13/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

350 íbúðir geta risið við Öskjuhlíð

Allt að 350 litlar og meðalstórar íbúðir munu rísa við rætur Öskjuhlíðar samkvæmt breyttri deiliskipulagstillögu Kanon arkitekta, sem borgarráð hefur samþykkt að setja í auglýsingu. Með uppbyggingu byggðar á þessum stað hyggst Háskólinn í Reykjavík styrkja baklandið fyrir fjölþætta starfsemi þekkingarsamfélags og framtíðaruppbyggingu háskólans á svæði við Nauthólsveg.

Með deiliskipulaginu er afmörkuð ein ný lóð, sem verður samtals um 3.2 ha að stærð. Á svæðinu verður heimilt að byggja allt að 350 íbúðir og er miðað við frekar litlar íbúðir en einnig einstaklingsherbergi með sameiginlegri aðstöðu. Það er Háskólinn í Reykjavík sem mun standa fyrir uppbyggingunni á þessum frábæra stað í grennd við skólann. Byggðin verður almennt  tvær til fjórar hæðir en ein hæð syðst. Á jarðhæð íbúðarhúsa meðfram Nauthólsvegi er gert ráð fyrir möguleika á verslun og þjónustu.  Hægt verður að hafa kjallara undir byggingum. Þá munu inngarðar prýða svæðið.

Íbúðirnar eru ætlaðar til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir nemendur og starfsfók fyrirtækjanna sem starfa hjá HR og þekkingarfyrirtækjum  í nágrenninu.  Syðst á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir dagvöruverslun í þjónustuhúsnæði og leikskóla.

Í deiliskipulaginu er áhersla lögð á vistvænar samgöngur í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og verður fjölda bílastæða breytt frá núgildandi deiliskipulagi í samræmi við það.

Heimild: reykjavik.is