22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

Uppbygging íbúða á Kirkjusandsreit

Í lok vikunnar var undirritaður samningur milli Íslandsbanka og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu, skipulag og skiptingu Kirkjusandsreits. Um er að ræða heildarskipulag fyrir lóðirnar Kirkjusand 2, þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í dag og Borgartún 41, sem oft er kölluð Strætólóð.

Á Kirkjusandsreit er fyrirhuguð blönduð miðborgarbyggð. Reitnum verður skipt upp í nokkrar lóðir og er byggingarmagn í heild áætlað um 75 – 85 þúsund fermetrar. Um helmingur byggingarmagns verður atvinnuhúsnæði, skrifstofur og þjónusta, en gert er ráð fyrir um 300 nýjum íbúðum á svæðinu. Reykjavíkurborg mun ráðstafa þremur íbúðarhúsalóðum. Allar núverandi byggingar á reitnum, fyrir utan aðalskrifstofuhúsnæði Íslandsbanka, munu víkja til að rýma fyrir uppbyggingu.

Markmið með deiliskipulagi svæðisins er gera mannvænt og fallegt umhverfi í samræmi við áherslur í Aðalskipulagi Reykjavíkur.  Göturými verða hönnuð jafnt fyrir alla ferðamáta og lögð verður áhersla á fjölbreytt græn svæði, nærþjónustu og gæði byggðar.

Gert er ráð fyrir almenningstorgi og listaverkum á svæðinu. Bílageymsla verður staðsett undir torginu og mun hún nýtast íbúum utan skrifstofutíma í bankanum.

Íslandsbanki hyggst sameina alla höfuðstöðvastarfsemi sína á einum stað á Kirkjusandi. Til þess að það megi verða ætlar bankinn að byggja um 7.000 fermetra viðbyggingu við suðvesturenda núverandi skrifstofuhúsnæðis. Áætlað er að framkvæmdir við viðbyggingu hefjist í lok þessa árs og að þær taki um 2 ár.

1339-150128-mynd_frettatilkynning_800-533

Texti: reykjavik.is