Stjórn Stjórnstöðvar ferðamála kom saman til fundar á miðvikudag í þessari viku. Á fundinum voru ræddar tillögur vinnuhóps á vegum Stjórnstöðvar að bættu öryggi ferðamanna og almennings í landinu, sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum.
Um er að ræða tillögur að aðgerðum á árinu 2016. Verkefnið í heild er afar umfangsmikið og ljóst að framkvæmd þess verður skipt í nokkra hluta, en vinnuhópurinn leggur til að verkefnum verði forgangsraðað. Samhliða er unnið að heildstæðri langtímaáætlun.
Tillögurnar, sem snúa meðal annars að löggæslu, upplýsingamálum og öryggi á ferðamannastöðum og vegum fara nú til viðkomandi ráðuneyta til umfjöllunar. Í framhaldinu verða þær lagðar fyrir ríkisstjórn til samþykktar.
Að vinnunni komu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Lögreglunni, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Félagi leiðsögumanna og Stjórnstöð ferðamála.
Aðrar fréttir
Veitir Bjarkarhlíð 15 milljóna króna styrk
Ríkissjóður kaupir alla hluti Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða í Landsneti hf.
Willum Þór fundaði með heilbrigðisráðherra Grænlands