01/12/2023

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Bætt öryggi ferðamanna

Stjórn Stjórnstöðvar ferðamála kom saman til fundar á miðvikudag í þessari viku.  Á fundinum voru ræddar tillögur vinnuhóps á vegum Stjórnstöðvar að bættu öryggi ferðamanna og almennings í landinu, sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum.

Um er að ræða tillögur að aðgerðum á árinu 2016. Verkefnið í heild er afar umfangsmikið og ljóst að framkvæmd þess verður skipt í nokkra hluta, en vinnuhópurinn leggur til að verkefnum verði forgangsraðað. Samhliða er unnið að heildstæðri langtímaáætlun.

Tillögurnar, sem snúa meðal annars að löggæslu, upplýsingamálum og öryggi á ferðamannastöðum og vegum fara nú til viðkomandi ráðuneyta til umfjöllunar. Í framhaldinu verða þær lagðar fyrir ríkisstjórn til samþykktar.

Að vinnunni komu fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, innanríkisráðuneytinu, Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu, Ferðamálastofu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Lögreglunni, Samgöngustofu, Vegagerðinni, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Félagi leiðsögumanna og Stjórnstöð ferðamála.