21/05/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

25.680 börn fá gjafabréf á flugeldagleraugu

Undanfarin ár hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg , Blindrafélagið, Sjóvá, Pósturinn og Prentsmiðjan Oddi unnið að forvörnum til að fyrirbyggja augnslys af völdum flugelda. Nú senda þau öllum 10 til 15 ára börnum, sem eru 25.680 talsins, gjafabréf fyrir flugeldagleraugum. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að gleraugun verði til þess að ekkert þeirra slasist á augum um áramótin. Rétt er að ítreka að allir ættu að nota flugeldagleraugu, sama á hvaða aldri þeir eru, hvort sem viðkomandi er að skjóta upp eða eingöngu að horfa á.

Fikt með flugeldavörur er of algengt hjá krökkum og þá sérstaklega strákum. Þeir taka flugelda í sundur, safna púðrinu saman og búa til sprengjur. Þessi leikur er stórhættulegur og foreldrar verða að vera vakandi og meðvitaðir um það sem börn þeirra eru að fást við þessa daga.

Annar hópur sem hefur verið að lenda í flugeldaslysum eru karlmenn á besta aldri. Oft er áfengi með í för þegar þau verða. Munum að áfengi og flugeldar eiga aldrei samleið.

Gjafabréfum á flugeldagleraugu má framvísa á öllum flugeldamörkuðum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til að fá gleraugun afhent. Einnig fylgja flugeldagleraugu öllum fjölskyldupökkum sem seldir eru hjá björgunarsveitum.

Nánari upplýsingar um öryggismál tengd flugeldum má finna á www.flugeldar.is/oryggisakademian en þar eru myndbönd með leiðbeiningum um rétta meðferð flugelda.