07/02/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Hagnaður Landsbankans 16,6 milljarðar árið 2016

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna.

Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta.

Þá dragast aðrar rekstrartekjur saman um tæpa 9 milljarða króna sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu.