03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Hækkun húsnæðisbóta samþykkt á Alþingi

Skólavörðurstígur

Alþingi samþykkti í lok síðustu viku lagafrumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra, um breytingar á lögum um húsnæðisbætur. Markmið laganna er að styðja við nýgerða kjarasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði með því að hækka húsnæðisbætur og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda.

Gert er ráð fyrir að greiðslur ríkisins vegna húsnæðisbóta hækki um 2,3-2,5 ma. kr. á ári og um 9 ma. kr. alls á gildistíma kjarasamninganna. Lögin taka gildi 1. júní nk. og taka til húsnæðisbóta sem greiddar eru frá þeim degi.

Svandís Svavarsdóttir: „Það er full ástæða til þess að fagna samþykkt þessara laga þar sem stuðningur við fjölskyldur á leigumarkaði er aukinn. Þær færa 9 milljarða króna til fólks með lægri tekjur á tímabili kjarasamninga og stuðla þar með að aukinni velferð og auknum jöfnuði í íslensku samfélagi.“

Helstu breytingar

Við breytingarnar verður annars vegar tekið aukið tillit til fjölda heimilisfólks við útreikning húsnæðisbóta. Þannig munu grunnfjárhæðir og frítekjumörk vegna húsnæðisbóta taka til allt að sex heimilismanna í stað fjögurra áður. Tveir flokkar grunnfjárhæða húsnæðisstuðnings bætast við vegna fimm eða sex heimilismanna og þá hækka einnig frítekjumörk vegna heimila þar sem fimm eða sex búa.

Hins vegar hækkar grunnfjárhæð húsnæðisbóta til einstaklingsheimila um 25% frá því sem nú gildir. Aðrar grunnfjárhæðir hækka til samræmis. Skerðingarmörk vegna eigna hækka einnig í 12,5 m.kr. en þau eru 8 m.kr. í dag. Þannig munu húsnæðisbætur ekki falla niður fyrr en samanlagðar heildareignir heimilis ná 20 m.kr.

Dæmi um áhrif breytinganna

Fyrir fólk í sambúð með tvö börn og tekjur undir 1,4 m.kr. á mánuði munu húsnæðisbætur hækka um 206 þ.kr. á ári.

Fyrir einstætt foreldri með eitt barn og 700 þ.kr. í mánaðartekjur munu húsnæðisbætur hækka um 165 þ.kr. á ári og um 190 þ.kr. ef tvö börn eru á heimili.

Breytingar gagnast einnig barnmörgum fjölskyldum þar sem tekið verður tillit til fleiri íbúa á heimili við útreikning á grunnfjárhæðum, eins og áður segir, auk þess sem frítekjumörk munu hækka í samræmi við fjölda heimilisfólks.

Fólk í sambúð með fjögur börn getur nú fengið að hámarki 817.912 kr. í húsnæðisbætur á ári en geta eftir breytingar fengið allt að 1.194.628 kr., sem er hækkun að upphæð 376.716 kr.