Frú Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsótti þátttakendur á snjóflóðanámskeiði Björgunarhundasveitar Íslands s.l. sunnudag.
Um er að ræða árlegt vetrarnámskeið sveitarinnar sem hófst þann 22. mars og stendur til 26. mars. Alls taka 23 hundar þátt ásamt þjálfurum sínum en á námskeiðinu eru hundarnir þjálfaðir og metnir til leitar í snjóflóðum.
Frú Dorrit og eiginmaður hennar, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tóku þátt í æfingu en forsetafrúin er verndari sveitarinnar. Var frú Dorrit meðal annars grafin í fönn og tók Sámur, hundur þeirra hjóna þátt í að leita að eiganda sínum undir dyggri stjórn forsetans.
Forsetahjónin vörðu drjúgum hluta dagsins á námskeiðinu og tóku virkan þátt í því sem fram fór. Var þeim svo boðið í kvöldverð þar sem forsetafrúin tók formlega við starfi verndara sveitarinnar. Sámur ber nú stoltur merki Björgunarhundasveitar Íslands og er verðugur fulltrúi ferfætlinga í sveitinni.
Aðrar fréttir
65 ára afmælishátíð Sjálfsbjargar
Sæbraut lokað vegna kvikmyndatöku
Nýtt björgunarskip Landsbjargar komið til landsins með Brúarfossi