Skáldsagan Umhverfis jörðina á 80 dögum eftir Jules Verne hefur notið gífurlegra vinsælda víða um heim allt frá því hún kom út árið 1873. Karl Ágúst og Siggi Sigurjóns hafa nú samið ævintýralegan, nýjan söngleik byggðan á verkinu með fjölda nýrra og skemmtilegra laga eftir Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben úr Skálmöld. Frumsýning er 23. janúar kl. 13.00 á Stóra sviði Þjóðleikhússins.
Breski herramaðurinn Fílías Fogg veðjar um að hann geti ferðast í kringum hnöttinn á 80 dögum. Við sláumst í æsispennandi ferð með honum og Passepartout til framandi landa, siglum um öll heimsins höf og kynnumst þekktum – og minna þekktum – persónum úr mannkynssögunni. Fílías Fogg, sem í upphafi ferðar er uppfullur af hugmyndum um yfirburði breska heimsveldisins, lærir fjölmargt um lífið og tilveruna, og ekki síst um sjálfan sig. Og ástinni kynnist hann á óvæntum stað!
Umhverfis jörðina er sprellfjörugur, fyndinn og ævintýralegur nýr, íslenskur söngleikur fyrir alla fjölskylduna!
Leikarar eru Sigurður Sigurjónsson (Fílías Fogg), Örn Árnason (Passepartout), Karl Ágúst Úlfsson (Fix) og Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Aúda og fleiri hlutverk). Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben sjá um hljóðfæraleik og leika ýmis hlutverk. Jón Stefán Sigurðsson og Stella Björk Hilmarsdóttir sjá um sviðsskiptingar og leika ýmis hlutverk.
Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, Högni Sigurþórsson gerir leikmynd, höfundur búninga er Leila Arge og Ólafur Ágúst Stefánsson sér um lýsingu.
Aðrar fréttir
Listasafn Reykjavíkur hlaut Íslensku safnaverðlaunin 2024
Veitir 40 milljónir í styrki til atvinnumála kvenna
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar