Þriggja mánaða frestur til þess að samþykkja ráðstöfun leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána rann út á miðnætti hjá þeim umsækjendum um leiðréttingu sem gátu samþykkt hana frá 23. desember sl. Af þessum hópi samþykktu 99,4% ráðstöfun leiðréttingarinnar. 553 einstaklingar samþykktu ekki ráðstöfunina.
Frá því að útreikningar um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána voru birtir hafa starfsmenn ríkisskattstjóra lagt áherslu á að afgreiða allar athugsemdir og fyrirspurnir fólks í kjölfar birtingar. Þessi vinna hefur gengið vel og hafa þúsundir erinda verið afgreidd.
Um 3,9% umsækjenda eiga eftir að fá sínar niðurstöður birtar. Þessar umsóknir tengjast m.a. dánarbúum, uppfylla ekki skilyrði til leiðréttingar eða vandkvæði eru við að tengja heimilissögu eða lán við umsækjendur. Unnið er að því hjá ríkisskattstjóra að leysa úr þessum umsóknum og er stefnt að því að því verði lokið nú á vormánuðum.
Auk leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána gefst fólki kostur á því að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði inn á húsnæðislán en ekki þarf að greiða skatt af upphæðunum. Í gær höfðu 33.300 einstaklingar sótt um að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði.
Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Aðrar fréttir
Ráðherra kynnti bætta afkomu og aðhald í ríkisrekstri
Umsækjendur um embætti forstjóra Geislavarna ríkisins
Mælti fyrir frumvarpi þar sem stutt er betur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna