06/12/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Vinningstillaga um uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli

Hönnunarstofan Nordic – Office of Architecture í Noregi varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um gerð uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára. Þetta kemur fram á vef Isavia.

Sýning á tillögum sem bárust frá 6 alþjóðlegum hönnunarstofum hefur verið sett upp á skrifstofum Isavia á þriðju hæð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verður hún opin almenningi kl. 9 – 16 alla virka daga til 20. mars næstkomandi.

Vinningstillagan þótti skara fram úr varðandi sjálfbærni og skipulags- og umhverfismál auk þess sem skýr stefna er sett í tekjusköpun á uppbyggingartíma og rík árhersla er á  samráð við hagsmunaaðila og nærsamfélag flugvallarins. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun flugstöðvarinnar til norðurs og lagningu nýrrar norður-suður flugbrautar vestan við flugvöllinn í framtíðinni.

Keflavik Masterplan_A0 plansjer.indd

Nordic – Office of Arthitecture hefur haft með höndum mörg stór þróunarverkefni svo sem stækkun flugvallanna í Osló, Björgvin og Zuzhny í Rússlandi. Verkefnastjóri tillögunnar er íslenskur og þekkir vel umhverfi Keflavíkurflugvallar. Samstarfsaðili Nordic í verkefninu er ráðgjafarfyrirtækið COWI A/S í Danmörku.

Fyrirtækið mun á næstu mánuðum  vinna að frekari útfærslu á tillögum sínum í samráði við Isavia og er stefnt að því að fullmótaðri uppbyggingar- og þróunaráætlun verði skilað í september næstkomandi. Verður hún unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila flugvallarins og mun vera leiðarljós í framtíðarskipulagi svæðisins.