bankans mun jafnframt opna á 1. hæð Norðurturnsins í nóvember en sú vinna hefur staðið yfir undanfarna mánuði.

Eins og komið hefur fram áður hafa fundist rakaskemmdir í höfuðstöðvum bankans á Kirkjusandi. Viðamiklar rannsóknir hafa staðið yfir á húsnæðinu ásamt því að það hefur verið hreinsað með það að markmiði að lágmarka áhrif á starfsfólk. Fylgst er vel með loftgæðum í húsinu sem koma vel út en ljóst er að fara þarf í töluverðar endurbætur á húsnæðinu.

Heimild: islandsbanki.is