06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Fimleikahús rís við Egilshöll

Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að ganga til samninga við Ungmennafélagið Fjölni í Grafarvogi vegna  aðstöðumála og rekstri á  íþróttamannvirkjum við Dalhús. Jafnframt hefur ráðið samþykkt að ganga til samninga við Knatthöllina ehf. um leigu á fimleikaaðstöðu í fimleikahúsi er rísa mun við hlið Egilshallar.
Reginn mun eiga þá byggingu og leigja til Reykjavíkurborgar eins og önnur mannvirki við Egilshöll. Fimleikahúsið ásamt tengibyggingu við núverandi mannvirki verður um 2.250 m2.

Áætlað er að hönnun og bygging fimleikahúss verði boðin út í alútboði og gert er ráð fyrir að húsið verði fullgert að hausti 2015. Samhliða hefur Reginn hafið undirbúning og viðræður við aðila um ýmiss konar nýja þjónustu og starfsemi í núverandi byggingum við Egilshöll sem fyrirhugað er að verði þar. Þetta er t.d. einkarekinn leikskóli með áherslu á íþróttir og hreyfingu og ýmsa þjónustu tengda íþróttum og heilsu.

Nýjar fjárfestingar í Egilshöll, vegna samnings við Reykjavíkurborg, eru áætlaðar um 600 m.kr. og hafa þegar verið fjármagnaðar.