13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Hátíðardagskrá í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2019

Skólavörðurstígur

Sérstök hátíðardagskrá í tilefni af 75 ára afmæli lýðveldisins verður í boði í samstarfi við Reykjavíkurborg og Alþingi á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2019.

Hátíðardagskráin hefst á Austurvelli klukkan 11:00 þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig að styttu Jóns Sigurðssonar. Því næst flytur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarp og að því loknu flytur Fjallkonan ljóð.

Þingfundur ungmenna á Alþingi hefst að lokinni athöfn á Austurvelli og verður hann í beinni útsendingu á RÚV. Markmiðið með þingfundinum er að gefa ungu fólki tækifæri til að koma málefnum sínum á framfæri við ráðamenn þjóðarinnar og kynnast um leið störfum Alþingis.

Þá verða Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg, Alþingi, Hæstiréttur, Héraðsdómur Reykjavíkur, Seðlabanki Íslands og Hafrannsóknarstofnun opin almenningi frá klukkan 14:00 til 18:00. Í Stjórnarráðinu og á Alþingi verður lögð áhersla á að sýna húsakynni og sýnt verður myndband um Stjórnarráðið. Í Hæstarétti verður leiðsögn á hálftíma fresti yfir daginn þar sem gestir verða fræddir um sögu, húsnæði og starfsemi réttarins en Hæstiréttur verður 100 ára á næsta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur, í samstarfi við lagadeildir Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, standa fyrir sýndarréttarhöldum. Í Seðlabanka Íslands verður m.a. til sýnis gullstöng og sýning á munum tengdum Halldóri Kiljan Laxness sem Seðlabankanum hefur verið falið að varðveita og þ. á m. eru sjálf Nóbelsverðlaunin. Einnig verður sýnt úrval málverka í eigu Seðlabankans. Hafrannsóknastofnun verður með fiska til sýnis í 10 körum við Sjávarútvegshúsið, upplýsingasetur á jarðhæð hússins verður opið og starfsemi stofnunarinnar verður kynnt á myndböndum í bíósal.

Ókeypis aðgangur verður að Þjóðminjasafninu frá klukkan 10:00 til 17:00. Mennta- og menningarmálaráðherra, opnar Stofu, nýtt fjölskyldu- og fræðslurými í safninu. Milli klukkan 14 og 16 verða settar upp í Stofu þrjár rannsóknarstöðvar sem gefa börnum tækifæri til að setja sig í spor fornleifafræðinga. Rétt er að minna á orð Eysteins Jónssonar alþingsmanns frá 1944 þar sem hann segir byggingu húss handa Þjóðminjasafninu „hæfilega morgungjöf af Alþingis hálfu til Lýðveldisins“.

Þá munu forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra jafnframt hleypa af stokkunum átaksverkefni til fimm ára um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Snorrastofu í Reykholti.

Landssamband bakarameistara í samstarfi við forsætisráðuneytið hefur hannað 75 metra langa Lýðveldisköku sem boðið verður upp á í miðbæ Reykjavíkur. Félagar í Landssambandi bakarameistara sem reka bakarí utan höfuðborgarsvæðisins munu einnig bjóða upp á kökuna í samvinnu við sveitarfélög á hverjum stað: Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Fjallabyggð, Akureyri, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Reykjanesbæ.