01/12/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Helgarnámskeið í íþróttafréttamennsku fyrir konur

  • Helgarnámskeið í íþróttafréttamennsku, ætlað konum, í Útvarpshúsinu við Efstaleiti 14. og 15. febrúar 2015
  • Markmiðið er að efla hlut kvenna í íþróttafréttamennsku
  • Stefna RÚV er að jafna hlut kynjanna í starfseminni allri – dagskrárgerð og umfjöllun

Íþróttafréttir og íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum á Íslandi á sér rúmlega 100 ára sögu en hlutfall kvenna í stétt þeirra sem fjalla um íþróttir hefur jafnan verið langt frá því að vera viðunandi. RÚV stendur því fyrir Íþróttafréttaskóla fyrir konur í febrúar.

Erfiðlega hefur gengið að fá konur til liðs við sterkan hóp íþróttafréttamanna og með skólanum vill RÚV stuðla að jafnara kynjahlutfalli á skjánum. Fá svið innan fjölmiðla eru jafn fjölbreytt og krefjandi og íþróttaumfjöllun og því rík ástæða til að kynna það líflega starf konum sem hafa áhuga á að starfa í fjölmiðlum.

Fyrirlesarar fjalla um reynslu sína af starfinu og nemendum gefst kostur á að spreyta sig á ýmsum sviðum starfsins. Jafnframt verður leitað svara við spurningunni um það hvers vegna konur hafa ekki sótt í þetta starf í jafnmiklum mæli og önnur störf í fjölmiðlum og hvernig hægt sé að snúa þeirri þróun við.

Íþróttafréttaskólinn verður starfræktur í Efstaleiti og stendur fyrir helgarnámskeiði 14. og 15. febrúar 2015. Hægt er að sækja um með því að senda umsókn og ferilskrá í tölvupósti á ithrottafrettaskoli@ruv.is. Umsóknarfrestur er til 12. febrúar 2015.

Þátttökuskilyrði eru 20 ára aldurstakmark, brennandi áhugi á fréttum og stúdentspróf eða sambærileg menntun. Ekkert þátttökugjald og takmarkað sætaframboð.

Texti: Fréttatilkynning Rúv.is