Nú stendur yfir söfnun upplýsinga um reynslu fólks af skólahaldi á tíma COVID-19. Þá er átt við alla þætti sem snerta nám og kennslu á þessum tíma en einnig aðra þætti sem hafa haft áhrif á nemendur, foreldra, kennara, stjórnendur auk annarra starfsmanna skóla á öllum skólastigum. Sögurnar verða til umfjöllunar á ráðstefnu vorið 2021 og efniviðurinn nýttur í bók sem ráðgert er að gefa út um þennan tíma í íslenskri menntasögu.
Ritnefnd er skipuð sérfræðingum frá Háskóla Íslands, Kennarasambandinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Ritstjóri er Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.
Nefna má sem dæmi jákvæða eða neikvæða upplifun, áskorun, lausnir, lærdóm, reynslu, fjölskyldulífið og líðan. Markmiðið er að draga lærdóm af því sem gert var og nýta reynsluna til framtíðar, íslensku menntakerfi til heilla.
Sögunum má skila á íslensku eða ensku á netfangið sogur@mrn.is fyrir lok árs.
Sögurnar verða ekki birtar í heild sinni án samráðs við höfunda þeirra. Æskilegt er að fram komi staða þess sem miðlar sögunni (nemandi, foreldri, kennari, skólastjórnandi, annað), skólastig og landsfjórðungur/svæði. Æskileg lengd sagna er allt að 300-600 orð í rituðum texta eða allt að 3 mínútur ef um myndband eða hljóðrás er að ræða. Efnistök eru opin en málefnið þarf að tengjast menntun og COVID-19.
Aðrar fréttir
Veitir Bjarkarhlíð 15 milljóna króna styrk
Ríkissjóður kaupir alla hluti Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti hf.
Willum Þór fundaði með heilbrigðisráðherra Grænlands