07/02/2025

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Uppsagnir hjá Landsbankanum

Landsbankinn vinnur áfram að hagræðingu og breytingum á sínum rekstri. Af þeim sökum fækkar um 30 manns í höfuðstöðvum bankans og að auki hefur ráðningasamningum fastráðinna starfsmanna í afgreiðslu bankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið sagt upp, en þar starfa 13 manns. Uppsögnin í Leifsstöð verður afturkölluð, haldi bankinn áfram að sinna fjármálaþjónustu í flugstöðinni eins og verið hefur. Auk þess láta nú af störfum í bankanum 8 manns vegna aldurs eða af öðrum ástæðum.

Uppsagnirnar í höfuðstöðvum bankans ná til flestra sviða. Úrvinnsla ýmissa mála er tengjast hruninu er nánast lokið og m.a. þess vegna verða gerðar ákveðnar breytingar á skipulagi og mönnun bankans. Aukin áhersla á rafræna afgreiðslu erinda leiðir til fækkunar og hagræðingar í bakvinnslu og hjá stoðsviðum.

Landsbankinn hefur rekið afgreiðslu í Leifsstöð allt frá opnun og hyggst taka þátt í útboði Isavia um bankaþjónustu þegar það verður auglýst.