03/12/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Forsetinn heimsótti Rauðakrossinn á 90 ára afmælinu

Fjöldi gesta kom í Rauða kross húsið þann 10. desember síðastliðinn og fagnaði 90 ára afmæli félagsins. Það var þennan dag árið 1924 sem haldinn var stofnfundur Rauða krossins á Íslandi. Fór hann fram í húsi Eimskipafélagsins og var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti lýðveldisins, kjörinn formaður.

Í tilefni dagsins var sett upp ljósmyndasýning um sögu Rauða krossins, sjúkrabílar voru afhentir, Sirkus Íslands og Skoppa og Skrítla mættu á svæðið og ýmis tónlistaratriði voru flutt. Þar gerði mikla lukku þegar börnin af leikskólanum Langholti tóku lagið með Gunna og Felix og sungu skyndihjálparlagið.

Frá stofnun Rauða krossins á Íslandi hefur mikið vatn runnið til sjávar, verkefnin hafa verið fjölmörg og ætíð ærin. Á fyrstu áratugum voru hvers kyns lýðheilsuverkefni, heimahjúkrun, tímabundinn rekstur spítala og blóðsöfnun stór hluti af verkefnum félagsins. Kann það að skýrast af miklum áhuga lækna á Rauða krossinum en meðal fimm fyrstu formanna voru fjórir þeirra einmitt læknar.

Rauði krossinn hefur ekki alveg sagt skilið við þjónustu gagnvart heilbrigðiskerfinu og rekur enn allar sjúkraflutningabifreiðar á Íslandi. Þá er vert að minnast á skyndihjálpina. Þeir sem læra skyndihjálp á Íslandi gera það í 90 prósent tilfella hjá skyndihjálparkennurum Rauða krossins.

Innanlandsverkefnin eru fleiri og eiga þau það sameiginlegt að aðstoða fólk og veita því aðhlynningu í neyð. Má þar nefna félagslega aðstoð til innflytjenda, aldraðra og annarra sem upplifa félagslega einangrun. Rauði krossinn veitir hælisleitendum og flóttamönnum aðstoð og hefur frá 25. ágúst í ár annast allt málsvarastarf fyrir hælisleitendur. Athvörf eru rekin fyrir fólk með geðraskanir, Konukot er starfrækt fyrir heimilislausar konur og hjálparsíminn 1717 hefur ófáum hjálpað.

Á alþjóðavettvangi hefur Rauði krossinn á Íslandi átt fulltrúa í Sierra Leone þar sem ebólufaraldur geisar, verkefni hafa verið rekin í Malaví og Sómalílandi þar sem komið hefur verið á fót heilsugæslu á hjólum og aðbúnaður skólabarna hefur verið bættur. Langtímaverkefni eru einnig í fullum gangi í Hvíta-Rússlandi, Kákasuslöndunum og í stríðshrjáðri Palestínu. Þá er ótalin neyðaraðstoð sem veitt var í formi mannafla og sérfræðiþekkingar í Filippseyjum í kjölfar fellibylsins Haiyan.

Vinna að þessum mannúðarverkefnum, auk allra þeirra verkefna sem að baki eru, væri aldrei möguleg án stuðnings almennings og, fyrst og fremst, sjálfboðaliða Rauða krossins. Hreyfiafl mannúðarstarfs er og hefur ætíð verið sjálfboðið starf og vill Rauði krossinn skila sérstöku þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg á undanförnum 90 árum.

20141210__14A3733

Texti og mynd: raudikrossinn.is