13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Fyrirtæki í Reykjavík flokka og skila

Reykvískum heimilum hefur verið gert að flokka ákveðna úrgangsflokka frá blönduðum úrgangi og skila í endurvinnslu og aðra móttöku. Nú hefur Reykjavíkurborg samþykkt að fyrirtækjum sé einnig skylt að flokka og skila til endurvinnslu og endurnýtingar eins og heimili gera.

Þetta kemur til framkvæmda frá og með mánudaginum 13. febrúar. Þessar breytingar voru innleiddar í gegnum endurskoðaða Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík sem borgarstjórn samþykkti í desember.

Greiningar SORPU benda til að hlutfall pappírs í blönduðum úrgangi sé meira frá fyrirtækjum en heimilum. En 110 þúsund tonn voru urðuð í Álfsnesi árið 2016. Þarf af voru 60% frá fyrirtækjum eða 66 þúsund tonn.

Þó hefur hlutur pappírs í gráu tunnunni undir blandaðan úrgang aukist lítið eitt frá því það var lægst árið 2014 eða 8% en er nú 13%. Eftir að íbúum var gert skylt að flokka pappír frá öðrum úrgangi jókst endurvinnsla pappírs stórlega eða úr 32% í gráu tunninni í einungis 8% á skömmum tíma. Vonir standa til að það sama gerist hjá fyrirtækjum.

Mörg fyrirtæki standa sig nú þegar afar vel og eru með umhverfisstefnu og skila nær engu til urðunar og endurvinna nánast allt sem til fellur.

Reykjavíkurborg hefur sett sér metnaðarfull markmið um flokkun og skil til endurvinnslu í aðgerðaáætlun um meðhöndlun úrgangs og í Aðalskipulagi.  Svo þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt, bæði íbúar og fyrirtæki.