13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Björgun flytur úr Bryggjuhverfinu

Útlit er fyrir að starfsemi Björgunar verði flutt á næstunni úr Bryggjuhverfinu í Grafarvogi. Viðræður standa nú yfir milli fyrirtækisins og borgaryfirvalda um nýjan stað fyrir starfsemina. Íbúar í hverfinu eru orðnir langþreyttir á ástandinu. Viðræður um nýja staðsetningu eru í gangi en sá staður er á milli athafnasvæða Samskipa og Eimskips, fyrir neðan Kleppsspítalann.  Á því svæði er einnig ungbarnaleikskólinn Lundur.

Borgaryfirvöld hafa viljað að starfsemin yrði flutt, og stjórnendur fyrirtækisins eru sömu skoðunar. Hins vegar hefur verið deilt um framtíðarstað fyrir starfsemina.

Samkvæmt aðalskipulagi stendur til að íbúðabyggð komi í staðinn fyrir starfsemi Björgunar í Grafarvogi.

Björgun ehf er leiðandi framleiðandi steinefna til hverskonar mannvirkjagerðar á Íslandi. Félagið aflar hráefnis úr námum á hafsbotni með uppdælingu efnisins sem síðan er flutt til frekari vinnslu á athafnasvæði félagsins við Ártúnshöfða í Reykjavík.