30/11/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Boðuðu verkfalli Félags háskólakennara frestað til 12. maí

Boðuðu verkfalli Félags háskólakennara, sem standa átti dagana 25. apríl til 10. maí, hefur verið frestað til 12. maí og hefur Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sent frá sér yfirlýsingu af því tilefni.

Þar segir: „Í framhaldi af ákvörðun Félags háskólakennara um að fresta boðuðu verkfalli dagana 25. apríl til 10. maí 2014, eftir viðræður við Samninganefnd ríkisins, vill rektor Háskóla Íslands taka eftirfarandi fram:

Afar mikilvægt er fyrir 14.000 nemendur Háskóla Íslands að ekki komi til verkfalls. Slíkt hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.

Á undanförnum árum hafa félagsmenn Félags háskólakennara tekið á sig launaskerðingu, aukna kennsluskyldu og aukið álag vegna mikillar fjölgunar nemenda. Háskóli Íslands mun koma til móts við óskir Félags háskólakennara eftir fremsta megni.

Samhliða því treystir Háskóli Íslands á stuðning stjórnvalda, sbr. yfirlýsingu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar um Aldarafmælissjóð. Hún felur í sér að staðið verði við samning varðandi stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands þannig að tekjur hans verði sambærilegar meðaltali framlaga OECD-þjóða til háskóla og síðar meir meðaltali framlaga háskóla á Norðurlöndum.“

Í orðsendingu frá kennslusviði Háskóla Íslands kemur enn fremur fram að áður auglýst próftafla standi óbreytt og hefjast próf því að óbreyttu 25. apríl.